Browsing "Uncategorized"
· Hádegistónleikar Íslensku óperunnar í Norðurljósum þriðjudaginn 17. febrúar kl. 12.15
· Aríur eftir Wagner og Weber, ítölsk og íslensk sönglög eftir Karl O. Runólfsson, Sigvalda Kaldalóns, Tosti og Cardillo í flutningi eins fremsta tenórsöngvara okkar, Kolbeins Ketilssonar
· Aðgangur ókeypis
Tenórsöngvarinn Kolbeinn Jón Ketilsson flytur íslensk og ítölsk sönglög, auk aría úr óperum eftir Carl Maria von Weber og Richard Wagner á næstu hádegistónleikum Íslensku óperunnar í Norðurljósum í Hörpu, ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Tónleikarnir fara fram þriðjudaginn 17. febrúar og hefjast kl. 12.15. Yfirskrift tónleikanna er „Í fjarlægð“, en Kolbeinn mun hefja tónleikana á flutningi þessa þekkta lags Karls O. Runólfssonar.
Kolbeinn er einn okkar fremsti tenórsöngvari og hefur sungið mörg veigamestu tenórhlutverk óperubókmenntanna, m.a. Tristan, Florestan, Erik, Tamino, Max, Cavaradossi og Don José sem og titilhlutverkin í Ævintýrum Hoffmanns, Don Carlo, Parsifal, Tannhäuser og Lohengrin. Hjá Íslensku óperunni hefur hann m.a. sungið Alfredo í La Traviata, Rodolfo í La Bohème, Erik í Hollendingnum fljúgandi og Tenórinn í Ariadne á Naxos. Kolbeinn hefur komið fram í óperum á öllum Norðurlöndunum, í Norður-Ameríku og víðsvegar um Evrópu, m.a. í Staatsoper í München, Parísaróperunni, óperunni í Genf og óperunni í Valencia, og starfað með mörgum frægustu hljómsveitarstjórum heims, m.a. Antonio Pappano, Lorin Maazel, Kurt Masur, Kent Nagano og Zubin Metha. Hann söng Radames í Aidu í fyrstu uppsetningu nýja óperuhússins í Kaupmannahöfn árið 2005, og tenórhlutverkið í 9. sinfóníu Beethovens á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu undir stjórn Vladimirs Ashkenazy vorið 2011. Hann söng hlutverk Don José í uppfærslu Íslensku óperunnar á Carmen haustið 2013.
Aðgangur að tónleikunum er ókeypis eins og að öllum hádegistónleikum Íslensku óperunnar í vetur og eru gestir hvattir til að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti, því jafnan er fullt út úr dyrum á þá.
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Fæddur Vesturbæingur með vestfirskt blóð, dansari, danshöfundur og guðfræðinemi. Um þessar mundir er ég að vinna að nýrri uppsetningu sem einn af meðlimum leikhópsins Sextán elskendur. Sýningin ber titilinn Minnisvarði og verður frumsýnd í byrjun mars í Tjarnarbíói. Hún mun bjarga mannslífum.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Ég er fædd í krabbamerkinu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Mig langaði til þess að verða skurðlæknir! Ég var alltaf heilluð af innyflum.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Ég er rosalega kappsöm og það getur reynst vel, en líka illa þegar ég reyni að gera allt of mikið í einu og það endar með kaos og uppnámi. Sem betur fer á ég erfitt með að æsa mig, en gott með að hlæja.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Morgunmaturinn.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Ég sá nýlega Ekki hætta að anda, og var hrifin af kvenleikanum og ljóðrænunni.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Tónlist, talnaspeki og ýmis önnur dulræn viðfangsefni.
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Tónlist sem samin var áður en ég fæddist.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Neikvæðni og þröngsýni.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Sjórinn.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Úff, erfitt! En ég gæti sagt lestar og matarmarkaðir. Og sjórinn.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
New York
Eiga hund eða kött?
Hvorugt.
Borða heima heima eða úti daglega?
Úti.
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Morgnana.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Vín.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Rauðhaus.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Við verðum að muna að elska eins mikið og við getum, því við erum það sem við elskum.
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Ég er tveggja barna faðir og starfa sem listrænn ráðunautur í Borgarleikhúsinu, aðstoðarleikstjóri í Billy Elliot, framkvæmdastjóri sviðslistahópsins 16 elskenda og framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival. Ég held að ég sé ekki að gleyma neinu!
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Vatnsberi.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Stjarneðlisfræðingur. Byrjaði meira að segja í eðlisfræði við Háskóla Íslands en svo áttaði ég mig á því að ég þyrfti að reikna flókin stærðfræðidæmi alla ævi ef ég ætti að láta draum minn rætast.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Minn helsti kostur er líklega jafnfram minn helsti galli: óþolandi vinnusemi. Ég á það til að sökkva mér ofan í flókin og of krefjandi verkefni, enda nýt ég mín best í auga stormsins hverju sinni!
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Humar. Ef ég ætti að halda öðru fram þá væri ég að ljúga.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Taugar með Íslenska dansflokknum. Virkilega hressandi upplifun! Betra en gott kaffi.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Fyrst og síðast leikhús. Ef ég hefði ekki brennandi áhuga á leikhúsi, þá myndi ég varla starfa við það. Held reyndar að það sé frumskilyrði fyrir starfsánægju að hafa áhuga á starfinu sínu! En þar fyrir utan þá eru áhugamál lestur bóka, borðspil og hlutverkaspil. Nýverið kynnti ég hlutverkaspil fyrir hópi af leikurum og nú spilum við að jafnaði einu sinni í viku!
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Allt milli himins og jarðar. En þessa dagana þá hlusta ég örugglega mest á Cocteau Twins, London Grammar og Hozier.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Tímasóun á borð við biðraðir, innantóman pirring og leti.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Snæfellsnesið. Ég fór ekki í sveit á sumrin sem krakki, en eyddi þess í stað sumrunum hjá frænku minni í Rifi á Snæfellsnesi. Sama hversu oft ég heimsæki Snæfellsnesið þá uppgötva ég í sífellu nýjar víddir á svæðinu, hvort heldur um ræðir merkilegar söguminjar eða stórfenglega náttúru . Ótrúlega magnaður staður.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Indland. Þetta er kannski dálítið stórt svar, en spurning er stór. Indland er einfaldlega fríkaðasti og furðulegasti staður sem ég hef heimsótt.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
New York
Eiga hund eða kött?
Hund.
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Kvöldin.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Bjór.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Jákvæður.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt…
Tíminn og vitund mín sjálfs, nefnist ný þriggja þátta röð sem frumflutt verður næstu þrjá sunnudaga í Útvarpsleikhúsinu á sunnudögum kl. 13 á Rás 1.
Þáttaröðinn sem er eftir Trausta Ólafsson sem jafnframt stjórnar flutningi og í hljóðvinnslu Einars Sigurðssonar,
Í þáttaröðinni segir bandaríska leikskáldið Arthur Miller (f. 17.október 1915 – d. 10.febrúar 2005) frá lífi sínu og leikritum. Í ár eru hundrað ár liðin frá fæðingu hans og tíu ár frá andláti hans.
Þættirnir byggjast á sjálfsævisögu leikskáldsins sem kom út árið 1987 en þar segir Miller frá einkalífi sínu og hugmyndum að baki leikritanna sem öfluðu honum heimsfrægðar.
Í hlutverki Arthur Millers er Þorsteinn Gunnarsson.
Aðrir flytjendur: Þórunn Magnea Magnúsdóttir, Trausti Ólafsson og Þór Tulinius.
Í þáttunum eru einnig flutt valin brot úr leikritum Millers úr safni Útvarpsleikhússins í flutningi margra okkar helstu leikara í gegnum tíðina.
sunnudagur 8.febrúar kl. 13:00
Útvarpsleikhúsið: Tíminn og vitund mín sjálfs
1. þáttur
eftir Trausta Ólafsson.
Bandaríska leikskáldið Arthur Miller (f. 17.október 1915 – d. 10.febrúar 2005) segir frá lífi sínu og leikritum.
Í hlutverki Arthur Millers: Þorsteinn Gunnarsson.
Aðrir flytjendur: Þórunn Magnea Magnúsdóttir, Trausti Ólafsson og Þór Tulinius.
Í þættinum eru flutt brot úr leikriti Millers úr safni Útvarpsleikhússins: Sölumaður deyr í þýðingu Jónasar Kristjánssonar í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Leikarar: Gunnar Eyjólfsson og Pétur Einarsson.
sunnudagur 15.febrúar kl. 13:00
Útvarpsleikhúsið: Tíminn og vitund mín sjálfs
2. þáttur
eftir Trausta Ólafsson.
Bandaríska leikskáldið Arthur Miller (f. 17.október 1915 – d. 10.febrúar 2005) segir frá lífi sínu og leikritum.
Í hlutverki Arthur Millers: Þorsteinn Gunnarsson.
Lesari auk hans: Þór Tulinius.
Í þættinum eru flutt brot úr leikritum Millers úr safni Útvarpsleikhússins: Horft af brúnni í þýðingu Jakobs Benediktssonar í leikstjórn Lárusar Pálssonar og Sölumaður deyr í þýðingu Jónasar Kristjánssonar í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Leikarar í þessum leikritabrotum: Lárus Pálsson, Róbert Arnfinnsson, Regína Þórðardóttir, Haraldur Björnsson, Ólafur Þ. Jónsson, Kristbjörg Kjeld, Helgi Skúlason, Gunnar Eyjólfsson, Margrét Guðmundsdóttir, Rúrik Haraldsson, Hilmir Snær Guðnason, Rúnar Freyr Gíslason og Pétur Einarsson.
sunnudagur 22.febrúar kl. 13:00
Útvarpsleikhúsið: Tíminn og vitund mín sjálfs
3. þáttur
eftir Trausta Ólafsson.
Bandaríska leikskáldið Arthur Miller (f. 17.október 1915 – d. 10.febrúar 2005) segir frá lífi sínu og leikritum.
Í hlutverki Arthur Millers: Þorsteinn Gunnarsson.
Lesari auk hans: Þórunn Magnea Magnúsdóttir.
Í þættinum eru flutt brot úr leikritum Millers úr safni Útvarpsleikhússins: : Horft af brúnni í þýðingu Jakobs Benediktssonar í leikstjórn Lárusar Pálssonar og Sölumaður deyr í þýðingu Jónasar Kristjánssonar í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Leikarar í þessum leikritabrotum: Lárus Pálsson, Róbert Arnfinnsson, Regína Þórðardóttir, Haraldur Björnsson, Ólafur Þ. Jónsson, Kristbjörg Kjeld, Helgi Skúlason, Gunnar Eyjólfsson, Margrét Guðmundsdóttir, Rúrik Haraldsson, Hilmir Snær Guðnason, Rúnar Freyr Gíslason og Pétur Einarsson.
Heyrst hefur að tveir brennuvargar hafi hreiðrað um sig á loftinu hjá herra Biedermann, í gamla Samkomuhúsinu á Húsavík. Hvort rétt reynist kemur í ljós kl. 16.00 laugardaginn 7. febrúar þegar Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Brennuvargana eftir Max Frisch í leikstjórn Ármanns Guðmundssonar. Bjarni Jónsson þýddi verkið.
Bissnessmaðurinn Biedermann og kona hans búa í bæ þar sem mikið hefur verið um húsbruna. Dag einn bankar upp á hjá honum uppgjafa glímukappi, Schmitz að nafni og áður en hann veit af er Biedermann búinn að bjóða honum að hreiðra um sig upp á lofti hjá sér. Fyrr en varir eru gestirnir orðnir tveir, loftið fullt af grunsamlegum tunnum og allt bendir til að þarna séu brennuvargarnir á ferð. Og hvað er þá hægt að taka til bragðs til að bjarga eigin skinni? Jú, halda þeim veislu…
Næstu sýningar verða þriðjudaginn 10. febrúar, föstudag 13. febrúar og laugardag 14. febrúar.
Nánari upplýsingar á www.leikfelagid.is
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Ég er hitt og þetta og er að leika í Sjálfstæðu fólki í Þjóðleikhúsinu, leikstýra Hystory í Borgarleikhúsinu, ganga frá kvikmyndahandriti og undirbúa þáttaskrif á milli þess sem ég sinni því sem máli skiptir.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Ég er nokkuð miðjusett Vog.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Það sem maður verður áður en maður verður lítill aftur.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Hvatvísi.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Það sem fram er í boði hverju sinni og ég get lagt mér til munns með góðri samvisku.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Sýningu Kriðpleirs á hinni Síðbúnu rannsókn á sakamáli Jóns Hreggviðssonar í Tjarnarbíói.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Að skilja hismið frá kjarna.
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Ég er alæta. Nú er ég að hlusta á verk tónskáldsins David Lang í bland við hana Siu blessaða, þar á undan var það Mongólskt Yoik og síðpoppararnir í Metronomy.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Ætli það sé ekki ég sjálfur þegar svo ber undir.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Þar sem jökulinn ber við loft og fegurðin ríkir ein ofar allri kröfu.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Þar sem ég hef aldrei verið áður.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
Hvorugt.
Eiga hund eða kött?
Hvorugt.
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Morgnana.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Vín.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Nöfn.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Get ekki gert upp á milli.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Leitandi.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Nei nei.
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Íslendingur fædd í Noregi. Starfa með þeim frábæra hópi Vesturport og reyni að fá þjóðina til að vera meira Vakandi fyrir matarsóun.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Tvíburamerkinu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Dýralæknir.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
óskipulag og hraði… getur bæði verið kostur og galli.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Fiskibollur í bleikri sósu.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Karítas.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Vakandi – Vitundarvakning um matarsóun.
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Rokk og rokkballöður.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Fréttirnar – þær eru alltaf neikvæðar – ég trúi því að það sé mun meira jákvætt að gerast…
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Suðureyri við Súgandafjörð.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
London og Osló.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
London.
Eiga hund eða kött?
Kött.
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Kvöldin.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Hvorugt.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Sjónvarp.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Get ekki gert upp á milli.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Vakandi.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Hvet fólk til að kíkja í ísskápinn áður en það fer út að versla til að sjá hvort það vanti alveg örugglega mat…
Björt í sumarhúsi er nýr íslenskur söngleikur fyrir börn á öllum aldri eftir Elínu Gunnlaugsdóttur og Þórarin Eldjárn. Textinn byggir á ljóðum úr bókinni „Gælur, fælur og þvælur“. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir, Kristina Berman gerir leikmynd og búninga. Næatu sýningar eru kl. 13.00 og 15.00 laugardaginn 14. febrúar.
Sagan segir frá barni í pössun hjá afa sínum og ömmu í sumarbústað en þar er lítið við að vera og barninu leiðist. Í bústaðnum eru engin nútímatæki eins og tölvur og snjallsímar. Afinn og amman reyna að hafa ofan af fyrir barninu, en það gerist æ óþægara.
Glói gullfiskur, fiskifluga, könguló, draugur og fleiri koma við sögu en að lokum finnast bækur í bústaðnum og barnið kemst í ró. Verkið er ærslakennt og er tónlistin í anda verksins, létt og leikandi. Björt í sumarhúsi er einlæg og bráðskemmtileg fjölskyldusýning sem á ríkt erindi við íslensk börn í samtímanum.
Söngleikurinn var frumsýndur í Hörpu 1. febrúar og var framlag Töfrahurðar til tónlistarhátíðarinnar Myrkir músíkdagar. Aukasýningar í Tjarnarbíói hefjast 14. febrúar.
Björt í sumarhúsi er samstarfsverkefni Töfrahurðar og Óperarctic félagsins.
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Ég er stjórnandi Útvarpsleikhússins á RÚV og er jafnframt dagskrárgerðarmaður á Rás 1. Þar nýtist afar vel menntun mín og reynsla sem leikari og leikstjóri. Ég hef helgað líf mitt leiklist, einfaldlega vegna þess að ekkert annað hefur heillað mig meira. En ég er þó enn að leita að fleiri möguleikum í lífinu til að hrífa mig… Það er aldrei að vita nema eitthvað nýtt verði á vegi mínum… Lífið er svo óútreiknanlegt.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Tvíburamerkið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Leikhúslistamaður.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Helsti kostir mínir eru skipulagshæfileikar og hugmyndaauðgi. Helstu gallar eru einnig þeir sömu, auk hvatvísi, sem getur nú stundum líka verið kostur.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Allur matur úr fersku og hreinu hráefni sem Sveinn Kjartansson maðurinn minn og veitingamaður á AALTO Bistro eldar.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Ekki hætta að anda.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Leiklist og mannlíf í sinni fjölbreyttustu mynd.
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Þar sem fegurðin ríkir með hæfilegum skammti af drama.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Óstundvísi og ónákvæmni.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Svartir sandar örævanna.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Þar sem enginn þekkir mig.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
New York.
Eiga hund eða kött?
Hund.
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Morgnana.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Bjór.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Ófyrirsjánlegur (vona ég!)
· Forsala á hófst í morgun
· Mikill áhugi á sýningunni
· Verið að bæta starfsfólki í miðasöluna
Í morgun kl 10 hófst forsala á Billy Elliot sem verður frumsýnt 6.mars. Á hádegi höfðu yfir 10 þúsund leikhúsgestir tryggt sér miða og er augljóslega mikill áhugi á sýningunni. Forsölutilboðið er einungis í dag og er verið að bæta fólki í miðasöluna til að anna eftirspurn.
„Þetta er eiginlega fyrst raunverulegt núna að þetta sé að fara að bresta á, sérstaklega þegar maður sér hvað það er mikill áhugi á sýningunni. Það er smá fiðringur í maganum svona blanda af stressi og spennu yfir því að sjá þetta lifna við á sviðinu” Segir Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri.
Sýningin er sú stærsta sem Borgarleikhúsið hefur sett upp en 68 listamenn taka þátt í henni, það eru 33 börn, 24 fullorðnir og 11 hljómsveitarmeðlimir. Frumsýning er áætluð 6.mars. Þrír glæsilegir ungir strákar deila aðalhlutverkinu og leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson.
Verkið Billy er á leiðinni í boxtíma þegar hann lendir fyrir slysni á dansæfingu. Hann byrjar að hreyfa sig í takt við tónlistina og uppgötvar sér til furðu að þetta er ekki einungis það skemmtilegasta sem hann hefur gert heldur er hann einfaldlega fæddur til að dansa.
Billy á sér draum sem samræmist ekki hugmyndum fullorðna fólksins, hann dreymir um að verða dansari á heimsmælikvarða og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar. Billy Elliot er þroskasaga unga fólksins og hinna fullorðnu – mögnuð og falleg saga um baráttu drengs við fordóma samfélagsins og fjölskyldunnar um að fá að vera sá sem hann er. Þetta er kraftmikið verk um alvöru fólk með skotheldri og grípandi tónlist eftir Elton John, stórfenglegum hópdansatriðum og ótrúlega hæfileikaríkum dreng í aðalhlutverki sem á eftir að fá áhorfendur til að gapa af undrun..
Aðstandendur Höfundur: Lee Hall & Elton John | Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson | leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson |Tónlist: Elton John | Leikmynd: Petr Hlousek | Búningar: Helga I. Stefánsdóttir | Lýsing: Þórður Orri Pétursson | Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen| Leikarar: Baldvin Alan Thorarensen, Hjörtur Viðar Sigurðarson, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Halldór Gylfason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Sigurður Þór Óskarsson, Örn Árnason og fleiri.