Browsing "Uncategorized"
Ubbi kóngur eftir Alfred Jarry – skrípaleikur í mörgum atriðum er sett upp af Leikfélagi Hafnafjarðar um þessar mundir í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.
Á annan tug leikara og hljóðfæraleikara taka þátt í sýningu LH, en aðalhlutverkin, Ubbi kóngur og Ubba kona hans, eru í höndum Halldórs Magnússonar og Huldar Óskarsdóttur. Tónlistin er frumsamin af Eyvindi Karlssyni fyrir sýninguna og söngtextar eru eftir Karl Ágúst Úlfsson og Þórarin Eldjárn.
Leikritið Ubbi kóngur er kannski betur þekkt sem Bubbi kóngur, en Herranótt frumflutti það hér á landi undir því nafni árið 1969 í leikstjórn Sveins Einarssonar. Aðalhlutverk í þeirri uppfærslu voru leikin af Davíð Oddssyni og Signýju Pálsdóttur.
Leikritið er óhefðbundið og gráglettið ærslaverk fyrir fullorðna og er meginþema verksins græðgi, spilling og valdníð.
Alfred Jarry skrifaði Ubba kóng (Ubu roi á frummálinu) undir lok 19. aldar og vakti leikritið heit viðbrögð þegar það var fyrst flutt í París árið 1896. Steingrímur Gautur Kristjánsson þýddi verkið upphaflega, en Leikfélag Hafnarfjarðar flytur það nú í nýrri og endurbættri þýðingu hans.
Ágústa Skúladóttir er einn vinsælasti leikstjóri á landinu í dag. Ubbi kóngur erfimmta sýningin undir hennar stjórn á fjölunum á þessu leikári. Hinar fjórar, Lína Langsokkur í Borgarleikhúsinu, Öldin okkar með hljómsveitinni Hundi í óskilum hjá Leikfélagi Akureyrar og í Borgarleikhúsinu, Töfraflautan – óperusýning fyrir börn í Hörpu og söngleikurinn Björt í sumarhúsi sem fluttur var í Hörpu og Tjarnarbíói, hlutu allar einróma lof gagnrýnenda.
Miðasala í síma 565 5900.
Næstu sýningar:
2. sýning þriðjudaginn 14. apríl kl. 20
3. sýning laugardaginn 18. apríl kl. 20
4. sýning þriðjudaginn 21. apríl kl. 20
Borgarleikhúsið frumsýnir Peggy Pickit eftir Roland Schimmelpfennig þann 22. apríl, leikstjóri er Vignir Rafn Valþórsson. Urrandi fersk háðsádeila frá einu merkasta og umtalaðasta leikskáldi Evrópu.
HVAÐ ÞURFUM VIÐ EIGINLEGA AÐ BURÐAST LENGI MEÐ AFRÍKU Á SAMVISKUNNI?
Fyrir sex árum útskrifuðust tvö pör saman úr læknanámi. Þau voru bestu vinir og gerðu allt saman. En svo skildu leiðir. Lísa og Frank fengu góðar stöður á hátæknispítalanum hér heima og lifa góðu lífi: eiga stóra íbúð, fínan bíl og litla dóttur. Katrín og Marteinn fóru aftur á móti til Afríku til starfa sem læknar án landamæra. Þau eiga ekkert. Nú eru þau loks komin heim og það kallar á endurfundi. En hversu mikið eiga pörin ennþá sameiginlegt? Geta Lísa og Frank einhvern tímann sýnt ástandinu í Afríku skilning? Geta Katrín og Marteinn áttað sig á allri þeirri pressu sem hvílir á okkur sem heima sitjum? Það geta ekki allir bara farið og bjargað heiminum! Og hvernig gátu þau skilið eftir litlu munaðarlausu stelpuna sem búið er að eyða svo miklum peningum í að bjarga? Af hverju tóku þau hana ekki með sér heim? Hver á núna að fá Peggy Pickit?
Siðferði, ábyrgð, samviskubit, vanmáttur, samkennd og nýjasta útgáfan af hinni geysivinsælu Peggy Pickit dúkku.
Roland Schimmelpfennig er þekktasta samtímaleikskáld Þjóðverja. Leikrit hans hafa verið sýnd um allan heim og einkennast af óvæntri sýn á mannfólkið. Eitt af megin- einkennum leikrita hans er hvernig hann vinnur með tímann og endurtekninguna, og reynir þannig skemmtilega á þanþol leikhússins. Peggy Pickit sér andlit Guðs er hluti þríleiks um Afríku sem saminn var fyrir Vulcano-leikhúsið í Toronto, Kanada árið 2010 og tileinkaður flóknu sambandi álfunnar og hins vestræna heims.
Dansarinn Emilía Benedikta Gísladóttir fer með aðalhlutverkið í uppsetningu dansflokksins Compañía Nacional de Danza á Carmen.
„Þetta er bara algjört draumahlutverk. Og sérstaklega gaman að túlka sjálfa Carmen hér á Spáni. Þetta er algjörlega stærsta hlutverk sem ég hef fengið,“ segir Emilía. Verkið verður frumsýnt í kvöld í Teatro de la Zarzuela í Madríd. „Ég hlakka rosalega til. Þetta er búið að vera mikið stress og ýmislegt sem hefur gengið á. En nú er bara að njóta,“ segir hún.
Mikið er lagt í sýninguna og prýða stórar auglýsingar með Emilíu strætóa og veggi í neðanjarðarlestargöngum Madrídborgar. „Þetta er svolítið fyndið, en ekkert yfirþyrmandi samt. Madríd er stór borg þannig að ég pæli ekkert í því þannig ef fólk þekkir mig. Fyrir mér skiptir meira máli að njóta þess að sýna verkið,“ segir hún. Eftir frumsýningu taka við tíu sýningar í Madríd, en hópurinn heldur svo í sýningarferð til Þýskalands og um Spán.
Emilía hefur verið búsett á Spáni í þrjú ár, þar sem hún býr með fjölskyldunni sinni; manni og syni. „Ég fór í prufur hjá dansflokknum fyrir þremur árum og komst inn. Okkur leist svo vel á að við fluttumst svo hingað og líkar vel.“
Það eru aukasýningar á Óþarfa offarsa hjá Leikfélagi Kópavogs í apríl.
Borgarstjórinn liggur undir grun um fjárdrátt og lögreglan undirbýr gildru á móteli til að standa hann að verki. Fljótt kemur í ljós að lögreglufulltrúarnir tveir eru ekki þeir allra hæfustu og samband annars þeirra við kynsveltan endurskoðanda í næsta herbergi einfaldar ekki framvinduna. Þegar við þetta bætast svo óöruggur öryggisvörður úr Ráðhúsinu, illskiljanlegur leigumorðingi og elskuleg borgarstjórafrú er ekki von á góðu.
Miðaverð er 2.600 kr. en eldri borgarar fá miðann á 1.300 kr. Miðasala: midasala@kopleik.is.
Aukasýningar í apríl:
Lau. 17. apríl kl. 20.00
Sun. 19. apríl kl. 20.00
Fim. 23. apríl kl. 20.00
Víðfrægi og sívinsæli stórsöngleikurinn Fiðlarinn á þakinu var frumsýndur fimmtudaginn 26. febrúar kl. 20 í Freyvangsleikhúsinu.
Um að gera að koma og heimsækja rússneska smáþorpið Anatevka, þar sem mjólkurpósturinn Tevye býr ásamt fjölskyldu sinni. Kynnist lífi lítils gyðingasamfélags, þar sem þorpsbúar lifa í föstum skorðum, mótuð af aldagömlum hefðum og siðvenjum. Sjáið hvaða átök verða þegar æskan sýnir gömlu siðunum mótþróa og vill fá að leyfa hjartanu að ráð för.
Þessi bráðskemmtilegi söngleikur er eitt það stærsta sem hefur verið sett upp á fjölum Freyvangsleikhússins.
15. sýning fös 10. apríl kl. 20
– UPPSELT –
16. sýning lau 11. apríl kl. 20
– UPPSELT –
17. sýning fös 17. apríl kl. 20
– ÖRFÁ SÆTI LAUS –
18. sýning lau 18. apríl kl. 20
19. sýning fös 24. apríl kl. 20
20. sýning lau 25. apríl kl. 20
Miðasala er í fullu fjöri í síma 857-5598 virka daga á milli kl. 18-20 og 17-20 sýningardaga. Einnig er hægt að senda póst á freyvangur@gmail.com og á Facebook síðu félagsins www.facebook.com/freyvangur
Konan við 1000° – Síðasta sýning 12.apríl
eftir Hallgrím Helgason
Ótrúleg ævi einstakrar konu sem upplifði umrót og hörmungar tuttugustu aldarinnar víða um lönd og endaði ævina í íslenskum bílskúr
„Ég var svo ljónheppin að fá að vera barn á tímum fasismans og gamalmenni á tímum græðginnar.“
Skáldsaga Hallgríms Helgasonar Konan við 1000° vakti á sínum tíma mikla athygli og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún hefur nú verið þýdd á níu tungumál og hvarvetna hlotið góða dóma og viðtökur. Hún hefur meðal annars hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar í Frakklandi og á Spáni.
Herbjörg María Björnsson átti viðburðaríka daga. Frá bernsku í Breiðafirði til stríðsloka í Berlín, frá kvöldverði á Bessastöðum til barnsmissis í Buenos Aires… og varð á endanum útlagi í eigin landi, í bílskúr í austurbæ Reykjavíkur.
Sagan byggir að hluta til á sönnum atburðum en rétt eins og skáldsagan tilheyrir leikgerðin skáldskapnum fyrst og fremst.
————
SJÁLFSTÆTT FÓLK – HETJUSAGA – Síðasta sýning 19.apríl
Leikstjórinn Þorleifur Örn Arnarsson tekst á við Sjálfstætt fólk, eftir magnaða uppfærslu á Englum alheimsins
“Hann sáði í akur óvinar síns, allt sitt líf, dag og nótt.”
Sjálfstætt fólk er ein ástsælasta skáldsaga íslenskra bókmennta fyrr og síðar. Þorleifur Örn Arnarsson og samstarfsmenn hans, sem nýlega settu á svið í Þjóðleikhúsinu ógleymanlega sýningu á Englum alheimsins, takast hér á við þetta magnaða verk Halldórs Laxness og fara með okkur í einstakt ferðalag um sögu þjóðarinnar
Sjálfstætt fólk gerist í upphafi 20. aldar og segir frá einyrkjanum Bjarti í Sumarhúsum og fólkinu í kringum hann, og baráttu hans fyrir því að halda sjálfstæði sínu, hvað sem það kostar.
Sýningin Englar alheimsins var frumsýnd vorið 2013 og fékk frábærar viðtökur. Hún var tilnefnd til níu Grímuverðlauna og hlaut meðal annars verðlaunin fyrir besta leikrit ársins. Sýningin var að margra áliti sannkallaður viðburður í íslensku leikhúslífi, og gagnrýnendur töluðu meðal annars um að hún væri „fullkomin útfærsla á skáldsögunni“ og „mögnuð leikhúsupplifun“. Leikur Atla Rafns Sigurðarsonar í aðalhlutverkinu þótti snilldarlegur, en hann mun nú fara með hlutverk Bjarts í Sumarhúsum.
Æfingar standa nú yfir hjá Leikfélagi Sauðárkróks á gamanleiknum Barið í brestina eftir Guðmund Ólafsson. Leikurinn gerist á heilbrigðisstofnun sem einnig er elliheimili og koma þar við sögu starfsmenn stofnunarinnar, vistmenn, bæjarstjóri og ráðherra. Þá er minnst á færeyskan fótboltamann og magaspeglunartæki sem ráðherrann hefur mikinn áhuga á að skoða.
15 leikarar leika í uppsetningunni. Flestir hafa áður komið við sögu félagsins, en einnig eru nokkrir að stíga sín fyrstu skref á sviðið með félaginu.
Leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson en hann leikstýrði fyrst hjá LS árið 2002 og er nú að leikstýra í sjöunda skiptið hjá félaginu.
Frumsýnt verður á opnunardegi Sæluviku Skagfirðinga þann 26. apríl næstkomandi.
Trúðanámskeið verður haldið í Rýminu, æfingahúsnæði MAK við Hafnarstræti í apríl. Kennari er Sólveig Guðmundsóttir, sem leikur um þessar mundir í Lísu í Undralandi, en hún hefur unnið mikið með trúðatækni sl. ár. Farið verður í grunn tækniæfingar, hver þátttakandi mun þróa sinn trúð og vinna með trúðinn sinn í gegnum spuna og leiki. Námskeiðið er opið öllum frá 18 ára aldri hvort sem fólk hefur reynslu af leiklist eður ei.
Þetta er tækni sem nýtist bæði í leik og starfi. Leikarar skerpa verkfæri sín í spunavinnu og hlustun og kennarar finna oft nýjar leiðir til að vinna kennsluefni. Þessi tækni hefur nýst þáttakendum sem þjálfun í að koma fram, flytja fyrirlestra, opna á skapandi hugsun en er umfram allt til gamans og frábært tækifæri til að stíga aðeins út fyrir rammann.
Námskeiðið verður er 3 x 3, 5 tímar dagana:
Þriðjudaginn 7. apríl kl. 18.00 til 21.30
Miðvikudaginn 8. apríl kl. 18.00 til 21.30
Fimmtudaginn 9. apríl kl. 18.00 til 21.30
Kennari: Sólveig Guðmundsdóttir leikkona.
Verð: Almennt verð kr. 15.000
Námsmannaverð kr. 12.000
– ath. takmarkaður fjöldi kemst á námskeiðið.
Skráning og upplýsingar eru í gegnum netfang: sgudmundsdottir@hotmail.com Upplýsingar í síma: 6611492
ATh. Hægt er að fá námskeiðið endurgreitt eða niðurgreitt af ýmsum stéttarfélögum. Félagar FÍL geta fengið helminginn endurgreiddan frá FÍL.
Sólveig Guðmundsdóttir útskrifaðist frá Arts Educational School of Acting 2002 og hefur starfað sem leikkona, kennari og framleiðandi frá útskrift. Sólveig hefur unnið með trúðatækni í um 16 ár. Hún lærði af Bergi Þór Ingólfssyni, Rafael Bienciotto, Angelu De Castro og fleirum. Hún var aðstoðarleikstjóri Rafaels við Dauðasyndirnar, trúðasýningu sem sýnd var í Borgarleikhúsinu og við Þrettándakvöld sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu. Sólveig lék í trúðasýningunni Bláa gullið – barnasýning um vatn sem var sýnd í Borgarleikhúsinu. Hún hefur einnig kennt trúðatækni á ýmsum námskeiðum m.a. fyrir KHÍ, LHÍ og á Akureyri. Sólveig er hluti af Pörupiltum, drag-uppistandshóp sem nota trúðatæknina mikið í sinni vinnu.
Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga verður haldinn að Melum í Hörgárdal dagana 2. og 3. maí 2014. Gist verður í Skjaldarvík.
Leikfélag Hörgdæla býður öllum fundargestum í óvissuferð eftir kvöldverð föstudaginn 1. maí. Fundurinn verður settur laugardagsmorguninn 2. maí kl. 9.00 og honum slitið um hádegisbil sunnudaginn 3. maí.
Dagskrá:
Föstudagur 1. maí:
19.00 Kvöldverður í Skjaldarvík
Óvissuferð í boði Leikfélags Hörgdæla
Laugardagur 2. maí:
08.00-09.00 Morgunverður í Skjaldarvík
Rúta að Melum
09:00-12.00 Aðalfundur settur að Melum
12:00 -13.00 Hádegisverður að Melum
13:00-17.00 Framhald aðalfundar
17:00 Fundarhlé
Rúta frá Melum og til baka um kvöldið
20:00 Hátíðarkvöldverður að Melum Skemmtidagskrá og samvera
Rúta í Skjaldarvík
Sunnudagur 3. maí:
08.00 -09.00 Morgunverður í Skjaldarvík
Rúta að Melum
09:00-12.00 Framhald aðalfundar og fundarslit
Rúta í Skjaldarvík
12.00 Hádegisverður í Skjaldarvík
Dagskrá aðalfundar er í lögum Bandalagsins.
Samhliða aðalfundi fer fram sýning á leikskrám og veggspjöldum leikársins 2014-2015.
Val Þjóðleikhússins á Athyglisverðustu áhugasýningu leikársins verður að venju kynnt á hátíðakvöldverðinum. Frestur til að senda Þjóðleikhúsinu umsóknir rennur út mánudaginn 20. apríl.
Boðið er uppá eftirtalda pakka frá föstudegi til sunnudags:
1. Tveggja manna herbergi, 2 nætur með öllu fæði og rútuferðum 22.500 á mann
2. Matur á laugardegi, hátíðakvöldverður og fundarseta án gistingar kr. 8.500 á mann
Gisting og morgunverður verða í Skjaldarvík. Þar er boðið uppá tveggja manna herbergi með uppbúnum rúmum, snyrtingar eru sameiginlegar á göngum. Leikfélag Hörgdæla býður í óvissuferð á föstudagskvöldið, farið verður frá Skjaldarvík eftir kvöldverðinn. Félagið sér einnig um akstur að Melum og til baka í Skjaldarvík eftir þörfum.
Tilkynnið þátttöku fyrir 15. apríl og takið fram hvern af ofantöldum pökkum þið viljið kaupa. Vinsamlegast greiðið þátttökugjaldið um leið inn á reikning 0334-26-5463, kt. 440169-0239 og látið bankann senda kvittun á netfangið info@leiklist.is
Billy er á leiðinni í boxtíma þegar hann lendir fyrir slysni á dansæfingu. Hann byrjar að hreyfa sig í takt við tónlistina og uppgötvar sér til furðu að þetta er ekki einungis það skemmtilegasta sem hann hefur gert heldur er hann einfaldlega fæddur til að dansa.
Billy á sér draum sem samræmist ekki hugmyndum fullorðna fólks- ins, hann dreymir um að verða dansari á heimsmælikvarða og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar. Billy Elliot er þroskasaga unga fólksins og hinna fullorðnu – mögnuð og falleg saga um baráttu drengs við fordóma samfélagsins og fjölskyldunnar um að fá að vera sá sem hann er. Þetta er kraftmikið verk um alvöru fólk með skotheldri og grípandi tónlist eftir Elton John, stórfenglegum hópdansatriðum og ótrúlega hæfileikaríkum dreng í aðalhlutverki sem á eftir að fá áhorfendur til að gapa af undrun.
Söngleikurinn um Billy Elliot var frumsýndur á West End í London árið 2005 og hefur vakið gríðarlega athygli um víða veröld. Sýningin hlaut mikið lof og fjölda verðlauna og er nú loksins komin í Borgarleikhúsið undir stjórn sama hóps og færði okkur Mary Poppins. Hér blandast saman blússandi húmor og stórkostleg dans- og söngatriði svo úr verður sann- kölluð flugeldasýning með einvala liði leikara og auðvitað íslenskum Billy
Höfundar: Lee Hall og Elton John
Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson Meðframleiðandi: Baltasar Kormákur
Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson
Danshöfundur: Lee Proud
Leikmynd: Petr Hlousek
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Tónlist: Elton John
Tónlistarstjóri: Agnar Már Magnússon Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson
Aðstoðarleikstjóri: Hlynur Páll Pálsson
Leikarar: Álfrún Örnólfsdóttir, Björn Stefánsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Jensson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Jóhann Sigurðarson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Halldór Gylfason, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Magnús Guðmundsson, Sigurður Þór Óskarsson, Baldvin Alan Thorarensen, Hjörtur Viðar Sigurðarson, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Örn Árnason o.fl.