Browsing "Uncategorized"
Aukasýning á „Þvottur“ eftir Matthías Tryggva Haraldsson verður sýnd í Tjarnarbíói þann 8. mars, kl. 20:30
„Þessi skafa er hluti af mér, þessi skafa er ég og ég er þessi skafa.“
Þvottur er stutt leikrit um eilífan glerþvott. Maður nokkur þvær stóra plötu með lítilli sköfu. Annar sér til þess að platan sé þvegin. Þriðji á plötuna og sköfuna og hefur komið reglu á hlutina í þessum rokrassi.
Ketiltetur kompaní er sjálfstæður sviðslistahópur sem varð til innan veggja Listaháskóla Íslands haustið 2015. Listrænir stjórnendur og leikarar eru nemar við Sviðslistadeild LHÍ.
AÐSTANDENDUR
Handrit og leikstjórn: Matthías Tryggvi Haraldsson
Aðstoðarleikstjórn og útlit: Alma Mjöll Ólafsdóttir
Framleiðsla og ljós: Stefán Ingvar Vigfússon
Tónlist: Friðrik Guðmundsson
Leikmynd: Klemens Hannigan
Leikarar:
Aron Már Ólafsson – Jósef
Árni Beinteinn – Jens
Hákon Jóhannesson – Styrmir
Ljósmyndari: María Guðjohnsen
Grafísk hönnun: Helga Dögg Ólafsdóttir
Hrífandi verk um einelti, einsemd og óvenjulega vináttu.
Unglingsstrákurinn Óskar er einmana og vinalaus, og lagður í gróft einelti í skóla. Þegar hin dularfulla Elí flytur inn í íbúðina við hliðina á honum, þar sem hann býr einn með móður sinni, umturnast tilvera hans.
Þegar undarlegir og óhugnanlegir atburðir fara að eiga sér stað á svæðinu, áttar Óskar sig smám saman á því hvert leyndarmál Elí er. Hún er vampíra, sem verður að nærast á blóði fólks til að komast af. En hún er líka einstaklingur sem er einmana og utangarðs, rétt eins og Óskar sjálfur. Smám saman þróast á milli Óskars og Elís vinátta sem hvorugt þeirra átti von á eða gat látið sig dreyma um.
Hvað myndir þú taka til bragðs ef nýi nágranninn þinn væri vampíra?
Leikritið Hleyptu þeim rétta inn er byggt á metsölubók og kvikmynd sænska rithöfundarins Johns Ajvides Lindqvists. Sænska kvikmyndin hefur notið mikillar hylli og var endurgerð í Hollywood undir nafninu Let Me In. Leikritið Let the Right One In hefur verið sýnt við miklar vinsældir í Royal Court leikhúsinu í London, Skoska þjóðleikhúsinu, St. Ann’s Warehouse í New York og á Norðurlöndunum.
Aldursviðmið: Fyrir fullorðna og óhrædda unglinga frá 12 ára aldri.
Þjóðleikhúsið býður áhorfendum upp á umræður eftir 6. sýningu verka, með þátttöku leikara og listrænna aðstandenda.
Verkið er sýnt samkvæmt samkomulagi við Marla Rubin Productions Ltd.
Þann 13. mars nk. er síðasta sýning á leikverkinu „Flóð“ sem sýnd er á Litla sviði Borgarleikhússins.
Flóð er áhrifamikið nýtt íslenskt heimildaverk um mikilvægi þess að varðveita söguna fyrir börnin okkar og framtíðina, um samstöðu og samheldni og það sem skiptir raunverulegu máli í lífinu.
Árið 1995 féll stórt snjóflóð á bæinn Flateyri á Vestfjörðum. Þrjátíu og þrjú hús lentu undir flóðinu, tuttugu manns týndu lífi, þrjátíu og fjórir björguðust. Flóð er heimildaverk byggt á þessum atburðum. Á þessu ári eru 20 ár liðin frá því að flóðið féll og vill Borgarleikhúsið minnast atburðanna sem mörkuðu djúp spor í þjóðarsálina á sínum tíma.
Þátttakendur í sýningunni rannsaka og rifja upp atburði, spyrja spurninga og raða saman brotum frá þessari örlagaríku nótt 26. október árið 1995. Við fáum innsýn í sögur fólksins í þorpinu, þeirra sem lentu í flóðinu og þeirra sem stóðu utan við það, björgunarmanna og barnanna sem voru of ung til að muna atburðarásina en lifðu eftirmála flóðsins og ólust upp við umtalið og þögnina sem fylgdi í kjölfarið. Verkið er byggt á nýlegum viðtölum við Flateyringa og unnið í nánu samstarfi við þá.
Hrafnhildur Hagalín (1965) er leikskáld og listrænn ráðunautur Borgarleikhússins. Hún hefur sent frá sér leikrit um áratugaskeið og hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.
Björn Thors (1978) er margverðlaunaður leikari. Hann var meðhöfundur að verkinu Kenneth Máni sem sló rækilega í gegn
í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári.
Flóð er hans fyrsta leikstjórnarverkefni við Borgarleikhúsið.
Improv Ísland byrjar með vikulegar grínsýningar í Þjóðleikhúskjallaranum á miðvikudögum.
Hver sýning er spunnin á staðnum út frá einu orði úr sal og ekkert er ákveðið fyrirfram. Nýtt leiklistarform í senunni hér á landi.
Improv Íslands er nýr leikhópur sem sérhæfir sig í langspuna. Hver sýning er spunninn á staðnum út frá einu orði áhorfenda. Ekkert er ákveðið fyrirfram, ekkert handrit er að sýningunum og er því hver sýning frumsýning og lokasýning. Improv Ísland getur lofað áhorfendum því að sama hversu oft þeir koma, þeir munu aldrei sjá sömu sýninguna. Miðinn kostar líka einungis 1500 kr. svo líklega er um að ræða ódýrustu leikhússýningu landsins.
Langspuni er mjög vinsæll víða um heim þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Margir af frægustu gamanleikurum Bandaríkjanna koma úr spunasenunni og má sem dæmi nefna Tinu Fey, Will Ferrell, Steve Carrell, Amy Poehler og Aziz Ansari.
Improv Ísland er rétt rúmlega eins árs gamalt en tók þátt í Del Close spunamaraþoninu í New York í júní sl. Þar sýna allir helstu spunahópar heims spunasýningar viðstöðulaust í þrjá sólahringa. Síðustu tvær Menningarnætur hefur hópurinn staðið fyrir spunamaraþoni í Þjóðleikhúskjallaranum. Í bæði skiptin komust mun færri að en vildu. Improv Ísland hefur einnig flutt inn nokkra af stærstu kennurum og leikurum spunasenunnar í Bandaríkjunum. Á frumsýningunni 3. febrúar munu Suzi Barrett og Rebecca Drysdale sýna með hópnum en þær munu einnig halda námskeið fyrir lengra koman í kringum heimsókn sína. Báðar sýna þær í UCB leikhúsinu í New York en Rebecca Drysdale er einnig handritshöfundur í gamanþáttunum Key and Peele.
Dóra Jóhannsdóttir leikkona er stofnandi langspunasenunar hérlendis. Hún hefur lært langspuna í hinu þekkta UCB leikhúsi síðastliðin 3 ár og komið reglulega til Íslands til að kenna námskeið. Síðan þá hafa um 300 manns sótt námskeið á vegum Improv Íslands undir leiðsögn Dóru. Leikhópur Improv Ísland samanstendur svo af 20 spunaleikurum úr öllum áttum og sýnir hópurinn nokkur mismunandi form spunans, m.a. söngleikjaspuna þar sem heill söngleikur er spunninn á staðnum með píanóleikaranum Karli Olgeirssyni.
Sýningar verða alla miðvikudaga í Þjóðleikhúskjallaranum og hefjast kl. 19:30 Miðasala fer fram á midi.is, leikhusid.is og í síma 551 1200.
Í kvöld er síðasta sýning af „Hver er hræddur við Virginiu Woolf?“ á Nýja sviði Borgarleikhússins.
Marta og Georg elska hvort annað. Þau vita allt um sig og lífið en samt – eða einmitt þess vegna- eru þau ekki hamingjusöm. Hann er sögukennari við lítinn háskóla, hún heimavinnandi. Að lokinni rektorsveislu í háskólanum býður Marta nýja unga líffræðikennaranum og konu hans heim í eftirpartý án vitneskju eiginmanns síns. Hann þekkir allt of vel gestaleiki konu sinnar. Hún veit allt um völd sín og áhrif og nýtur þess að leika sér að tilfinningum annarra. Miskunnarlaus stigmagnandi barátta hrekur fjórar glæsilegar persónur út á ystu nöf í þessu stórkostlega leikriti.
Edward Albee er eitt fremsta leikskáld Ameríku. Leikritið “Hver er hræddur við Virginíu Woolf?” var frumsýnt í New York árið 1962 og kvikmyndað skömmu síðar með þeim Elizabeth Taylor og Richard Burton og hefur allar götur síðan talist til sígildra leikrita og leikið um allan heim. Leikritið og höfundurinn eru margverðlaunuð í bak og fyrir og hefur meðal annars hlotið Pulizer-verðlaunin í tvígang.
Aðstandendur Höfundur: Edward Albee | Þýðing: Salka Guðmundsdóttir | leikstjóri: Egill Heiðar Anton Pálsson | Leikmynd: Gretar Reynisson | Búningar: Helga I. Stefánsdóttir | Lýsing: Þórður Orri Pétursson| Tónlist: Margrét Kristín Blöndal |Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir | Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen | Leikarar: Elma Stefanía Ágústsdóttir, Eysteinn Sigurðarson, Hilmir Snær Guðnason og Margrét Vilhjálmsdóttir.
Agnes er ástfangin af Ómari sem er ástfanginn af Agnesi sem er ástfangin af Arnóri sem er ísfirskur nýnasisti.
Illska er raunsönn ástarsaga úr Íslandi nútímans. Hárbeitt ádeila á stefnur og strauma í Íslensku þjóðfélagi og veltir upp spurningum sem erfitt er að spyrja, og enn erfiðara að svara.
Getum við setið hjá á meðan heimurinn breytist? Verðum við að gæta bræðra okkar og systra? Erum við að sofna á verðinum? Hvað verður um þrjú hundruð þúsund manna þjóð ef landamærin opnast og við dembum okkur á bólakaf í fjölmenningarþjóðfélag 21. aldarinnar? Lifir íslensk menning, þjóð og tunga það af?
Eiríkur Örn Norðdahl (1978) er einn framsæknasti höfundur sinnar kynslóðar og hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín, bæði ljóð og skáldsögur. Skáldsagan Illska hlaut Íslensku Bókmenntaverðlaunin árið 2012 og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandanna 2013.
Byggt á samnefndri skáldsögu eftir Eirík Örn Norðdahl
Leikstjórn: Vignir Rafn Valþórsson
Leikmynd: Brynja Björnsdóttir
Búningar: Guðmundur Jörundsson
Leikarar: Hannes Óli Ágústsson, Sólveig Guðmundsdóttir & Sveinn Ólafur Gunnarsson.
Sýningin er styrkt af Menntamálaráðaneytinu og Reykjavíkurborg.
Glænýtt verk eftir þekktasta samtímaleikskáld Svía, bráðfyndið og harkalegt í senn.
Sýningin er sýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu.
Hvað færðu há laun fyrir vinnu þína? Í þágu hvers ertu að vinna? Í þessu nýja verki kynnumst við fjölskrúðugum hópi fólks þar sem hver og einn glímir við markaðslögmálin með sínum hætti.
Margrét lætur sig dreyma um að sleppa út úr hagkerfinu, Máni vill rústa því. Andrej vill fá vinnu, Freyja vill hefnd. Þau fjárfesta í frímerkjum og furuhnetum, draumórum og ilmvötnum, barnavögnum og hugsjónum.
Hvernig hefur hagkerfið sem við lifum í áhrif á okkur, á það hvernig við horfum á hlutina, hvernig við notum tungumálið, hvernig við beitum líkama okkar?
≈ [um það bil] eftir Jonas Hassen Khemiri er í senn bráðfyndið og ágengt verk þar sem er leitast við að veita áhorfendum sem fjárfest hafa í leikhúsupplifun kvöldsins hæsta mögulega skemmtunarvirði á hvern keyptan miða. Hvað þarf raunverulega til, til þess að leikrit sé miðaverðsins virði?
Verkið var frumsýnt á Dramaten í Stokkhólmi á liðnu hausti og hefur notið gífurlegra vinsælda í Svíþjóð.
Hægt er að kaupa miða hér: https://midi.is/kaupamida?s=%252fImKipYAVizBNYV%252fsPXL6fu9mLkFJ95k%252brtP4lqB2G2Xv8byFiAZo
Leikfélagið Verðandi kynnir, í fyrsta skipti á Íslandi, SOUTH PARK: stærra, lengra og óklippt eftir samnefndri kvikmynd Tray Parker og Matt Stone.
Stan, Kyle, Cartman og Kenny búa í South Park, fjallabæ í Colorado í BNA. Þegar þeir sjá hina bönnuðu kanadísku kvikmynd „Logandi rassar“ breytist líf þeirra til muna. Drengirnir læra blótsyrði og sorakjaft af myndinni sem breyðist út meðal barna í South Park. Mæður drengjanna taka málin í sínar hendur, stofna samtök gegn Kanada og fyrr en varir eru BNA komin í blóðugt stríð gegn nágrönnum sínum í norðri. Verkið er háðsdeila á pólitíska rétthugsun og fleira.
Aldurstakmark er 12 ára inn á sýninguna.
Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Tónlistarstjóri: Örn Eldjárn
Hægt að kaupa miða hér: https://tix.is/is/event/2601/south-park/
Fleiri upplýsingar um sýninguna og Leikfélagið Verðandi er á facebook síðu þeirra Leikfélagið Verðandi í FG.
Nýtt námskeið í skapandi leiktækni 7. mars – 18 apríl n.k. Kennt er á mánudagskvöldum frá kl. 19.30 – 23.00. 6 skipti. Frí 28 mars (annan í páskum).
Michael Chekhov tækni – Senuvinna – Kvikmyndaleikur – Virk hugleiðsla – Líkamslestur – Heimaverkefni. 18 ára aldurstakmark. Verð kr. 45.000. Öll nauðsynleg námsgögn innifalin.
Á námskeiðinu er unnið með æfingar sem miða að því að tengja líkama og sál og virkja ímyndunaraflið. Við útdeilum tveggja manna senum á alla nemendur strax í öðrum tíma og skipum í hlutverk. Við kennum aðferð til að greina textann og fá hann til að verða hluta af líkamanum/sálarlífi persónunnar. Senan er síðan æfð og fá nemendur leikstjórn í tímum. Við förum jafnframt nokkuð ítarlega í aðferðafræði Mikael Chekhov hvað varðar upphitun, persónusköpun, samvinnu o.fl. Við setjum einnig fyrir heimaverkefni sem meðal annars felast í að hlusta á fyrirlestra og stúdera fólk.
Einkatímar: 2 tímar í senn í sex vikur eða eftir nánara samkomulagi. 80.000 per einstakling. 2 einstaklingar saman 110.000kr.
Magnús og Þorsteinn voru samferða í gegnum Leiklistarskóla Íslands og útskrifuðust þaðan vorið 1991. Báðir með áratuga reynslu af leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi.
Um Magnús:
Magnús hefur leikið jöfnum höndum síðan hann útskrifaðist árið 1991. Hann var meðlimur Gus Gus frá 1994 til 1999. Gaf út einherjadisk árið 2000 og stefnir á hljómplötu sumar 2014. Hann hefur talsett bíómyndir, auglýsingar, haldið málverkasýningar og tónleika svo nokkuð sé nefnt. Meðal helstu leikhlutverka eru Siðameistarann í Kabarett í Óperunni. Logi Traustason í sjónvarpsþáttunum Réttur 1, 2 og 3 og Frank N. Furter í Rocky Horror.
Um Þorstein:
Þorsteinn hefur leikið vel á þriðja tug hlutverka í leikhúsi og hátt í 20 hlutverk fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Hann hefur einnig fengist töluvert við leikstjórn og var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar um skeið. Þorsteinn hefur haldið fjölda námskeiða í leiklist og kennt bæði við Leiklistarskóla Íslands og Kvikmyndaskólann. Meðal helstu hlutverka Þorsteins eru Steinn Elliði í Vefaranum mikla frá Kasmír, Gestur, fréttastjóri í Pressu og hlutverk Ara í kvikmyndinni Eldfjall.
Improv Ísland byrjar með vikulegar grínsýningar í Þjóðleikhúskjallaranum á miðvikudögum.
Hver sýning er spunnin á staðnum út frá einu orði úr sal og ekkert er ákveðið fyrirfram. Nýtt leiklistarform í senunni hér á landi.
Improv Íslands er nýr leikhópur sem sérhæfir sig í langspuna. Hver sýning er spunninn á staðnum út frá einu orði áhorfenda. Ekkert er ákveðið fyrirfram, ekkert handrit er að sýningunum og er því hver sýning frumsýning og lokasýning. Improv Ísland getur lofað áhorfendum því að sama hversu oft þeir koma, þeir munu aldrei sjá sömu sýninguna. Miðinn kostar líka einungis 1500 kr. svo líklega er um að ræða ódýrustu leikhússýningu landsins.
Langspuni er mjög vinsæll víða um heim þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Margir af frægustu gamanleikurum Bandaríkjanna koma úr spunasenunni og má sem dæmi nefna Tinu Fey, Will Ferrell, Steve Carrell, Amy Poehler og Aziz Ansari.
Improv Ísland er rétt rúmlega eins árs gamalt en tók þátt í Del Close spunamaraþoninu í New York í júní sl. Þar sýna allir helstu spunahópar heims spunasýningar viðstöðulaust í þrjá sólahringa. Síðustu tvær Menningarnætur hefur hópurinn staðið fyrir spunamaraþoni í Þjóðleikhúskjallaranum. Í bæði skiptin komust mun færri að en vildu. Improv Ísland hefur einnig flutt inn nokkra af stærstu kennurum og leikurum spunasenunnar í Bandaríkjunum. Á frumsýningunni 3. febrúar munu Suzi Barrett og Rebecca Drysdale sýna með hópnum en þær munu einnig halda námskeið fyrir lengra koman í kringum heimsókn sína. Báðar sýna þær í UCB leikhúsinu í New York en Rebecca Drysdale er einnig handritshöfundur í gamanþáttunum Key and Peele.
Dóra Jóhannsdóttir leikkona er stofnandi langspunasenunar hérlendis. Hún hefur lært langspuna í hinu þekkta UCB leikhúsi síðastliðin 3 ár og komið reglulega til Íslands til að kenna námskeið. Síðan þá hafa um 300 manns sótt námskeið á vegum Improv Íslands undir leiðsögn Dóru. Leikhópur Improv Ísland samanstendur svo af 20 spunaleikurum úr öllum áttum og sýnir hópurinn nokkur mismunandi form spunans, m.a. söngleikjaspuna þar sem heill söngleikur er spunninn á staðnum með píanóleikaranum Karli Olgeirssyni.
Sýningar verða alla miðvikudaga í Þjóðleikhúskjallaranum og hefjast kl. 19:30 Miðasala fer fram á midi.is, leikhusid.is og í síma 551 1200.