Browsing "Uncategorized"
Fullkomið brúðkaup á Sauðárkróki
Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir sunnudaginn 24. apríl gamanleikinn Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon. Þýðandi er Örn Árnason og leikstjóri er Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson
Drepfyndinn og rómantískur gamanleikur, hraður, fullur af misskilningi, framhjáhöldum og ást. Leikritið segir frá ungu fólki sem er að glíma við ástina, verða ástfangið, hætta að vera ástfangið og að verða ástfangið af þeim sem þau mega ekki vera ástfangin af. Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni, herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað …
Nýtt námskeið í skapandi leiktækni frá 25. apríl – 30 maí n.k. Kennt er á mánudagskvöldum frá kl. 19.30 – 23.00. 6 skipti alls.
Michael Chekhov tækni – Senuvinna – Kvikmyndaleikur – Virk hugleiðsla – Líkamslestur – Heimaverkefni. 18 ára aldurstakmark. Verð kr. 45.000. Öll nauðsynleg námsgögn innifalin.
Á námskeiðinu er unnið með æfingar sem miða að því að tengja líkama og sál og virkja ímyndunaraflið. Við útdeilum tveggja manna senum á alla nemendur strax í öðrum tíma og skipum í hlutverk. Við kennum aðferð til að greina textann og fá hann til að verða hluta af líkamanum/sálarlífi persónunnar. Senan er síðan æfð og fá nemendur leikstjórn í tímum. Við förum jafnframt nokkuð ítarlega í aðferðafræði Mikael Chekhov hvað varðar upphitun, persónusköpun, samvinnu o.fl. Við setjum einnig fyrir heimaverkefni sem meðal annars felast í að hlusta á fyrirlestra og stúdera fólk.
Einkatímar: 2 tímar í senn í sex vikur eða eftir nánara samkomulagi. 80.000 per einstakling. 2 einstaklingar saman 110.000kr.
Magnús og Þorsteinn voru samferða í gegnum Leiklistarskóla Íslands og útskrifuðust þaðan vorið 1991. Báðir með áratuga reynslu af leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi.
Um Magnús:
Magnús hefur leikið jöfnum höndum síðan hann útskrifaðist árið 1991. Hann var meðlimur Gus Gus frá 1994 til 1999. Gaf út einherjadisk árið 2000 og stefnir á hljómplötu sumar 2014. Hann hefur talsett bíómyndir, auglýsingar, haldið málverkasýningar og tónleika svo nokkuð sé nefnt. Meðal helstu leikhlutverka eru Siðameistarann í Kabarett í Óperunni. Logi Traustason í sjónvarpsþáttunum Réttur 1, 2 og 3 og Frank N. Furter í Rocky Horror.
Um Þorstein:
Þorsteinn hefur leikið vel á þriðja tug hlutverka í leikhúsi og hátt í 20 hlutverk fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Hann hefur einnig fengist töluvert við leikstjórn og var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar um skeið. Þorsteinn hefur haldið fjölda námskeiða í leiklist og kennt bæði við Leiklistarskóla Íslands og Kvikmyndaskólann. Meðal helstu hlutverka Þorsteins eru Steinn Elliði í Vefaranum mikla frá Kasmír, Gestur, fréttastjóri í Pressu og hlutverk Ara í kvikmyndinni Eldfjall.
Íslenski dansflokkurinn frumsýnir Persóna 4. maí á Nýja sviði Borgarleikhúsins þar sem frumflutt verða verk eftir Hannes Þór Egilsson, Höllu Ólafsdóttur og Lovísu Ósk Gunnarsdóttur. Þema sýningarinnar er dansarinn sjálfur og verða ólíkar leiðir notaðar til að skoða hans innri rödd; þarfir hans og langanir, einlægni og þrár.
Hannes mun vinna að stóru hópverki þar sem hann skoðar hreyfiforða dansaranna og leitar að þeirra innri rödd. Hvaðan kemur þörf dansaranna til að dansa og hvert er þeirra persónueinkenni?
Halla og Lovísa munu vinna með dönsurunum að sólóverkefnum í gegnum bréfaskriftir. Í gegnum bréfaskriftir við dansarana er saminn sólódans, sérhannaður út frá persónuleika og bakgrunni hvers og eins þannig að úr verður “uppáhalds dans” viðkomandi.
Í Persóna munu áhorfendur svo sjá afrakstur þessara tveggja ólíkra aðferða í sýningu þar sem dansarinn sjálfur er í forgrunni.
Lokasýning Persóna sunnudaginn 22. maí verður svo sérstök hátíðarsýning á Listhátíð í Reykjavík þar sem m.a. verður boðið upp á listamannaspjall og freyðivín.
Tónlistarmaðurinn KK stígur á svið og segir sögu gítaranna sinna sem hafa fylgt honum í blíðu og stríðu í gegnum árin. Hann greinir frá uppruna þeirra og sérstökum tengslum sinum við hvern og einn þeirra – allir tengjast þeir á einn eða annan hátt skrautlegu lífi og örlögum erlendra trúbadora sem áttu það sameiginlegt að þrá réttlæti og frelsi. Í verkinu tvinnast þessar sögur saman við lífshlaup KK sjálfs, spurt er um mikilvægi tónlistarinnar, mátt hennar í hörðum heimi og leitina eilífu að hinum „eina sanna tóni“. KK slær á sína alkunnu strengi og fer með áhorfendur í ógleymanlegt ferðalag.
Jón Gunnar Þórðarson (1980) útskrifaðist með BA gráðu í leikstjórn frá Drama Centre í London. Hann hefur leikstýrt tugum verka hér heima og erlendis og unnið sem aðstoðarleikstjóri hjá Royal Shakespeare Company og Vesturporti. Þá hefur hann skrifað og staðfært fjölda verka.
Kristján Kristjánsson KK (1956) er með þekktustu to´nlistarmönnum landsins. Hann hefur samið lög og leikið inn á hljómplötur og geisladiska um áratugaskeið og unnið til yfir tuttugu gull og platínuverðlauna fyrir tónlist sína. Hann samdi tónlistina við leikrit John Steinbecks Þrúgur reiðinnar og Fjölskylduna sem bæði slógu aðsóknarmet í Borgarleikhúsinu.
Höfundur: Jón Gunnar Þórðarson og KK
Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson
Leikmynd: Móeiður Helgadóttir
Búningar: Móeiður Helgadóttir
Lýsing: Garðar Borgþórsson
Tónlist: KK
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Myndvinnsla: Roland Hamilton
Leikarar: KK
Leikfélagið Hugleikur sýnir nýjan íslenskan söngleik eftir Ármann Guðmundsson sem jafnframt leikstýrir. Alls taka fimmtán manns þátt í verkinu.
Á Skollakoti í íslenskri 19. aldar sveit býr nískur maður að nafni Greipur. Hann er nýkvæntur hinni ungu og fögru Sesselju sem rennir því miður hýru augu til hins lánlausa og harðgifta Þiðriks. Líftími hveitibrauðsdaganna reynist því ekki langur né heldur samsveitunga þeirra, sem láta græðgi, öfund og afbrýðisemi hlaupa með sig í gönur. Nóg er af feigðinni og alltaf kemur meira.
Sýnt í Kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku, við Rafstöðvarveg. Miðaverð er kr. 2.500 og miðapöntun fer fram á hugleikur.is. Það er posi á staðnum.
Næstu sýningar:
Fimmtudaginn 5. maí kl. 20.00 – uppselt
Sunnudaginn 8. maí kl. 20.00
Miðvikudaginn 11. maí kl. 20.00
Föstudagurinn 13. maí kl. 20.00
Félag leikskálda og handritshöfunda, FLH, og Borgarleikhúsið efna í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík til hálfsviðsettra leiklestra á splunkunýjum verkum eftir fjóra íslenska höfunda. Verkin voru unnin í höfundasmiðju á vegum FLH og Borgarleikhússins.
Auglýst var eftir verkum í vinnslu, alls bárust 36 umsóknir og fjögur verk voru valin. Verkin voru unnin áfram með listrænum ráðunauti Borgarleikhússins og haldin var vinnuvika með skáldunum ásamt völdum leikstjórum og leikurum Borgarleikhússins.
Verkin fjögur sem lesið verður úr í Borgarleikhúsinu og nágrenni þess eru afar ólík að efni og formi. Við fylgjumst með íslenskum konum í gufubaði í fjarlægu landi þar sem hryðjuverk vofir yfir, systkinum sem hittast í íbúð í Reykjavík eftir margra ára fjarvistir til að útkljá myrkaverk úr fortíðinni, strák og stelpu sem hittast í grímupartíi í Reykjavík með ófyrirséðum afleiðingum og tveimur nágrannakonum sem eiga í óvæntum en ofsafengnum samskiptum út af ketti.
Einn viðburður verður búinn til úr lestrunum og munu áhorfendur ferðast á milli verka frá einum stað til annars í leikhúsinu og nágrenni þess.
Verkefnið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
EFNISSKRÁ:
Sjö konur myrtar í gufubaði eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur
Rauðir þræðir eftir Jóhann Þórsson í leikstjórn Vigdísar Jakobsdóttur
Gestir eftir Hildi Knútsdóttur í leikstjórn Viðars Eggertssonar
Tvískinnungur eftir Jón Magnús Arnarsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar
Verkefnið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Hin indversk-ættaða Shantala Shivalingappa snýr aftur á Listahátíð í Reykjavík, nú í fylgd eins þekktasta danshöfundar nútímans, marokkósk-belgíska danshöfundinum Sidi Larbi Cherkaoui.
Play er sköpunarverk dansaranna og danshöfundanna Shantala Shivalingappa og Sidi Larbi Cherkaoui. Þungamiðja verksins er hugmyndin um leikinn, hvort heldur sem er hlutverkaleikinn sem fram fer á leikhúsfjölunum eða þau hlutverk sem fólk tekur sér í lífinu sjálfu. Verkið segir meðal annars sögu samskipta karls og konu og hvað gerist þegar orku þeirra lýstur saman. Líkt og börn að leik setja þau upp grímur og taka sér þannig nýtt hlutverk. Þannig sneiða þau hjá ímynd sinni, sleppa undan nafni sínu, ytra formi og sögu. En það getur reynst erfitt að flýja sjálfið og í því ferli kemur oft fleira í ljós heldur en það sem reynt er að fela.
Play er gáskafullt og tilfinningaþrungið verk, tileinkað danshöfundinum og frumkvöðlinum heitna, Pinu Bausch, en það var hún sem fyrst hvatti til gjöfuls samstarfs dansaranna tveggja.
Shantala Shivalingappa hefur verið kölluð dansari tveggja heima, fædd í Madras í suðurhluta Indlands en uppalin í París. Hún þykir hafa ótrúlegt vald á hvoru tveggja: hinum aldagamla Kuchipudi-dansi frá Indlandi og vestrænum nútímadansi. Þetta er í annað sinn sem Shantala heiðrar gesti Listhátíðar í Reykjavík með nærveru sinni, en hún sýndi í fyrra Kuchipudi-verkið Akasha, við lifandi flutning indverskra tónlistarmanna, við mikla ánægju viðstaddra.
Belgíski danshöfundurinn og dansarinn Sidi Larbi Cherkaoui þykir hafa einstaka sýn á dans, þar sem hann gerir ólíkum danshefðum og dönsurum ólíkra menningarheima jafnhátt undir höfði í sköpun sinni. Sýn hans og hæfileikar hafa fleytt honum langt en hann hlaut meðal annars Laurence Olivier-verðlaunin fyrir bestu nýja dansverkið, árin 2011 og 2014.
Leikstjórn: Sidi Larbi Cherkaoui, Shantala Shivalingappa
Hljómsveit: Patrizia Bovi, Tsubasa Hori, Gabriele Miracle, Olga Wojciechowska
Dansarar: Sidi Larbi Cherkaoui, Shantala Shivalingappa
Sviðsmynd: Filip Peeters
Búningar: Lieve Meeussen / Alexandra Gilbert
Lýsing: Adam Carrées
Myndband: Paul Van Caudenberg
Hefðbundin ljóð og tónlist fara í gegnum nýstárlega skapandi hakkavél í ádeiluverki tónlistarmannanna Hallveigar Rúnarsdóttur, Erps Eyvindarsonar, Hilmars Arnar Hilmarsonar og Bjarna Frímanns Bjarnasonar.
„Enginn hér í heimi hefur eftir minni bestu vitneskju – og ég hef ráðist í áralangar rannsóknir og notið liðsinnis annara við þær – nokkurn tíma tapað fé á því að vanmeta greind hins almenna fjölda. Né hefur nokkur þurft að segja af sér embætti vegna þessa.“ H.L. Mencken – Um blaðamennsku í Chicago Tribune 19. september 1926.
Trúarbrögð, heimspeki og listir hafa í gegnum árþúsundir fjallað um hina „illu hneigð“ mannkyns og að það sé okkur eðlislægt að endurtaka mistök kynslóðanna .
Við skoðum söguna, kenningar Sigmundar Freud, Arthur Koestler og fleiri um þessa veilu, grípum niður í harmljóð bókmenntanna, tregasöngva ólíkra tónlistarstefna, kaldhæðna texta og hvernig við höfum öðlast óljósa von í gegnum söguna. Er líffræðin örlagavaldur, er Glámur í gangverkinu, eða erum við á leiðinni útí geim?
Er okkur viðbjargandi?
Flytjendur: Hallveig Rúnarsdóttir, Erpur Eyvindarson, Hilmar Örn Hilmarsson, Bjarni Frímann Bjarnason, og fleiri.
Fyrsta ópera Önnu Þorvaldsdóttur tónskálds, í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarsonar, verður frumsýnd á Íslandi á þrítugustu Listahátíð í Reykjavík í vor.
Verkið býður áhorfendum í íhugult ferðalag um óræða veröld í tíma og rúmi þar sem hugleiðingum um leit að uppruna og tengingu við rætur sjálfsins er velt upp. Dreymandi og næmur hljóðheimur Önnu Þorvaldsdóttur skapar tregafulla passíu, þar sem undirtónninn einkennist af brothættri nánd, yfirþyrmandi þrá eftir sannleika og von um endurheimt jafnvægi. Leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar leggur upp með hugmyndina um hið síleitandi mannkyn að leiðarljósi. Hann leyfir hinu skynræna og óhlutbundna myndmáli tónlistarinnar og frásagnarinnar að leiða flytjendurna í átt að flæðandi samruna skilningarvitanna.
„Aðalpersóna verksins er óræð táknræn persóna – þríþætt eining – sem er túlkuð af þremur söngvurum. Í verkinu fylgjumst við með þeim í leit að grunni sínum og rótum þar sem þau reyna að finna tengingu við uppruna sinn og eigin rödd sem þau virðast hafa glatað. Togstreita þeirra birtist í gegnum hljóð- og raddáferðir sem verða að tjáningarformi fyrir það sem tungumál getur ekki tjáð. Tungumálið, bæði brotakennt og heilsteypt, verður að táknmynd hinnar rökhugsandi manneskju, og hið lagræna táknmynd samhljómsins og þess að finna rödd sína í hinu víða samhengi. Verkið sjálft hefur djúpa skírskotun í samband manneskjunnar við náttúruna og þrána til að finna tengingu við grunninn.“
-Anna Þorvaldsdóttir
„Við sviðsetningu UR_ vildi ég kljást við grundvallar spurningar um listræna ferlið sem liggur að baki sérhverri óperuuppfærslu og leyfa því ferli að skína í gegn í sviðsetningu verksins. Að frumsýna nýtt verki býður upp á tækifæri til að taka listformið sjálft og staðsetningu þess í nútímanum til endurskoðunar. Þar sem UR_ er, með í allri sinni margræðni, díalektísk endursögn sköpunarsögu, langaði mig til að spegla hana með samtímaóperuna sjálfa sem bakgrunn. Óperu formið sjálft býður nefnilega uppá að skapa fullkomnlega útópískan heim, um stundarsakir“
-Þorleifur Örn Arnarsson
FAR NORTH er tengslanet og vettvangur til eflingar og framþróunar við framleiðslu samtíma tónleikhúss á norðurhjara. UR_ er afrakstur verkþróunar yfir tveggja ára tímabil, sem fram fór á Grænlandi, Íslandi, Noregi og Þýskalandi. Verkefnið er samstarfsverkefni Far North, Listahátíðar í Reykjavík, Theater Trier, Ultima Oslo Contemporary Music Festival, norsku Þjóðaróperunnar og grænlenska Þjóðleikhússins. Uppsetningin er unnin í samstarfi við Íslensku óperuna.
Tónlist: Anna Þorvaldsdóttir
Texti: Anna Þorvaldsdóttir og Mette Karlsvik
Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson
Leikmynd og búningar: Anna Rún Tryggvadóttir
Framleiðandi og listrænn stjórnandi Far North: Arnbjörg María Danielsen
Hljómsveitarstjóri: Bjarni Frímann Bjarnason
Flytjendur: Joa Helgesson, Melis Jaatinen, Sofia Jernberg, Tinna Þorsteinsdóttir, Miké Phillip Fencker Thomsen, CAPUT tónlistarhópur, Örnólfur Þór Eldon.
Sýningarstjóri: Sebastian Reckert
Sviðstæknistjóri: Florian Semmet
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Ég er leikari, leikstjóri, leikskáld, rithöfundur, dagskrárgerðarmaður, þýðandi, faðir, sambýlismaður, sonur, bróðir og frændi, svo eitthvað sé nefnt. Þessa dagana er ég að leika í verki eftir sjálfan mig sem heitir Góði dátinn Svejki og Hasek vinur hans og er sýnt í Gaflaraleikhúsinu. Og svo líka margt annað sem felst í því að vera allt það sem ég taldi upp hér að ofan.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Sporðdrekanum. Eða kínverska merkingu hananum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Fyrst dýralæknir, svo myndhöggvari og loks leikari. Svo hef ég lítið hugsað málið eftir það.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Helsti kosturinn er umburðarlyndi þegar það á við. Helsti gallinn er umburðarlyndi þegar það á ekki við.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Saltkjöt og baunir. Það hefur verið í uppáhaldi síðan ég var strákur, en ég var afskaplega matvant barn. Ennþá slær ekkert út þennan þjóðlega rétt.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Síðast sá ég Illsku hjá Óskabörnum ógæfunnar í samvinnu við Borgarleikhúsið. Það var frábær sýning, bæði vel gerð og hugsuð og ekki síður umhugsunarverð.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Fjallgöngur og skíðamennsku. Líka kajakróður og veiði. Tennis og golf eru líka áhugaverð.
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Ég hlusta mikið á söngleikjatónlist, enda hef ég samið nokkra söngleiki. Svo er það gamalt rokk. Hér áður fyrr hlustaði ég mikið á óperutónlist en hef ekki gefið mér tíma til þess nýlega. Svo reyni ég að setja mig inn í það sem börnin mín eru að hlusta á hverju sinni, en þau eru á aldrinum 12 – 35 ára svo það er býsna breiður skali.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Misrétti, dónaskapur og hroki. Sérstaklega hroki misviturra valdsmanna. Einu skiptin sem mig langar til að beita ofbeldi eru þegar ég sé og heyri íslenska stjórnmálamenn meðhöndla þjóð sína eins og hún sé hálfviti.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Kópavogur. Hann kemur mér stöðugt á óvart.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Avignon í Suður-Frakklandi. Þar er haldin leiklistarhátíð árlega, sem er óendanleg auðlind og uppspretta hugmynda og upplifana.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
New York.
Eiga hund eða kött?
Kött.
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
Finnst þér betra að vinna á morgnanna eða kvöldin?
Morgnana.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Vín.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Þolinmóður.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Ég vil bara óska öllum sem þetta lesa hamingju og farsældar í lífinu almennt og afkomendum þeirra þæginda og langlífis.