Sterkust af öllum hún er! Sýningin um hina uppátækjasömu Línu langsokk eftir Astrid Lindgren verður frumsýnd hjá Leikfélagi Mosfellssveitar sunnudaginn 3. mars. Þegar ný stelpa flytur inn í Sjónarhól með apann sinn Herra Níels og hestinn Litla Kall umturnast líf Tomma og Önnu og þau lenda í hverju ævintýrinu á eftir öðru. Leikstjóri er Aron Martin Ásgerðarson. Sýningar eru í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ á sunnudögum kl. 13.
Kómedíuleikhúsið hefur gert fjórar bráðfjörugar og ævintýralegar brúðumyndir um Bakkabræður fyrir netsjónvarp. Þeir bræður á Bakka eru án efa þekktustu bræður á Íslandi og víst er að margir sjá sjálfan sig í þeim. Góður hópur listamanna kemur að myndunum. Brúðumeistari er Marsibil G. Kristjánsdóttir, brúðuleikari er Elfar Logi Hannesson, Diddú eða Sigrún Hjálmtýsdóttir er hinn syngjandi sögumaður og flytur hinar kunnu Bakkabræðravísur Jóhannesar úr Kötlum. Tónlistin er samin af Birni Thoroddsyni, gítarleikara með meiru.
Hið vestfirska fyrirtæki Haraldsson Prod. sá um framleiðslu og kvikmyndatöku. Það var Byggðastofnun sem lagði leikhúsinu lið við að koma bræðrunum á Bakka á netið.
Leikfélag Kópavogs sýnir barnaleikritið „Ferðin til Limbó“ eftir Ingibjörgu Jónsdóttur sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966.
Tónlist í verkinu er eftir Ingibjörgu Þorbergs. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama höfund sem kom út árið 1963. Leikritið var fyrsta leikritið eftir íslenska konu sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Leikritið hefur ekki verið sett upp síðan þó að það hafi hlotið mikla aðsókn á sínum tíma.
Leikritið er bráðskemmtilegt ævintýri fyrir yngri kynslóðina en skemmtilegir karakterar koma fram í verkinu sem kítla hláturtaugarnar.
Bróðir minn Ljónshjarta er hugljúf stríðssaga af þeim bræðrum Snúð og Jónatan. Yngri bróðirinn Snúður er dauðvona en Jónatan reynir að hughreysta Snúð með því að segja honum hvað gerist eftir dauðann. Eftir stutta jarðneska dvöl hittast bræðurnir aftur í Nangijala eins og þeir höfðu talað um. Þar er lífið himneskt eða ætti öllu heldur að vera það, það er svikari í Kirsuberjadal sem aðstoðar það grimma í þeim heimi, Riddaranum Þengli og hans fólk ásamt eldspúandi drekanum Kötlu sem eiga sitt aðsetur í Þyrnirósadal.
Leikfélag Hörgdæla setur nú upp verkið Bróðir minn Ljónshjarta í félagsheimili sínu að Melum. Alls eru 15 leikarar í sýningunni og fleiri tugir manns sem koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Leikfélag Hördæla var stofnað árið 1997. Saga leiklistar í Hörgárdal er þó mun lengri. Bindindisfélagið Vakandi og leikdeild Ungmennafélags Skriðuhrepps höfðu staðið fyrir leiksýningum allt frá árinu 1928.
Leikfélag Hörgdæla og fyrirrennarar þess setja reglulega upp leiksýningar á félagsheimilinu að Melum í Hörgárdal sem er lítið en hlýlegt hús sem var byggt árið 1934. Sýningar á Melum hafa getið sér gott orð, til að mynda Með fullri reisn sem var sett upp árið 2011 og verkið Í fylgd með fullorðnum árið 2020. Það verður enginn svikinn af heimsókn á Mela.
Leikstjóri sýningarinnar er Kolbrún Lilja Guðnadóttir en hún hefur mikla reynslu úr leiklistarheiminum. Þetta er í fyrsta skipti sem hún leikstýrir hjá Leikfélagi Hörgdæla en þó ekki í fyrsta skipti sem hún kemur á Mela þar sem hún lék í Gauragangi árið 2019. Kolbrún leikstýrði Fólkinu í blokkinni árið 2023 í Freyvangsleikhúsinu og Tröll sem leikfélag VMA setti upp árið 2022. Svavar Knútur hannar hljóðheiminn í sýningunni en hann þekktur tónlistarmaður hefur getið sér góðan orðstír sem bæði flytjandi og lagahöfundur bæði hérlendis sem og alþjóðlega undanfarin ár. Svavar var fyrstur til að hljóta verðlaun úr minningarsjóði Önnu Pálínu Árnadóttur fyrir framlag sitt til íslenskrar vísnatónlistar, hrífandi túlkun, nýsköpun í söngljóðagerð og lagasmíðum, endurnýjun hins þjóðlega tónlistararfs fyrir alla aldurshópa og starf í þágu ungra og upprennandi tónlistarmanna.
Bróðir minn Ljónshjarta er eftir Astrid Lindgren. Astrid er einn þekktasti barnabókahöfundur heims og mörg hafa lesið bækur hennar í grunnskóla en hennar þekktustu verk eru bækurnar um Línu langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningjadóttur og Kalla á þakinu. Til eru margar kvikmyndir og leikrit sem byggð eru á sögum hennar. Leikgerð er eftir Evu Sköld og þýðandi er Þorleifur Hauksson.
Í SÝNINGUNNI VERÐA STROBE LJÓS SEM KUNNA AÐ VALDA ÓÞÆGINDUM!
And Björk, of course, eftir Þorvald Þorsteinsson, er í senn sprenghlægilegt, óviðeigandi og óþægilegt. Leikstjóri verksins er Gréta Kristín Ómarsdóttir en leikarar eru Jón Gnarr, Sverrir Þór Sverrisson, Eygló Hilmarsdóttir, Urður Bergsdóttir, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.
Þorvaldur var myndlistarmaður og rithöfundur en fyrir utan And Björk, of course er hann einna þekktastur fyrir barnaleikritið Skilaboðaskjóðan og bækurnar um Blíðfinn. Þorvaldur lést langt fyrir aldur fram árið 2013 en forlögin ein réðu því að frumsýningin féll á dánardag hans. „And Björk of course var skrifað fyrir rúmum tuttugu árum og birtist okkur í dag einsog spádómur um afdrif íslensku þjóðarsálarinnar. Andi höfundarins, Þorvaldar Þorsteinssonar, hefur svifið yfir vötnum og fyllt okkur innblæstri allt æfingaferlið svo það er bæði einskær en alls engin tilviljun að frumsýningu beri upp á dánardegi meistarans. Samkenndin er dauð, lengi lifi samkenndin,“ segir Gréta Kristín leikstjóri.
Um leikmynd og búninga sér Brynja Björnsdóttir með aðstoð Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur, ljósahönnuður er Ólafur Ágúst Stefánsson en um tónlistina sjá þeir Axel Ingi Árnason og Pétur Karl Heiðarson. Hönnun hljóðs er í höndum Gunnars Sigurbjörnssonar.
And Björk, of course var frumsýnd í Borgarleikhúsinu árið 2002 í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Í kjölfarið var gerð samnefnd kvikmynd í leikstjórn Lárusar Ýmis Óskarssonar. Verkið hefur einnig verið þýtt á erlend tungumál og var frumsýnt í Varia leikhúsinu í Brussel árið 2006.
Í sýningunni er fjallað um eða ýjað að ofbeldi, kynferðisofbeldi, kynþáttafordómum, einelti, fötlunarfordómum, sjálfsvígum og öðru sem getur vakið óþægilegar og erfiðar tilfinningar hjá áhorfendum. Aldursviðmið: 16 ára og eldri.
Sýningafjöldi í Samkomuhúsinu er takmarkaður en verkið heldur suður yfir heiðar í apríl og verður sett upp í Borgarleikhúsinu.
Leiklistarskóli BÍL verður haldinn að Reykjum í Hrútafirði dagana 15. – 23. júní í sumar. Í boði verða 4 námskeið; Leiklist I í umsjón Ágústu Skúladóttur, Leikritun I í umsjón Karls Ágústs Úlfssonar, Leikstjórn IV sem Jenný Vala Arnórsdóttir stýrir og Sérnámskeið fyrir leikara í umsjón Rúnars Guðbrandssonar. Einnig verður boðið upp á Höfunda í heimsókn. Opnað verður fyrir umsóknir 1. mars næstkomandi.
Söngleikurinn er byggður á Disneykvikmyndinni Frozen eftir Jennifer Lee í leikstjórn Chris Buck og Jennifer Lee. Frumuppfærslan á Broadway, í leikstjórn Michael Grandage, var framleidd af Disney Theatrical Productions.
Spennandi, fyndin og falleg saga um sterkar, ungar konur sem þurfa að takast á við ill örlög.
Söngleikurinn Frost er byggður á hinni ástsælu Disneyteiknimynd Frozen og hefur notið mikilla vinsælda á Broadway, West End í London og víðar. Þetta hrífandi ævintýri birtist okkur nú í nýrri uppfærslu Gísla Arnar, þar sem einstakt vald hans á töfrum leikhússins nýtur sín til fulls, líkt og í geysivinsælum sýningum hans á borð við Í hjarta Hróa hattar og Rómeó og Júlíu. Sagan er innblásin af Snædrottningunni eftir sagnameistarann H.C. Andersen, og á þannig uppruna sinn á Norðurlöndum, en Gísli Örn mun setja sýninguna upp víða um Norðurlönd.
Stórbrotin tónlistaratriði og bráðskemmtilegar persónur í nýjum söngleik þar sem þekkt og vinsæl lög hljóma í bland við fjölmörg ný lög sem eru samin sérstaklega fyrir söngleikinn.
Aldursviðmið: 4 ára +
Í samstarfi við Vesturport, Det Norske Teatret í Osló, Borgarleikhúsið í Stokkhólmi, Borgarleikhúsið í Helsinki og fleiri
Söngleikurinn Eitruð lítil pilla byggir á tónlist af plötu Alanis Morissette, Jagged Little Pill, einni áhrifamestu plötu tíunda áratugarins og einni söluhæstu hljómplötu allra tíma. Tónlist Alanis einkennist af óbeisluðum krafti og hráum og hnitmiðuðum textum. Lög á borð við „You Oughta Know“, „You Learn“ og „Ironic“ eru ótvírætt meðal helstu einkennislaga tíunda áratugarins.
Það er allt í himnalagi hjá Mary Jane. Eiginmaðurinn Steve er í góðri stöðu, sonurinn Nick var að komast inn í Harvard og dóttirin Frankie… tja… hún er svo skapandi og lífleg. Steve vinnur reyndar 60 tíma á viku, Nick er að bugast undan væntingunum sem til hans eru gerðar og Frankie reynir að fóta sig sem ættleidda tvíkynhneigða dóttir úthverfadrottningarinnar. En Mary Jane er í lagi. Þessar nokkru ópíóða töflur á dag eru bara til að slá rétt aðeins á sársaukann eftir bílslysið í fyrra. Smátt og smátt er farið að kvarnast upp úr fallegu fjölskyldumyndinni sem Mary Jane sendir með jólakortinu á hverju ári og áður en yfir lýkur þarf öll fjölskyldan að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir – óþægilegar staðreyndir sem eru kannski grundvöllur lífsins þegar betur er að gáð.
Litli leikklúbburinn í samstarfi við Tónlistarskólann á Ísafirði frumsýndi söngleikinn Fiðlarann á þakinu fyrir troðfullum Edinborgarsal, fimmtudaginn 1. febrúar.
Fiðlarinn á þakinu segir frá mjólkurpóstinum Tevje og gerist árið 1905 í þorpinu Anatevka í Rússlandi þar sem siðvenjur og hefðir eru fyrir öllu. Tevje og Golda konan hans eiga fimm dætur sem allar þurfa eiginmenn. Hjúskaparmiðlari þorpsins gerir sitt besta til að sinna hlutverki sínu en dæturnar hafa aðrar hugmyndir um örlög sín en foreldrarnir, miðlarinn og samfélagið. Höfundar verksins eru Jerry Boch og Sheldon Harnick. Þýðandi er Þórarinn Hjartarson.
Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir og um tónlistarstjórn sér Beáta Joó. Bergþór Pálsson, stórsöngvari og skólastjóri tónlistarskólans leikur aðalhlutverkið í verkinu, Tevje mjólkurpóst, en alls eru tæplega 30 leikarar í sýningunni. Hljómsveitin telur níu manns, þar eru núverandi og fyrrverandi nemendur Tónlistarskólans á Ísafirði, auk kennara. Fjölmargir koma einnig að uppsetningunni á bak við tjöldin við lýsingu, hljóð, búninga, leik- og sviðsmynd. Búningahönnuður er Jóhanna Eva Gunnarsdóttir og ljósahönnuður er Friðþjófur Þorsteinsson.
Litli leikklúbburinn og tónlistarskólinn hafa áður sett upp stóra söngleiki saman, en nokkuð er liðið síðan síðast, þegar Söngvaseiður var settur á svið árið 2003, en sú sýning var einmitt valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins og sýnd nokkrum sinnum fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu.
Magnaður efniviður Elísabetar Jökulsdóttur öðlast nýtt líf á leiksviðinu í meðförum sama listræna teymis og skapaði tímamótasýninguna Vertu úlfur. Sú sýning hlaut einróma lof, sópaði að sér verðlaunum og hreif þjóðina svo mjög að hún var sýnd í þrjú leikár á Stóra sviðinu. Í þessari sýningu hafa þau Unnur Ösp og Björn Thors endaskipti á hlutverkum; nú er það Unnur sem leikur en Björn heldur um leikstjórnartaumana.
Þegar fullorðin skáldkona missir móður sína er komið að stóra uppgjörinu. Nú fyrst er hún tilbúin til þess að horfast í augu við erfiða æsku sína, föðurmissi, geðveikina, ástina og sturlað lífshlaup sitt. Af hverju náðu þessar tvær konur aldrei sambandi, þó að þær hafi deilt öllu lífi sínu, og reynt að horfast í augu í gegnum sorgir og sigra?
Nýtt leikverk byggt á rómuðum bókum Elísabetar Jökulsdóttur
Geta áföll gert okkur veik? Erfist þjáning á milli kynslóða? Verkið er áhrifarík saga af lítilli, draumlyndri stúlku sem verður að manísku skáldi, ástföngnum fíkli og stórskemmtilegum sögumanni. Hún er brotin, beitt og brjáluð. Þetta er saga af tengslum og tengslaleysi foreldra og barna, nánd og nándarleysi í veruleikafirrtum heimi sem gerir kröfur um að við pössum í fyrirframgerð mót, stöndum okkur og glönsum.
Unnur Ösp Stefánsdóttir leikur einleik sem hún hefur samið upp úr Saknaðarilmi og Aprílsólarkulda, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í vændum er áhrifamikil sýning, gædd sjónrænum töfrum, um viðkvæm en brýn málefni sem snerta okkur öll.