Tjarnarbíó kallar eftir umsóknum um samstarfsverkefni á komandi leikári. Öll sviðsverk koma til greina. Þau verk sem verða fyrir valinu mynda saman leikárið 20/21 í Tjarnarbíói og fá þar af leiðandi aðgang að ókeypis æfingaaðstöðu, stuðningi í markaðs- og tæknimálum, faglegri ráðgjöf ásamt hlutdeild í miðasölu viðkomandi sýningar.
Einnig auglýsir Tjarnarbíó eftir listafólki eða hópum sem hefur áhuga á að vera með vinnustofur (e. Residency) í Tjarnarbíói. Þau fá afnot af rými í húsinu til að vinna í, aðgang að sviðinu þegar það er laust, og skrifstofuaðstöðu með öðrum. Starfsfólk Tjarnarbíós býður fram faglega ráðgjöf og stuðning. Umsókn um vinnustofur skal innihalda stutta lýsingu á því verkefni sem áætlað er að unnið verði ásamt ferilskrá umsækjenda.
Umsóknin skal innihalda stutta greinagerð um verkefnið, lista yfir þátttakendur, fjárhagsáætlun og ferilskrá umsækjenda. Umsóknin og allt efni sem þeim viðkemur skal safna í eina pdf-skrá merkta umsokn_2020_[nafn verkefnis] og senda á umsokn@tjarnarbio.is. Umsóknir sem ekki fara eftir umbeðnum kröfum eða í vantar gögn verða ekki teknar til greina.
Stjórn Menningarfélags Tjarnarbíós velur úr umsóknum í samráði við framkvæmdastjóra samkvæmt valferlisreglum. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 14. febrúar næstkomandi og umsóknum verður svarað ekki síðar en mánuði síðar.
Söngleikur sem inniheldur allan tilfinningaskalann og hefur farið sigurför um heiminn.
Hrífandi söngleikur sem fjallar um tilfinningarnar sem berjast innra með okkur á unglingsárunum, þrá eftir frelsi, vináttuna, samskipti, varnarleysi, fyrstu ástina og baráttuna um að komast af í hörðum heimi.
Vinunum Melchior, Moritz og Wendlu gengur misvel að fóta sig í harðneskjulegum heimi fullorðna fólksins og verða ýmist fórnarlömb eða sigurvegarar í samfélagi þar sem litið er niður á fólk sem fer á móti straumnum og ógnar þröngsýnum og afturhaldssömum viðhorfum.
Uppfærsla söngleiksins á Broadway hlaut átta Tony verðlaun auk fjölda annarra verðlauna og tilnefninga.
Söngleikur í hæsta gæðaflokki um drauma og þrár, kjarkinn til að fara á móti straumnum og taka ábyrgð á eigin tilfinningum.
Vorið vaknar er nú sett upp í fyrsta sinn í atvinnuleikhúsi á Íslandi.
Leikstjórn: Marta Nordal Tónlistarstjórn: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson Leikmynd og búningar: Auður Ösp Guðmundsdóttir Danshöfundur: Lee Proud Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson Sýningarstjórn: Þórunn Geirsdóttir Þýðing: Salka Guðmundsdóttir
Leikarar: Ahd Tamimi, Ari Orrason, Árni Beinteinn Árnason, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Eik Haraldsdóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Júlí Heiðar Halldórsson, Rúnar Kristinn Rúnarsson, Viktoría Sigurðardóttir, Þorsteinn Bachmann og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir.
„SPRING AWAKENING”
Eftir Steven Slater og Duncan Sheik. Flutt með leyfi Nordiska APS Copenhagen
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu leiklistarráðs um styrki til atvinnuleikhópa fyrir árið 2020. Alls bárust 105 umsóknir frá 97 atvinnuleikhópum og sótt var um ríflega 625 milljónir króna. Hæsta styrkinn í ár fær leikhópurinn 10 fingur eða 10.815 milljónir. Árangurshlutfall umsækjenda er um 19 prósent.
Að þessu sinni var ákveðið að veita 93.999 milljónum króna til 20 verkefna sem skiptast þannig: tíu leikverk, ein barnasýning, ein sirkussýning, fjögur dansverk, þar af eitt dansverk fyrir börn, og fjórar óperur, þar af ein barnaópera.
Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þá atvinnuleikhópa sem hlutu styrk.
Leikhópurinn 10 fingur fær rúmlega 10,8 milljónir króna fyrir barnasýninguna Stúlkan sem lét snjóa
Óperuleikfélagið Alþýðuóperan fær rúmlega 3,2 milljónir fyrir óperuna Corpo Sureal
Dáið er allt án drauma minna fær rúmlega 5,3 milljónir fyrir óperuna Drottinn blessi heimilið
Danfélagið Lúxus fær rúmlega 3,1 milljón fyrir dansverkið Derringur
félagssamtökin EP fá rúmlega 6,6 milljónir króna leikverkið Haukur og Lilja
Gaflaraleikhúsið fær rúmlega 4 milljónir fyrir verkið Ellismelli
Galdur Productions fá rúmlega 5,3 milljónir dansverkið The Practice performed
Herðar hné og haus fá rúmar 4,3 milljónir fyrir óperuna KOK
Hringleikur fær tæpar 2,5 milljónir fyrir sirkus verkið Allra veðra von
Framleiðslufyrirtækið Huldufugl fær rúmar 3,6 milljónir fyrir innsetningarverkið Kassar
Inga Huld Hákonardóttir fær rúmar 4,8 milljónir fyrir dansverkið Þrumur
Leikfélagið Kanarí fær rúmar 2,6 milljónir fyrir leikverkið Alt sem er glatað
Kómedíuleikhúsið fær tæpar 3,2 milljónir fyrir leikritið Bakkabræður
Leikfélagið Konserta fær rúmlega 4 milljónir fyrir leikverkið Sagan
Pétur Ármasson fær rúma 3,1 milljón fyrir dansverkið Duet
PólÍs fær rúma 4,1 milljón fyrir leikverkið Co za poroniony pomysl/Úff, hvað þetta er slæm hugmynd
Sómi þjóðar fær rúma 8,5 milljónir fyrir leikverkið Lokasýning eða örvænting
Sviðslistahópurinn Skrúður fær rúmar 2,3 milljónir fyrir barnaóperuna Fuglabjargið
Svipir ehf fær rúmar 6,8 milljónir fyrir leikverið Sunnefa
Tapúla rasa fær rúma 5,1 milljón fyrir leikverkið The last kvöldmáltíð.
Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Lotta, sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra, er nú þriðja veturinn í röð komin inn í hlýjuna til þeirra í Tjarnarbíó. Hópurinn setti Hans Klaufa fyrst upp árið 2010, en nú tíu árum síðar verður rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi.
Verkið hefur verið endurskrifað að stórum hluta og þó að sömu skemmtilegu persónurnar prýði það eins og fyrir tíu árum síðan, hefur nýjum ævintýrum og glænýjum lögum verið bætt við söguna.
Þessi útgáfa af Hans klaufa er í raun alveg ný saga sem ekki er hægt að finna í gömlu ævintýrunum, þó vissulega beri hún þekkt nafn. Verkið er sannkölluð ævintýrablanda sem sækir mikið af efniviði sínum í sígildu ævintýrin okkar. Þannig munum við kynnast Öskubusku, stjúpsystrum hennar og prinsi sem breytt verður í frosk. Við munum stinga okkur á snældu, reyna að sofna með eina litla baun undir 100 ábreiðum og standa í háum turni og láta okkur vaxa hár sem nær alla leið niður á jörðina. Síðast en ekki síst munum við fylgjast með ævintýrum hins klaufalega Hans, Hans Klaufa.
Sjón er sögu ríkari! Hittu Hans klaufa, Aron prins, Öskubusku og alla hina vini þína í Ævintýraskóginum í Tjarnarbíói í vetur.
Hans klaufi í leikgerð Leikhópsins Lottu Leikstjórar: Anna Bergljót Thorarensen og Þórunn Lárusdóttir Höfundar laga og texta: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Gunnar Ben og Snæbjörn Ragnarsson Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir.
Lífið er dálítið niðurdrepandi á útfararstofu Jóns. Samt kviknar smá lífsneisti með syni hans, Helga Þór líksnyrti, þegar aðstandandi líksins á börunum birtist; ung stelpa sem hann þekkir. Það lifnar yfir þeim báðum, þau skilja hvort annað og eru að byrja að tengjast þegar Jón mætir á svæðið. Hann er móður og másandi eftir að hafa séð sýnir og kastar fram spádómi um að líf Helga sé í stórhættu. Og þar með byrjar allt. Helgi Þór rofnar er drepfyndið og spennandi leikrit um það hvort maðurinn komist undan sögunni um sig, geti losað sig úr álögum og hætt að trúa á spádóma.
Þetta er fimmta verkið sem Tyrfingur Tyrfingsson frumsýnir í Borgarleikhúsinu en fá af leikskáldum nýrrar kynslóðar hafa vakið jafn mikla athygli og notið jafn mikillar hylli. Áður hafa Kartöfluæturnar, Auglýsing ársins, Bláskjár og Skúrinn á sléttunni verið sýnd hér og kynnt á leiklistarhátíðum í Evrópu. Von er á uppfærslu á Kartöfluætunum í einu virtasta leikhúsi Hollands, Toneelgroep Oostpool sem hefur einnig tryggt sér réttinn á þessu nýja verki: Helgi Þór rofnar.
Þjóðleikhúsið auglýsir eftir hugmyndum að leiksýningum sem settar yrðu upp í samstarfi leikhússins við leikhópa eða aðra leikárið 2020-2021, í samræmi við 6. grein laga um sviðslistir, 2019, en þar segir:
„Þjóðleikhúsið skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna sviðslistum með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði. Leikhúsið auglýsir eftir samstarfsaðilum ár hvert og gerir formlega samstarfssamninga berist umsókn um samstarf sem er til þess fallið að ná markmiðum ákvæðisins.“
Þjóðleikhúsið vill gjarnan efna til frjós og skapandi samstarfs í þeim tilgangi að efla sviðslistir í landinu.
Með umsókn skal senda greinargóða lýsingu á verkefninu, markmiðum verkefnisins, ásamt lista yfir listafólk sem kemur að verkefninu og aðra þátttakendur. Fjárhagsáætlun skal fylgja með umsókn. Leikhúsið kallar einnig eftir hugmyndum og óskum um samstarf af öðru tagi. Leikhúsið kann að óska eftir frekari upplýsingum og/eða samtali um verkefnin.
Umsóknir berist Þjóðleikhúsinu með tölvupósti merktum „Samstarfsverkefni” á netfangið melkorka@leikhusid.is fyrir mánudaginn 3. febrúar 2020.
Höfundasmiðja Leikfélags Hafnarfjarðar heldur örnámskeið í leikritun dagana 18. – 25. janúar 2020. Aðgangur er ókeypis og skráning óþörf nema hér í viðburðinum. Skilyrði fyrir þátttöku er að vera félagi í Leikfélagi Hafnarfjarðar.
Farið verður stuttlega yfir nokkra grunnþætti leikbyggingar og áhersla lögð á stuttverkaskrif. Í framhaldi af námskeiðinu verða verk nemenda sett á svið.
Kennt verður í kapellunni (gamli St. Jóssefsspítalinn) og eru dag- og tímasetningar eftirfarandi: Laugardagur 18. janúar kl. 13 – 16. Fimmtudagur 23. janúar kl. 19.30 – 22.30. Föstudagur 25. janúar kl. 13 – 16.
Hátíðarsýning leikársins, Vanja frændi, verður frumsýnd á Stóra sviðinu Borgarleikhússins 11. janúar á afmælisdegi Leikfélags Reykjavíkur.
Prófessor nokkur kemur á sveitasetur látinnar eiginkonu sinnar með seinni konu sína, hina ungu og ómótstæðilegu Jelenu. Dóttir prófessorsins af fyrra hjónabandi og Vanja, bróðir fyrri konunnar, hafa lagt á sig ómælda vinnu í gegnum tíðina við að sinna búinu. En nú er prófessorinn orðinn gamall, hefur allt á hornum sér og hyggur á róttækar breytingar. Örvænting og vonleysi heltekur Vanja því átakamikið uppgjör er óumflýjanlegt.
Vanja frændi er eitt af stóru meistaraverkum Antons Tsjekhovs og af mörgum talið það skemmtilegasta. Þrátt fyrir brostnar vonir og sorg er það stútfullt af húmor og náttúrulegum léttleika. Hér takast á mismunandi viðhorf til lífsins; vellystingar og græðgi á móti umhyggju fyrir jörðinni og náttúrunni. Hvernig eigum við að lifa áfram þegar sársaukafullur sannleikurinn um tilgang okkar og stöðu blasir við? Vanja frændi er eitt af mest leiknu leikritum Tsjékhovs og birtist hér í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur sem stýrði hinni vinsælu sýningu, Ríkharður III, á síðasta leikári.
Kæra Jelena snýr aftur eftir kraftmikil viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda á síðasta leikári. Verkið fjallar um hóp nemenda sem kemur óvænt í heimsókn til umsjónarkennara síns með vín og gjafir undir því yfirskini að óska henni til hamingju með afmælið. Þau standa öll á tímamótum, eru að klára menntaskólann og við það að taka stóra skrefið út í lífið. Fljótlega komumst við þó að því að þau hafa allt annað í huga en að gleðja kennarann sinn og atburðarásin fer gjörsamlega úr böndunum.
Í Kæru Jelenu takast kynslóðir á í verki sem spyr stórra spurninga um siðferðisleg mörk, einstaklingshyggju og yfirlæti. Á hvaða tímapunkti breytist framagirni og metnaður í yfirgang, ofbeldi og siðblindu? Ljúdmíla Razumovskaja skrifaði leikritið árið 1980 og fór það sigurför um heiminn auk þess að vera kvikmyndað. Í nýrri þýðingu Kristínar Eiríksdóttur færum við verkið nær okkur í stað og tíma.
Kæra Jelena fékk tvær tilnefningar til Grímuverðalauna árið 2019. Halldóra Geirharðsdóttir tilnefningu sem leikkona ársins í aðalhlutverki og Sigurður Þór Óskarsson sem leikari ársins í aukahlutverki.
Athugið að atriði í sýningunni geta vakið óhug.
Sýningin er ekki æskileg fyrir börn yngri en 12 ára.
Skáldsagan Meistarinn og Margaríta er af mörgum talin eitt magnaðasta skáldverk 20. aldarinnar. Þessi hnyttna og beitta háðsádeila um eilífa baráttu góðs og ills er vinsælt verkefni leikhúsa víða um heim, og birtist hér í nýrri leikgerð sem var frumflutt á Dramaten í Svíþjóð árið 2014.
Satan sjálfur heimsækir Moskvu í líki galdramannsins Wolands og ásamt skrautlegu fylgdarliði sínu tekur hann til við að afhjúpa spillingu og græðgi, og fletta ofan af svikahröppum, loddurum, aurasálum og hrokagikkjum. Jafnframt því að fylgjast með bellibrögðum Wolands kynnast áhorfendur Meistaranum, rithöfundi sem hefur verið lokaður inni á geðspítala af yfirvöldum, og ástkonu hans Margarítu, og inn í fjölskrúðugan sagnaheim verksins blandast óvænt frásögn af Pontíusi Pílatusi og síðustu stundum Jesú frá Nasaret.
Þetta sígilda skáldverk talar til okkar með nýjum og ferskum hætti í heillandi sýningu, þar sem allt getur gerst og undramáttur ímyndunaraflsins ræður ríkjum.
Boðið verður upp á 20 mín. umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu á verkinu.