Uncategorized | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Browsing "Uncategorized"

    Samtal við leikhús í Veröld-Húsi Vigdísar

    feb 7, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Samtal við leikhús er málfundaröð til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur þar sem atvinnuleikhúsfólk og fræðimenn koma saman og ræða uppsetningar á leikverkum sem eru í sýningu hjá leikhúsunum.

    Í Veröld – húsi Vigdísar þann 17. febrúar kl. 17:00
    verða pallborðsumræður um sýningu Borgarleikhússins á Vanja frænda eftir rússneska leikskáldið Anton Tsjékhov.  

    • Hvaða erindi á verkið við okkur í dag?
    • Hvernig nálgast leikstjóri uppsetningu verksins?
    • Hvernig vinnur þýðandinn úr textanum?
    • Þessum spurningum og fleirum verður velt upp í Veröld þann 17. febrúar

    Í pallborði verða Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku, Gunnar Pétursson þýðandi verksins, Brynhildur Guðjónsdóttir leikstjóri og Valur Freyr Einarsson leikari. Guðrún Kristinsdóttir, doktorsnemi í frönskum fræðum, stýrir umræðum.

    Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir!

    Lokasýningar á Einræðisherranum

    feb 7, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Eftir Charlie Chaplin. Leikgerð: Nikolaj Cederholm  Leikstjórn Nikolaj Cederholm

    Aðeins þrjár aukasýningar í febrúar!

    Leikgerð Nikolajs Cederholms af kvikmynd Chaplins The Great Dictator sló í gegn í Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári, og eftir áramót gefst færi á að sjá sýninguna að nýju á Stóra sviðinu. Siggi Sigurjóns þótti vinna leiksigur í aðalhlutverkinu, og hin einstaka hljóðmynd sýningarinnar hlaut Grímuverðlaunin, en heiðurinn af henni eiga tónlistarmaðurinn Karl Olgeirsson, leikmunadeild Þjóðleikhússins og Aron Þór Arnarson úr hljóðdeild leikhússins. Anja Gaardbo og Kasper Ravnhöj voru einnig tilnefnd til Grímunnar í flokknum dans- og sviðshreyfingar ársins, en dansar og slapstick-atriði í sýningunni hafa vakið mikla athygli og kátínu.

    Leiksýningin er á sinn hátt óður til meistaraverks Chaplins, en um leið vísar hún til samtímans, líkt og kvikmynd Chaplins gerði á sínum tíma. 

    Hér gefst íslenskum leikhúsgestum kostur á að sjá Sigga Sigurjóns stíga á svið í hlutverki flækingsins sem verður einræðisherra fyrir röð mistaka. Leikhópurinn fer á kostum í takt við listilegar hljóðbrellur Karls Olgeirssonar píanóleikara.

    Heillandi, bráðskemmtileg og frumleg leiksýning um valdasýki, möguleika mennskunnar í trylltri veröld og baráttuna fyrir friði í heiminum. 

    THE GREAT DICTATOR © Roy Export S.A.S. Öll réttindi áskilin.
    Charlie Chaplin™ is a trademark and/or service marks of Bubbles Inc. SA and/or Roy Export S.A.S. used with permission. Charlie Chaplin™ © Bubbles Incorporated SA 2018.

    Kleinur

    feb 7, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    „Þessar kleinur hérna eru óvenju mjúkar og óvenju bragðgóðar“

    Leikfélag Ölfuss frumsýnir Kleinur eftir Þórunni Guðmundsdóttur laugardaginn 8. febrúar í Versölum í Þorlákshöfn.
    Verkið fjallar um sérvitringinn Sigga, sem er smiður eins og Jesús, og sýnir okkur æviferil hans frá gröf til vöggu. Þórunn skrifaði upphaflega fyrsta þáttinn sem einþáttung og bætti svo við fjórum í viðbót þar sem fólk varð afar forvitið um þennan furðulega fýr og samskipti hans við samferðafólkið.
    Árný Leifsdóttir leikstýrir verkinu en leikarar eru þau Björg Guðmundsdóttir, Brynhildur Óskarsdóttir, Helena Helgadóttir, Ívar Örn Baldursson, Jóhanna Hafdís Leifsdóttir, Óttar Ingólfsson og Telma Rut Jónsdóttir.
    Miðasala er í síma 786 1250 á milli kl. 12-18 en hægt er að senda sms utan þess tíma. Miðaverð er 2500 kr.
    Uppselt er á frumsýningu 8. febrúar en aðrar sýningar eru sem hér segir:

    Fim. 13. , þri. 18. , lau. 22. febrúar, fim. 27. febrúar og þri. 3. mars.
    Sýningar hefjast kl. 20:00

    Þjóðsaga til næsta bæjar

    feb 6, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Leikfélag Hveragerðis frumsýnir föstudaginn 7. febrúar nk. nýtt íslenskt leikrit, sem fengið hefur nafnið Þjóðsaga til næsta bæjar. Leikritið er byggt á þjóðsögum Jóns Árnasonar en 200 ár voru liðin frá fæðingu hans sl. haust. Jón skráði og safnaði hundruðum íslenskra þjóðsagna, ævintýra og munnmælasagna um ævina. Sögum sem annars væru án efa flestar gleymdar og tröllum gefnar. Með sýningunni vill leikfélagið heiðra minningu Jóns.

    Höfundur leikgerðar og leikstjóri er hinn góðkunni leikari Örn Árnason en hann hefur einnig samið söngtexta og flest lögin í sýningunni. Verkið er spunnið saman úr nokkrum þekktustu þjóðsögum og ævintýrum sem Jón hélt til haga, meðal annars koma hinir „bráðskörpu“ Bakkabræður töluvert við sögu og að sjálfsögðu hin geðþekka Gilitrutt.

    Æfingar hafa staðið yfir síðan í byrjun nóvember og hafa gengið vel. 22 leikarar fara með fjölda hlutverka, en alls koma 32 að verkinu. Sýnt er í Leikhúsinu að Austurmörk 23 Hveragerði.
    Miðapantanir eru í síma 863-8522.

    Litla Hryllingsbúðin á Húsavík

    feb 6, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Þann 25. janúar frumsýndi Leikfélag Húsavíkur leikritið Litla Hryllingsbúðin eftir Howard Ashman og Alan Menken í leikstjórn Völu Fannell í Samkomuhúsinu á Húsavík.

    Litla Hryllingsbúðin er sígildur rokksöngleikur, fyrir alla fjölskylduna, fullur af húmor, kraftmikilli tónlist, heillandi persónum og krassandi söguþræði. Verkið fjallar um erkilúðan Baldur sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann eyðir fábrotnum dögum sínum við vinnu í blómabúðinni hans Markúsar. Hann lætur sig dreyma um ástir Auðar sem vinnur með honum í búðinni. Dag einn uppgötvar Baldur undarlega plöntu sem hann nefnir Auði II í höfuðið á sinni heittelskuðu. Plantan vekur óskipta athygli og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr og Baldur verður stöðugt vinsælli. Kvöld eitt kemur í ljós að plantan getur talað og hún lofar Baldri frægð og frama, gulli og grænum skógum. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Inn í söguna blandast svo kærasti Auðar, tannlæknir með kvalarlosta og atburðarrásin tekur óvænta stefnu.

    Leikfélag Húsavíkur fagnar í ár 120 ára afmæli og besta afmælisgjöfin væri sú að allir þeir sem vettlingi geta valdið komi til okkar í Gamla Samkomuhúsið, skemmti sér yfir Litlu Hryllingsbúðinni og fagni um leið með okkur 120 ára afmælinu.

    Er ég mamma mín?

    feb 5, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Tvær sögur – eða alltaf sama sagan?
    Borgarleikhúsið – Einn daginn neitar húsmóðirin að leika hlutverk sitt og hættir að sinna heimilinu. Hún fer í verkfall, leggur niður störf og leirtauið safnast upp. Hvernig tekst heimilisfólki að aðlagast breyttum hlutverkum kynjanna og nýjum valdahlutföllum? Verkið er fjölskyldusaga sem sögð er á tveimur mismunandi tímabilum með áherslu á áhrif hverrar kynslóðar á þá næstu og samskipti hjóna í blíðu og stríðu. Er hægt að brjótast undan hlutverkunum? Eða verður þú alltaf mamma þín?

    María Reyndal hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem höfundur og leikstjóri. Kvenfélagið Garpur, sem setur upp verkið í samstarfi við Borgarleikhúsið, hefur áður vakið athygli fyrir Mannasiði og Sóleyju Rós, ræstitækni sem hlaut fimm Grímutilnefningar og tvenn Grímuverðlaun árið 2017 fyrir leikrit ársins og leikkonu ársins í aðalhlutverki. Mannasiðir var páskamynd RÚV 2018 og hlaut 4 Eddutilnefningar og var valið besta leikna sjónvarpsefni ársins 2018. 

    Verkið er styrkt af Leiklistarráði, Starfslaunasjóði listamanna og Reykjavíkurborg.

    Alladín og töfralampinn

    feb 5, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Nemendamótsnefnd Verzlunarskóla Íslands setur upp ár hvert stórglæsilegan söngleik.Í ár varð söngleikurinn Alladín og töfralampinn fyrir valinu sem er byggður á Disney teiknimyndinni Aladdin sem var gefin út árið 1992 og endurgerð leikin útgáfa árið 2019.

    Þessi söngleikur hefur aldrei verið settur upp af þessari stærðargráðu á Íslandi. Söngleikurinn verður sýndur í Austurbæ og er það Agnar Jón Egilsson sem leikstýrir sýningunni. Listrænir stjórnendur eru annars Pálmi Sigurhjartarson tónlistarstjóri og Rósa Rún dansstjóri.  Allir listrænir stjórnendur sýningarinnar hafa veigamikla reynslu og þekkingu á sínu sviði og verður öllu til tjaldað.

    Söngleikurinn í ár segir frá Alladín sem er fátækur þjófur sem einn daginn hittir fyrir slysni prinsessuna Jasmín án þess að gera sér grein fyrir því hver hún er. Hann varð ástfanginn af henni við fyrstu sýn en uppgötvar síðan seinna hvert hennar raunverulega hlutverk er. Alladín heldur að hann gæti bara verið með henni ef hann væri konungsborinn sem hann er svo sannarlega ekki. Hann leitar margra lausna og finnur að lokum töfralampa sem veitir honum þrjár óskir. Alladín reynir að nýta óskirnar til að heilla Jasmín og fjallar söngleikurinn um hvernig hann fer með óskirnar og í hvaða ævintýri töfralampinn leiðir hann.

    Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag

    feb 5, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Þitt eigið leikrit er glæný tegund af leikhúsi sem varð til í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu árið 2019. Með þar til gerðum fjarstýringum stjórna áhorfendur sjálfir atburðarásinni!

    Í kjölfarið á sýningunni Þitt eigið leikrit I – Goðsaga, kemur ný sýning, Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag. Nýja sýningin er enn lengri og viðameiri en sú fyrri, og nú er haldið af stað í æsispennandi ferð um rúm og tíma!

    Ef þú gætir ferðast hvert sem er, fram eða aftur í tíma, – hvert myndirðu fara? Myndirðu reyna að hafa áhrif á fortíðina eða viltu kannski skoða framtíðina? Viltu eignast gæludýr sem er grameðla, reyna að bjarga einhverjum úr fortíðinni eða skjótast út í geim eftir hundrað ár? Valið er þitt!

    Leiksýningin Þitt eigið leikrit I – Goðsaga var tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins 2019.

    Aldursviðmið: 7-14 ára.

    Sjö sóttu um stöðu Borgarleikhússtjóra

    feb 5, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Samkvæmt tilkynningu frá stjórn LR voru sjö sem sóttu um stöðu Borgarleikhússtjóra, sem auglýst var til umsóknar þann 16. janúar síðastliðinn. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur mun nú vinna úr umsóknunum og birta niðurstöðu sína á næstu vikum, að því er fram kemur í tilkynningunni. Listi yfir umsækjendur  mun ekki verða birtur.

    Seinna ráðningartímabil Kristínar Eysteinsdóttur, núverandi Borgarleikhússtjóra, rennur út í júlí 2021. Umsóknarfrestur rann út þann 30. janúar síðastliðinn en í auglýsingu um umsóknarferlið var tekið fram að stjórn LR vildi undirbúa ráðningu eftirmanns Kristínar tímanlega.

    Kristín hefur verið leikhússtjóri frá árinu 2014. Nýr leikhússtjóri mun þó byrja að vinna með Kristínu strax í upphafi árs 2021.

    Lífið Stórskemmtilegt drullumall!

    jan 29, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Sýningin sem hefur farið sigurför um heiminn snýr aftur á svið! 

    Lífið  er stórskemmtilegt drullumall á mörkum leikhúss og myndlistar fyrir alla fjölskylduna.  Sýningin er unnin með óvenjulegri aðferð þar sem sagan í verkinu fær að kvikna út úr efniviðnum sem notaður er í sýningunni.  Lífið  fjallar um sköpunarkraft, vináttu og hringrás lífsins, þar sem unnið er með mold.

    Lífið hefur hlotið einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda, jafnt á Íslandi sem erlendis.

    Verkið hefur m.a. verið sýnt í Kína, Þýskalandi, Hollandi, Noregi og á Möltu og verða örfáar sýningar í Tjarnarbíói í haust.

    Lífið var valin besta barnasýningin ársins 2015 á Grímunni – Íslensku sviðslistaverðlaununum, auk þess sem leikhópurinn Tíu fingur var valinn Sproti ársins 2015. Sprotinn er veittur einstaklingi eða hópi sem þykir sýna einstakan frumleika og framúrskarandi nýbreytni í sköpun sinni í sviðslistum.

    Það er allt fallegt við þessa sýningu. Allar stjörnurnar í húsinu!
    G.S.E. – Djöflaeyjan

    Lífið er yndisleg sýning!
    S.B.H. – Morgunblaðið

    Það verður seint fullþakkað að til eru listamenn sem bjóða yngri börnum leikhússupplifun sem er valkostur við hraðann, hávaðann og íburðinn í stóru barnasýningunum.
    D.K. – Hugrás

    Höfundar: Leikhópurinn Tíu Fingur Listrænir stjórnendur: Helga Arnalds og Charlotte Böving Leikarar: Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson  Tónlist: Margrét Kristín Blöndal Ljósahönnun: Björn Bergsteinn Guðmundsson  Tæknimenn: Arnþór Þórsteinsson og Hafliði Emil Barðason Styrktaraðilar: Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Sviðslistasjóður, Starfslaunasjóður listamanna og Reykjavíkurborg

    Síður:«1...36373839404142...95»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!