Tanntröllin Karíus og Baktus lifa sannkölluðu sældarlífi í munninum á drengnum Jens. Enda notar hann tannburstann lítið sem ekkert og vill helst gæða sér á allskyns sætindum sem Karíus og Baktus kunna svo sannarlega að meta. Félagarnir hreiðra um sig í tönnunum og ræða framtíðardrauma um byggingaframkvæmdir í munninum. En þegar þeir gerast of aðgangsharðir verður Jens að fara til tannlæknis sem setur framkvæmdirnar í uppnám og félagarnir þurfa að leita á nýjar slóðir.
Karíus og Baktus er sígilt ævintýri eftir Thorbjörn Egner. Sagan kom fyrst út á bók árið 1949 og síðan þá hafa þessir litlu prakkarar notið mikilla vinsælda meðal barna víða um heiminn.
Nú má sjá þessa sígildu prakkara í fallegu leikhúsi sem sett hefur verið upp í Kaldalóni í Hörpu en það er miklu skemmtilegra að kíkja á þá þar en að hafa þá í munninum á sér. Karíus og Baktus er hress og skemmtileg sýning fyrir alla aldurshópa og er tilvalin fyrir unga krakka sem eru að kynnast töfrum leikhússins í fyrsta skipti.
Sýningin er um 45 mínútur að lengd.
Leikarar: Elísabet Skagfjörð og Kjartan Darri Kristjánsson
Leikstjórn: Agnes Wild og Sara Marti Guðmundsdóttir
Leikmynd og búningar: Steinunn Marta Önnudóttir
Tónlist og hljóðmynd: Stefán Örn Gunnlaugsson
Myndbandsvinnsla: Steinar Júlíusson
Framleiðsla: Daldrandi ehf
Sýningarréttur: Teaterförlag Songbird AS Bergen/Norge
„Auðvitað vonum við að þessi deila leysist sem allra fyrst,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri, „en við ákváðum að vera tilbúin ef til verkfalls kemur, og bjóða upp á sýningar fyrir börn með lækkuðu miðaverði. Það getur verið dýrmætt að fá tækifæri til að gera eitthvað óvenjulegt og skemmtilegt með börnunum á svona tímum, og því ákváðum við að taka til sýninga eina af barnasýningunum okkar, Ómar Orðabelg. Sýnt verður í Kúlunni kl. 13:00 alla næstu viku, frá og með þriðjudegi, ef af verkfalli verður. Vegna aðstæðna lækkum við miðaverð og kostar miðinn aðeins 1.000 kr.“
Ómar Orðabelgur er nýtt, íslenskt barnaleikrit eftir Gunnar Smára Jóhannesson í leikstjórn Björns Inga Hilmarssonar, sem Þjóðleikhúsið sýndi síðastliðið haust. Í sýningunni sláumst við í för með Ómari Orðabelg í leit að uppruna orðanna. Hvaðan kemur orðið fíll? Afhverju segjum við fægiskófla? Er appelsína epli frá Kína? Ómar Orðabelgur ferðast um heim orðanna og kynnist allskonar skrýtnum orðum, en eitt orð mun hann kannski aldrei skilja til fulls. Dauðinn. Hvað er að deyja? Dauðinn er orð sem allir þekkja en veit einhver hvað það þýðir í raun?
Ómar Orðabelgur er í senn hjartnæm, fyndin og fjörug sýning, sem tekur um 40 mínútur í flutningi. Sem fyrr segir munu sýningar hefjast þriðjudaginn 18. febrúar kl. 13, ef að verkfallsaðgerðir standa enn. Ef deilan leysist verða sýningar felldar niður, og gestir fá ónotaða miða endurgreidda eða geta nýtt þá sem inneign á aðrar sýningar á tíma sem hentar. Áhugasamir geta nálgast nánari upplýsingar á vef Þjóðleikhússins, leikhusid.is.
Eftir Lee Hall, byggt á kvikmyndahandriti eftir Paddy Chayefsky Leikstjórn Guðjón Davíð Karlsson
Magnað verk um átök innan fjölmiðlaheimsins og vald fjölmiðlanna, sem hefur slegið rækilega í gegn í London og New York
Fréttamanninum Howard Beale er sagt upp eftir tuttugu og fimm ára starf hjá sömu bandarísku sjónvarpsstöðvakeðjunni. Áhorfið þykir of lítið. Hann tilkynnir áhorfendum að eftir viku muni hann svipta sig lífi í beinni útsendingu og skyndilega er fréttaþátturinn hans orðinn miðpunktur athyglinnar. Sjónvarpsstöðin þarf á auknu áhorfi að halda og Howard er leyft að halda áfram á skjánum. Hann fer að tjá sig reglulega í beinni útsendingu um grimmdina í heiminum, hræsnina og blekkingarnar í þjóðfélaginu og hvetur fólk til að rísa upp.
Spennandi leikrit sem vekur fjölda spurninga um vald fjölmiðla og áhrif þeirra á líf fólks. Nýta fjölmiðlar sér skeytingarlaust mannlega harmleiki og andlegt ójafnvægi fólks í samkeppni sinni um æsilegasta efnið? Eða er einmitt mikilvægt að raddir reiðinnar og sársaukans fái að hljóma hindrunarlaust?
Sýning Breska þjóðleikhússins, sem var á fjölunum bæði í London (2017-18) og New York (2018-19), sló rækilega í gegn og var tilnefnd til fjölda verðlauna. Bryan Cranston (Breaking Bad) hlaut fimm virt leiklistarverðlaun fyrir leik sinn í aðalhlutverkinu, meðal annars Laurence Olivier og Tony verðlaunin.
Leikrit Lee Halls er byggt á Óskarsverðlaunamyndinni Network (leikstjórn: Sidney Lumet, handrit: Paddy Chayefsky).
Boðið verður upp á 20 mín. umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu á verkinu.
Brynhildur Guðjónsdóttir hefur verið ráðin leikhússtjóri Borgarleikhússins. Brynhildur er í hópi fremstu leikhúslistamanna á Íslandi um þessar mundir. Hún hefur yfir tuttugu ára reynslu sem leikari, höfundur, listrænn ráðunautur og leikstjóri.
Hún hefur starfað við Borgarleikhúsið síðastliðin átta ár en hún er leikstjóri sýninganna Ríkharður III, sem var valin leiksýning árins 2019, og Vanja frændi, sem enn er í sýningu. Brynhildur hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna og hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir framlag sitt til lista. Hún hefur sjö sinnum tekið á móti Grímunni – Íslensku leiklistarverðlaununum, ýmist fyrir leik í aðal- og aukahlutverkum, leikstjórn eða fyrir leikritun. Þá var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu íslenskrar leiklistar.
Brynhildur lauk BA námi í leiklist frá Guildhall School of Music and Drama í Englandi en áður hafði hún lokið BA gráðu í frönsku frá Háskóla Íslands. Einnig nam hún leikritun við Yale School of Drama í Bandaríkjunum.
Stjórn Leikfélags Reykjavíkur fagnar ráðningu Brynhildar og býður hana velkomna til forystu í Borgarleikhúsinu. Hún hefur störf á næstu dögum.
Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnar Leikfélags Reykjavíkur:
„Það hefur verið stórkostlegt að vinna með Brynhildi í Borgarleikhúsinu undanfarin ár. Nýlegar sýningar í leikstjórn hennar, s.s. Ríkharður þriðji og Vanja frændi, hafa borið listrænum hæfileikum hennar glöggt vitni. Þar hafa forystuhæfileikar hennar og framsýni einnig komið skýrt í ljós. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur hlakkar til samstarfsins og að sjá Brynhildi í nýju hlutverki næstu árin.”
„Á þessum vatnaskilum í mínu lífi þakka ég af auðmýkt það traust sem stjórn Leikfélags Reykjavíkur nú sýnir mér. Það er með gleði sem ég tek við keflinu af Kristínu Eysteinsdóttur, sem hin síðustu ár hefur stýrt Borgarleikhúsinu af kjarki, hlustun og sínu einstaka listræna innsæi. Það eru stórar breytingar í íslensku leikhúslífi um þessar mundir og ég lít á það sem gríðarmikið og gott tækifæri fyrir leikhúsið til að spyrna sér af krafti inn í nýja og gróskumikla tíma, þar sem gæði og gjöfult samtal verða leiðarljósið. Það er mín von að Borgarleikhúsið verði áfram sjálfsagður viðkomustaður allra landsmanna, kröftug listastofnun sem nærir, miðlar og gleður. Að þessu sögðu hlakka ég til að setja upp skipstjórahúfuna og, ásamt hinum öfluga, samstillta og flinka hópi starfsmanna leikhússins, setja á fullt stím inn í nýja framtíð.”
Um þessar mundir standa yfir æfingar á nýju íslensku verki úr heimi stjórnmálanna hjá Leikfélagi Kópavogs.
Þegar Einar ráðherra fær afleita niðurstöður úr skoðanakönnun rétt fyrir kosningar, er aðeins um eitt að ræða. Að koma með svo krassandi hugmynd, svo ótrúlega magnaða, að kjósendur kikna í hnjánum og geta ekki annað en kosið hann aftur. Sumir lofa öllu fögru en Einar er “maður framkvæmda” og lætur verkin tala. Við sem lifum venjulegu lífi þekkjum ekki hvað það er að vera stöðugt metin í skoðanakönnunum. Stjórnmálamenn eru stöðugt undir smásjá og metnir í skoðanakönnunum og þurfa að taka mið af niðurstöðum. Stíga niður eða stíga fram. Einar ráðherra, í gamanleikritinu „Fjallið“ eftir Örn Alexandersson, er ekki maður sem stígur niður. Hann stígur fram og aftur, til hliðar og upp en aldrei niður. Slíkt gera ekki ábyrgir stjórnmálamenn eða hvað? Höfundur leikstýrir verkinu og aðstoðarleikstjóri er Sigrún Tryggvadóttir. Frumsýning er áætluð í lok febrúar.
Poppý og Braggi ferðast til Böggabæjar í leiðangri til a bjarga vinum sínum úr klóm böggana sem trúa því að ef þau borða tröllin þá verða þau hamingjusöm. Á leið sinni hitta þau alls kyns verur og lenda í ýmsum ævintýrum á leið sinni til og í Böggabæ. Poppý er glaðleg og hress trölla prinsessa sem elskar ekkert meira en að syngja og vera með vinum sínum. En Braggi er andstæðan við Poppý, hann er fúll og áhyggjufullur tröllastrákur sem er alltaf hræddur um að verða étinn af böggum.
Tröll er leikverk sett upp af Leikfélagi Verkmenntaskólans á Akureyri og verður frumsýnt í Hofi þann 16. febrúar næstkomandi. Tröll er leikstýrt af Kolbrúnu Lilju Guðnadóttur. Innblásturinn kom frá frægu myndinni Trolls sem var gefin út árið 2016. Þær Kolbrún og Jokka G. Birnudóttir hafa unnið hörðum höndum í allt sumar við skrif á handritinu og er þetta í fyrsta skipti sem þetta verk er sett upp hér á landi.
Komið eins og þið eruð. Með barn á brjósti eða ekki. Svefnvana eða alsælar eftir heila nótt af ótrufluðum svefni þar sem þig dreymdi smá. Upplifðu leikhús byggt á mögnuðu dönsku verki, leikið af fjórum af frábærustu leikkonum Íslands. „Mæður“ fagnar vandamálunum og sigrunum sem fylgja móðurhlutverkinu, því sagða og öllu sem okkur er ekki sagt, klisjunum, mýtunum, því fáránlega og því frábærlega óvænta. Taktu barnið þitt með þér, manninn þinn, vinkonu, eða bara allan mömmuklúbbinn. Ekki vera hrædd við að trufla sýninguna, við vitum hvað við erum að gera og þolum það alveg. Endilega gefðu barninu þínu brjóst á meðan og við eigum fullt af auka bleyjum.
Höfundar: Christina Sederqvist, Julia Lahme, Mette Marie Lei Lange Anna Bro. ogo íslenski leikhópurinn Leikkonur: Aðalbjörg Árnadótttir, Kristín Pétursdóttir, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir Leikstjórn: Álfrún Örnólfsdóttir Leikmynd og búningar: Hildur Selma Sigurbertsdóttir Tónlist og hljóð: Steinunn Jónsdóttir og Þormóður Dagsson Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason
Um næstu helgi verður áhugasömum boðið að koma á samlestur á leikritinu Ferðamaður deyr hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Leikritið er nýr farsi eftir höfundasmiðju leikfélagsins og fjallar um ófyrirséðar afleiðingar af fjölgun ferðamanna og hið íslenska hugvit sem á sér engin takmörk. Verkið er í raun óður til íslenskrar ferðaþjónustu. Leikstjóri verksins verður Ólafur Þórðarson. Hann hefur sótt fjölda námskeiða í leikritun og leikstjórn og verið virkur höfundur og leikstjóri hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar frá árinu 2014.
Ólafur leikstýrði verkinu Ekkert að Óttast sem einnig var skrifað af höfundasmiðju LH og var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2015-2016. Stefnt er að frumsýningu í lok mars.
Allir þeir sem áhuga hafa á að heyra verkið og/eða taka þátt í uppsetningu þess á einhvern hátt eru boðnir velkomnir á samlestur á því laugardaginn 15. febrúar kl. 13.00 í Kapellunni, Suðurgötu 41 í Hafnarfirði.
14. feb. frumsýnir Halaleikhópurinn stuttverkadagskrána Nú er hann sjöfaldur, Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson leikstýrir.
Hverjir voru hvar, Gamli vinur og Kaffi og með því eftir Guðmund Lúðvík Þorvaldsson. Lokakeppnin eftir Halldór Magnússon, Kurteisi eftir Don Ellione, Verkið eftir Örn Alexandersson, Aftur á svið eftir Fríðu Bonnie Andersen.
Höfundarnir eiga það sameiginlegt að starfa innan raða BÍL eins og Halaleikhópurinn.
Leikarar eru tíu sumir gamalreyndir en aðrir eru að stíga sín fyrstu skref á sviði. Alls taka 22 þátt í uppfærslunni. Sýnt er í Halanum leikhúsi Halaleikhópsins í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12. Inngangur að norðanverðu no. 3.
Frumsýnt verður föstudaginn 14. feb. nk. kl. 20.00.
Þann 14. febrúar frumsýnir hið alþjóðlega verðlaunaða Handbendi Brúðuleikhús verkið Sæhjarta, sem er einleikið brúðuverk fyrir fullorðna í Tjarnarbíói.
Dularfull kona á drungalegri strönd. Hún er rekald á ströndinni og úrhrak samfélagsins.
Verðlaunaleikhúsið Handbendi Brúðuleikhús kynnir þessa nýju, einleiknu og einstöku brúðulistasýningu fyrir fullorðna. Hennar margslungna furðusaga er sögð með heillandi blöndu brúðuleiks og hefðbundins leikhúss. Sæhjarta endurskapar og endurvekur gömlu sagnirnar um urturnar sem komu á land og fóru úr selshamnum til að búa og elska meðal manna.
Handrit og leikur: Greta Clough
Leikstjórn: Sigurður Líndal Þórisson
Tónlist og hljóðmynd: Júlíus Aðalsteinn Róbertsson
Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson
Dagsetningar: 14. – 19. og 27. febrúar – Tjarnarbíó, Reykjavik – kl. 20.00
Ekki ætlað börnum undir 16 ára að aldri. Inniheldur atriði og lýsingar á kynífi, ofbeldi og nekt.
Handbendi Brúðuleikhús er brúðu/leikhús með höfuðstöðvar á Hvammstanga þar sem leikhúsið setur upp frumsamdar sýningar sem ferðast um allan heim. Leikhúsið er leitt af Gretu Clough, fyrrum listamanni hússins hjá hinu heimsfræga Little Angel Theatre í London. Greta hefur unnið til verðlauna fyrir gæði og frumleika í brúðulistum, og sem leikskáld.