Tveir landsfrægir skemmtikraftar láta plata sig til að fjárfesta í gömlu sveitahóteli, sem má muna fífil sinn fegri. Á sama tíma finnst eldgömul beinagrind í grennd við hótelið, en hauskúpuna vantar. Í kjölfarið gerast rosalegir atburðir og það er deginum ljósara að á hótelinu í Botni er … jú, reimt. En þegar allt virðist vonlaust kemur hins vegar í ljós að reimleikar geta haft vissa kosti í för með sér, sérstaklega á tímum harðnandi samkeppni í ferðaþjónustu.
Þetta er saga um ástir og örlög, græðgi og örlæti, fjandskap og vináttu, spikk og span, listir og snobb, tímann og vatnið. En líka um gauksklukku.
Þeir Karl Ágúst Úlfsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hafa unnið að gerð þessa söngleikjar í meira en áratug, en hann er saminn í Þrastaskógi, Reykjavík, Colorado, Flórens, sveitum Toscana, á Akureyri, í Hrísey, Bárðardal, á Gran Canaria, í Garðabæ, Kópavogi, Róm og á Sikiley. Það hefur því farið í hann blóð, sviti og tár. Og dass af rauðvíni. Nú leikstýrir Karl Ágúst verkinu í FG, en Þorvaldur annast tónlistarstjórn. Og svo er það Brynhildur Karlsdóttir sem er danshöfundur sýningarinnar.
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Ég er fullorðinn unglingur og er að læra leiklist.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Gullfiskur 🙂
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Leikari en þorði því ekki fyrr.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Minni helsti kostur er að mér finnst fólk skemmtilegt og minn helsti galli er að ég segi alltof sjaldan nei.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Þessu er fljótsvarað, hamborgari. Lífið væri ekki eins án hans.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Kabarett hjá Leikfélagi Akureyrar, algjörlega heillandi sýning og vel gerð.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Það er bara leiklistinn og leiklistinn fæ bara ekki nóg.
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Kántrý elska það og soul.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Mjög fátt en helst ef það er eitthvað tengt mat er matsár.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Ásbyrgi.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Króatía.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
Hvorugt.
Eiga hund eða kött?
Hund.
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
Finnst þér betra að vinna á morgnanna eða kvöldin?
Morgnana.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Bjór.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Bað.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Skemmtilegur.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Þetta var gaman, já flottur vefur.
Hin óviðjafnanlega og óborganlega Stella í orlofi eftir Guðnýju Halldórsdóttur kemur, sér og sigrar leikhúsið!
Um er að ræða glænýja leikgerð Gunnars Gunnsteinssonar og Leikfélags Hólmavíkur en Gunnar sjálfur leikstýrir verkinu.
Uppsetningin er samstarfsverkefni Leikfélags Hólmavíkur og Grunn- og tónskóla Hólmavíkur og nýtur stuðnings Fjórðungssambands Vestfjarða og Strandabyggðar.
Miðaverð er litlar 3500 kr en frítt er fyrir áhorfendur sem ekki tala íslensku. Miðapantanir eru hjá Ágústi í síma 841-0929. „Free entrance for those who do not speak Icelandic.“
Ekki láta þetta einstaka tækifæri allra aldurshópa til að kitla hláturtaugarnar framhjá þér fara.
Leikfélag Keflavíkur sýnir nú hinn vinsæla fjölskyldusöngleik Benedikt búálf.
Benedikt búálfur er skemmtilegt og fjörugt leikrit eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson með hressandi og vel gerðum lögum eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson.
Leikritið fjallar um Dídí mannabarn og Benedikt búálf sem leggja af stað í hættuför að bjarga Tóta tannálfi, en hvað gerist í álfheimum ef tannálfurinn er ekki þar? Jú, þá fá allir álfarnir tannpínu og þá er illt í efni.
Sýningin var fyrst sett upp á Íslandi árið 2002 í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar. Nú er það Ingrid Jónsdóttir sem leikstýrir þessari uppfærslu á Benedikt, en hún hefur komið víða við sem leikstjóri og leikkona.
Barnasýningum Leikfélags Keflavíkur hefur ávallt verið vel tekið og Benedikt búálfur verður þar sennilega undantekning. Leikhópurinn samanstendur af reyndum leikurum í bland við nokkra sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga verður settur í tuttugasta og fjórða sinn í Reykjaskóla í sumar. Starfstími skólans er frá 13. – 21. júní. Að þessu sinni verður boðið upp á 4 námskeið:
Leiklist II – kennari Hannes Óli Ágústsson Leikstjórn I – kennari Árni Kristjánsson Leikarinn sem skapandi listamaður – kennari Rúnar Guðbrandsson Tjöldin frá – kennarar Eva Björg Harðardóttir og Ingvar Guðni Brynjólfsson. Síðastnefnda námskeiðið er framhald á námskeiðinu Bak við tjöldin sem haldið var sumarið 2018.
Leidkeild UMF Biskupstungna sýnir um þessar mundir hinn kunna farsa Allir á svið eftir Michael Frayn. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson og sýnt er í Aratungu.
Leikritið sem er eftir Michael Frayn í þýðingu og staðfærslu Gísla Rúnars Jónssonar fjallar um leikhóp sem stendur að æfingum og sýningum á leikritinu Nakin á svið. Í fyrsta þætti kynnumst við hópnum þar sem fram fer lokaæfing á verkinu. Í öðrum þætti er búið að sýna í mánuð og ferðast með verkið um landið. Leikhópurinn er þá staddur á Akureyri og síðdegissýning að hefjast. Margt getur gerst á heilum mánuði í lífi fólks og það á ekki síður við hjá leikhóp sem þarf að vinna náið saman og umbera hvert annað. Í þriðja þætti er hópurinn kominn á lokasýningu í Aratungu og það má glöggt merkja að umburðalyndi er nú af skornum skammti og leikhópurinn orðinn tættur og lúinn á samstarfinu. Miðapantanir eru í síma 896-7003. Allar sýningar hefjast kl. 20.00.
Leikfélag Borgarholtsskóla setur upp söngleikinn Grís í Hlöðunni, Gufunesbæ. Í þessari bráðfyndnu útgáfu af söngleiknum förum við með ykkur í gegnum sögu Danna og Söndru eftir að Sandra flytur í bæinn og byrjar í Borgó. Við lofum ómótstæðilegri skemmtun og þú munt alveg pottþétt syngja með!
Tryggið ykkur miða á þessa frábæru skemmtun sem fyrst því þetta verður SOLD OUT show!
Leikstjóri og handritshöfundur: Ingi Hrafn Hilmarsson Danshöfundur: Magnús Eðvald Halldórsson Aðstoðardanshöfundur: Kristófer Ingi Sigurðsson Söngstjóri: Guðbjörg Hilmarsdóttir Uppsetning: Leikfélag Borgarholtsskóla
Trésmiðurinn Jafet kemst yfir talandi viðardrumb og fær þá hugmynd að smíða úr honum brúðu. Til verður spýtustrákurinn Gosi; forvitinn prakkari sem á erfitt með að feta hinn rétta veg. Í stað þess að hlýða föður sínum heldur hann á vit vafasamra ævintýra, kynnist talandi kribbu sem reynir að koma fyrir hann vitinu, lætur undirförulan kött og ref snúa á sig og þarf að ganga í gegnum alls konar hremmingar áður en hann kemst til þroska með dyggri hjálp bláhærðu dísarinnar.
Leikarar og tónlistarmenn sýna okkur þetta sígilda og ástsæla ævintýri um spýtustrákinn í nýjum og litríkum búningi. Leikstjóri sýningarinnar, Ágústa Skúladóttir, hefur leikstýrt fjölda barna og fjölskyldusýninga sem ávallt hafa notið mikilla vinsælda.
Um er að ræða uppfærða leikgerð og nýja þýðingu sem hefur aldrei verið sýnd hér á landi. Þessi nýja leikgerð inniheldur kafla sem voru ekki birtir í fyrstu útgáfu bókarinnar, Dagbók Önnu Frank, sem verkið er byggt á. Gefa þessir kaflar nánari innsýn inn í hugarheim stúlkunnar.
Dagbók Önnu Frank er tvímælalaust eitt mikilvægasta bókmenntaverk tuttugustu aldarinnar. Þegar nasistar náðu völdum í Evrópu varð fjöldi gyðingafjölskyldna að yfirgefa heimaland sitt. Þau sem ekki fóru úr landi urðu að fela sig. Þau sem ekki földu sig enduðu í útrýmingarbúðum þar sem þau voru myrt á eins skilvirkan hátt og hægt var. Þessi voðaverk eiga fáa sína líka í mannkynssögunni. En úr þessum jarðvegi, þessu þjóðarmorði, sprettur ein magnaðasta saga sem sögð hefur verið úr nokkru stríði; saga Önnu.
Fyrsta leikgerðin er eftir Albert Hackett og Frances Goodrich, kom út skömmu eftir að Dagbókin sjálf var gefin út og hefur verið leikin um heim allan síðan. Fyrir nokkrum árum var leikskáldið Wendy Kesselman fengin til að uppfæra leikgerð Hackett og Goodrich og var tilnefnd til Tony-verðlaunanna fyrir verkið
Á tíunda áratugnum var Dagbókin sjálf endurútgefin, um þrjátíu prósentum lengri en hún var í upphaflegu útgáfunni sem ritstýrt var af Ottó Frank og útgefendum bókarinnar. Efnið sem upphaflega fékk ekki að vera með í útgáfu dagbókarinnar snerist fyrst og fremst um uppgötvun Önnu á sjálfri sér sem kynveru, og um neikvæðar tilfinningar hennar í garð móður sinnar
Frumsýnt verður 21. febrúar og sýningar verða í Freyvangi föstudags- og laugardagskvöld fram á vor.
Leikstjóri er Sigurður Líndal og þýðandi er Ingunn Snædal.
Hægt er að panta miða í s. 857-5598