Eftir skipulagsbreytingar síðustu mánaða hafa þrír nýir stjórnendur verið ráðnir til Þjóðleikhússins.
Í tilkynningu kemur fram að störf þeirra koma í stað þriggja annarra starfa sem voru aflögð sem hluti af áherslu- og skipulagsbreytingum í leikhúsinu. Steinunn Þórhallsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins, Jón Þorgeir Kristjánsson tekur við sem forstöðumaður samskipta og markaðsmála og Kristín Ólafsdóttir tekur við nýju starfi þjónustu- og upplifunarstjóra. Þau munu koma til starfa á næstu mánuðum.
„Steinunn hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri í íslensku lista- og menningarlífi. Frá 2017 hefur hún verið framkvæmdastjóri hjá RÚV þar sem hún starfaði hátt á annan áratug sem ferla- og skipulagsstjóri, verkefnastjóri umbótaverkefna, dagskrárgerðarmaður og framleiðandi. Hún var markaðs- og kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík og Íslensku óperunnar á árunum 2010-2014.
Steinunn er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst, B.A. gráðu í spænsku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og lagði stund á háskólanám í mannauðsstjórnun og leiðtogafræðum í Danmörku. Hún hefur kennt námskeið um stefnumótun og hlutverk menningarfyrirtækja við Háskólann á Bifröst og unnið sem ráðgjafi um stafræna umbreytingu og jafnréttismál fyrir EBU, European Broadcasting Union,“ segir í tilkynningu.
„Jón Þorgeir er með áralanga reynslu af markaðsstörfum, hönnun og leikhússtörfum. Hann er með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands. Jón Þorgeir er nú framkvæmdastjóri ÍMARK – samtaka markaðsfólks á Íslandi. Þar á undan var hann markaðsstjóri Borgarleikhússins auk þess hefur hann tekið þátt í fjölda leikhúsuppsetninga bæði hérlendis og erlendis bæði sem hönnuður og/ eða markaðssérfræðingur. Einnig hefur hann hannað og framleitt auglýsingar fyrir mörg stærstu fyrirtæki landsins.“
„Kristín Ólafsdóttir hefur gríðarlega reynslu sem þjónustustjóri, veitingamaður og ráðsmaður á Bessastöðum. Kristín er með meistaragráðu í framreiðslu, blómaskreytir og hefur einnig lokið námi í viðburðarstjórnun frá Háskólanum á Hólum. Kristín var yfirþjónn á Icelandair-hótelinu á Flúðum og Hótel KEA. Kristín var ráðsmaður á Bessastöðum í 9 ár, frá 2002-2011 og stýrði framhúsi og veitingasölu Borgarleikhússins á árunum 2013-2018. Þá hefur hún ásamt eiginmanni sínum rekið veiðihúsin við Laxá í Kjós, og síðustu ár veiðihúsin við Selá og Hofsá í Vopnafirði. Þá hefur hún einnig séð um þjónustu í Eldar-lodge, sem er í sérflokki sem hágæða gistiaðstaða fyrir erlenda ferðamenn,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu.
112 umsóknir bárust um störfin þrjú, þar af 32 í stöðu framkvæmdastjóra, 38 í starf forstöðumanns samskipta og markaðsmála og 42 í stöðu þjónustu- og upplifunarstjóra.
Yael Farber er alþjóðlegur leikstjóri sem hefur leikstýrt víða um heim á undanförnum árum. Farber er frá Suður-Afríku en býr í Kanada og Singapúr. Hún hefur leikstýrt rómuðum sýningum í helstu leikhúsum Bretlands, Breska þjóðleikhúsinu, The Old Vic, Young Vic og Donmar Warehouse. Nú nýlega hlaut hún afbragðs dóma fyrir uppsetningu sína á Hamlet með Hollywoodstjörnunni Ruth Negga, sem sýnd hefur verið í New York. Farber er einnig leikskáld og hefur hún sjálf og sýningar hennar hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga.
Napólísögur Ferrante hafa farið sigurför um heiminn, þær hafa selst í yfir tíu milljónum eintaka um allan heim og verið þýddar á fjölmörg tungumál. Hér á landi er sagan þekkt sem Framúrskarandi vinkona. Sjónvarpsþættir sem byggja á sögunum eru þegar orðnir þeir vinsælustu í sögu Ítalíu.
Uppsetningin á Napólísögum í Þjóðleikhúsinu verður viðamikil og öllu verður tjaldað til. Sterkur hópur íslenskra listrænna stjórnenda mun vinna með Farber, Ilmur Stefánsdóttir hannar leikmynd, Filippía I. Elísdóttir hannar búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson hannar lýsingu. Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir verður sýningardramatúrg verksins og Salka Guðmundsdóttir þýðir.
Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri: „Það er gríðarlegur fengur fyrir Þjóðleikhúsið og íslenskt leikhúslíf að tekist hafi að fá Yael Farber í okkar hóp. Hún er einstaklega öflugur og áræðinn leikstjóri sem vakið hefur verðskuldaða athygli víða um heim á undanförnum árum. Það er ómetanlegt fyrir okkar leikhóp að fá leikstjóra af þessu kaliberi til samstarfs og ég er ekki í vafa um að hún mun skapa kraftmikla, dínamíska og skemmtilega sýningu upp úr hinum rómuðu Napólí-sögum Ferrante. Ég hlakka óskaplega til að sjá þessa sýningu birtast á sviði Þjóðleikhússins í haust.“
Eins og allir hafa tekið eftir hefur samkomubann verið sett á frá og með miðnætti aðfaranótt mánudags. Þetta mun eðlilega hafa mikil áhrif á leikhúslíf landsins og fjölmargar sýningar falla niður af þeim sökum.
Við hjá leikhus.is hvetjum ykkur til að fylgjast með upplýsingum frá leikhúsunum til að fá nánari upplýsingar um þær sýningar sem falla niður en þetta nær til allra samkoma sem telja 100 manns eða fleiri og á viðburðum þar sem færri koma saman er gert ráð fyrir því að tveir metrar séu á milli fólks.
Þjóðleikhúsið hefur ákveðið að fresta strax öllum sýningum og hafa sent frá sér eftirfarandi tilkynningu: Þar sem samkomubann hefur verið sett á í landinu þarf Þjóðleikhúsið, eins og aðrar sviðslistastofnanir, að fresta sýningum um óákveðinn tíma. Helstu sviðslistastofnanir þjóðarinnar, þar á meðal Þjóðleikhúsið, eru í samstarfi um viðbrögð vegna Covid-19 veirunnar. Þó samkomubannið bresti ekki á með formlegum hætti fyrr en á sunnudag, þá hefur leikhúsið ákveðið að fella niður sýningar helgarinnar þegar í stað í varúðarskyni.
Um leið og nýjar dagsetningar verða ákveðnar verður send út tilkynning. Sú regla gildir um miðakaup, að ef dagsetningu viðburðar er breytt, þá færast miðarnir sjálfkrafa á nýja dagsetningu. Ef ný dagsetning hentar ekki hafa stofnanirnar ákveðið að veita kaupanda rétt á endurgreiðslu, að því tilskildu að ósk um endurgreiðslu berist stofnuninni innan 7 daga frá tilkynningu um nýja dagsetningu.
Starfsfólk Þjóðleikhússins mun halda áfram að undirbúa næstu sýningar og næsta leikár. Við leggjum allt kapp á að viðhalda sköpunargleðinni í leikhúsinu, og hlökkum til að taka á móti ykkur í Þjóðleikhúsinu um leið og aðstæður leyfa.
Bubbi Morthens er samofinn þjóðarsálinni í öllum sínum birtingarmyndum: Stjarnan sem rís úr slorinu; fyrst sem málsvari verkalýðsins, svo alþýðusöngvari þjóðarinnar, þá atómpönkari og gúanórokkari sem breytist í ballöðu-poppara sem syngur með stórsveitum. Skoðanaglaði gasprarinn, skrifblinda ljóðskáldið, fíkilinn sem reis upp, kvennamaðurinn og sá sem elskar aðeins eina konu, Kúbverjinn og Hollywood-víkingurinn, veiðimaðurinn, friðarsinninn og boxarinn. Sögur Bubba Mortens eru sögur okkar allra; sögur Íslands. En hver er hann í raun og veru? Og hver erum við?
Í þessari stórsýningu munu leikarar, dansarar, tónlistarmenn og fleiri góðir gestir, leggja allt í sölurnar við leitina að Bubbanum í okkur öllum og fylla sviðið með sögum, lögum, ljóðum og litum þessa elskaða og umdeilda listamanns.
Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð setur upp leiksýninguna Nashyrningarnir sem byggt er á verkinu Rhinocéros eftir Eugène Ionesco. Þetta verk var einnig sett upp af leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1989. Leikhópurinn ásamt leikstjóra unnu mikið í verkinu og aðlöguðu það að sínum samtíma en það var skrifað árið 1959 og var mikið ádeiluverk. Verkið fjallar um Birgittu, sem er fremur venjuleg manneskja sem vinnur á skrifstofu. Lífið hennar Birgittu umturnast þegar nashyrningar koma á kreik og valda usla.
Leikstjóri verksins er Júlíana Kristín Liborius og aðstoðarleikstjóri er Anna Kristín og verkið er sýnt í Undirheimum í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Átakamikil og nýstárleg sýning um uppgjör brúðumeistara við fortíðina
Bernd Ogrodnik er heimskunnur brúðumeistari sem hefur gert Ísland að heimalandi sínu, og er þekktur fyrir einstakt næmi og listfengi. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir brúðusýningar sínar fyrir börn og fullorðna. Hér fetar hann ótroðnar slóðir og stefnir saman leikhúsforminu og brúðulistinni í nýrri sýningu fyrir fullorðna, þar sem hann leikur sjálfur brúðumeistara sem tekst á við líf sitt og fortíð.
Leikverkið fjallar um þýska brúðumeistarann Günther sem hefur leitað skjóls frá umheiminum í bráðabirgðahúsnæði í Reykjavík, þar sem hann vinnur að nýrri brúðusýningu. En um leið og hann tekst á við flóknar áskoranir í brúðugerðarlistinni leita á hann knýjandi spurningar um fortíðina og sögu heimalands hans, og harmræna atburði sem hafa mótað foreldra hans og hann sjálfan.
Er mögulegt að flýja fortíðina eða leitar hún okkur alltaf uppi á endanum og krefur okkur svara?
Sunnudaginn 8. mars frumsýnir Leikdeild Skallagríms breska farsann Bót og betrun eftir Michael Cooney í félagsheimilinu Lyngbrekku. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson en Hörður Sigurðarson þýddi verkið.
Bót og betrun fjallar um Eric Swan sem missti vinnuna fyrir tveimur árum en hefur enn ekki haft kjark til að segja eiginkonu sinni frá atvinnumissinum. Til að afla sér tekna tekur hann upp á því að svindla á félagsmálakerfinu af einstakri útsjónasemi. En þegar eftirlitsmaður frá sjúkdóma-og fötlunarsviði mætir einn morguninn vandast málið og allt lagt í sölurnar til að reyna að ljúga sig út úr vandanum.
Sýningar verða:
Frumsýning sunnnudaginn 8. mars
2. sýning fimmmtudaginn 12. mars
3. sýning föstudaginn 13. mars
4. sýning sunnnudaginn 15. mars
5. sýning fimmmtudaginn 19. mars
6 sýning föstudaginn 20. mars
7 sýning laugardaginn 21. mars
8. og jafnframt lokasýning sunnnudaginn 22. Mars
Miðasala í síma 846 2293 og á leikdeildskalla@gmail.com Sýnt er í Lyngbrekku og hefjast sýningar klukkan 20:30
Leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði kynnir með stolti söngleikinn Mamma Mía!
Undanfarin ár hefur leikfélag skólans staðið fyrir uppsetningum á glæsilegum söngleikjum og er engin undantekning á því í ár. Sýningin er byggð á samnefndri kvikmynd og er sýnd í hjarta Hafnarfjarðar, Bæjarbíói. Við lofum mikilli skemmtun og glæsilegum söngatriðum!
Tryggið ykkur miða sem fyrst, þið viljið ekki missa af þessu
Leikstjóri og handritshöfundur: Júlíana Sara Gunnarsdótti Söngstjóri: Helga Margrét Marzellíusardótti Danshöfundur: Sara Dís Gunnarsdótti Uppsetning: Leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði
Leikfélag Selfoss hefur ákveðið að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því DJÖFLAEYJAN, í öllu sínu veldi, hefur risið nokkuð örugglega síðustu vikur í húsakynnum Leikfélags Selfoss. Margir þekkja vel þessa stóru fjölskyldusögu um fólkið í Thulekampi eftir Einar Kárason, en þessi sýning byggir á skáldsögunum Þar sem Djöflaeyjan rís og Gulleyjunni og þá einnig eldri leikgerðum.
Leiðsögumaður okkar um Djöflaeyjuna heitir Rúnar Guðbrandsson og starfar hann nú í þriðja sinn með Leikfélagi Selfoss því hann leikstýrði einnig Sólarferð 2012 og Kirsuberjagarðinum 2016.
Sýningin er viðamikil í allri sinni dýrð, um 50 manns koma að sýningunni og hvorki meir né minna en 24 leikarar stíga á svið þegar mest lætur. Það er sérstaklega skemmtilegt að segja frá að fimm fyrrverandi og núverandi formenn leikfélagsins koma að sýningunni í ár. Tónlist er einnig áberandi í verkinu og getum við státað okkur af einvalaliði tónlistarfólks sem bæði leikur og syngur af hjartans list. Hópurinn í heild samanstendur af reynsluboltum til margra ára en einnig er að finna minna slípaða demanta sem eru að stíga sín fyrstu skref innan Leikhússins. Saman galdrar þessi hæfileikaríki hópur fram Djöflaeyjuna á áhrifaríkan hátt sem þú áhorfandi góður hefur ekki séð áður.
Athugið að við teljum að sýningin sé ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Frumsýning er 6. mars en miðabókun fer fram á vefsíðunni okkar og einnig má senda póst á midasala@leikfelagselfoss.is eða hringja í síma 482-2787.
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri setur upp sína 71. sýningu, Sondheim-verkið þekkta, Inn í skóginn (Into The Woods). Verkið tekur fyrir þekktar persónur úr Grimms ævintýrum eins og Öskubusku og Rauðhettu og kannar siðferði sagna þessa í sambandi við daglegt líf okkar.
Inn í skóginn var tilnefnt til tíu Tony-verðlauna og hlaut þar af þrjú, meðal annars fyrir bestu upprunalegu tónlist.
Sýningin Inn í skóginn er nokkurs konar ádeila sem er lögð fram gegn þeirri hugmynd að allir lifi alltaf hamingjusamir til æviloka. Inn í skóginn sýnir dimmari og drungalegri hlið ævintýranna og seinni hluti sýningarinnar getur vakið óhug á meðal barna af ungum aldri.
Tónlist og söngtextar eftir Stephen Sondheim
Handrit eftir James Lapine
Upprunaleg uppsetning leikstýrð af James Lapine á Broadway
Upprunaleg útsetning tónlistar eftir Jonathan Tunick
Þessi áhugaleiksýning er sett upp í samkomulagi við Music Theatre Internation (Europe)
Allt efni tengt verkinu er útvegað af MTI Europe www.mtishows.co.uk.