Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Senuþjófinn frumsýnir 30. ágúst leikverkið Beðið eftir Beckett. Frumsýnt verður í leikhúsi Kómedíuleikhússins í Haukadal Dýrafirði. Höfundur verksins er Trausti Ólafsson sem jafnframt leikstýrir.
Beðið eftir Beckett er guðdómleg kómedía sem fjallar um leikara nokkurn sem bíður eftir að Samuel Beckett skrifi fyrir sig nýtt leikrit. Á meðan á biðinni stendur styttir hann sér stundir með því að máta sig við persónur úr eldri leikritum skáldsins og bregður fyrir sig ögn af Dante, Artaud og Hallgrími Péturssyni. Einsog í sönnum grískum harmleik á leikarinn von á sendiboða guðanna.
Leikari er Elfar Logi Hannesson og einnig kemur ungur dýrfirskur leikari við sögu í leiknum, Þrymur Rafn Andersen. Leikmynd og búninga hannar Marsibil G. Kristjánsdóttir, höfundur tónlistar er Hjörleifur Valsson og Sigurvald Ívar Helgason hannar lýsingu.
Frumsýning Fyrstu þrjár sýningar á Beðið eftir Beckett verða sýndar Í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal, Dýrafirði. Vegna Kóvítans verður takmarkaður sætafjöldi í boði.
Miðasala er aðeins í síma: 891 7025.
Frumsýning … sunnudaginn 30. ágúst kl. 20:01 UPPSELT 2. sýning ……… mánudaginn 31. ágúst kl. 20:02 3. sýning ……… þriðjudaginn 1. september kl. 20:03
Aðrar sýningar Stefnt er að því að sýna Beðið eftir Beckett víðar á landinu í vetur, m.a. hjá Leikfélagi Akureyrar í Hofi og í Tjarnarbíói í Reykjavík. Nánari upplýsingar um sýningar á verkinu má finna á fésbókarsíðu Kómedíuleikhússins og á komedia.is
Gísli Rúnar Jónsson lést þann 28. júlí síðastliðinn og mun útför hans fara fram þann 20 ágúst nk.
Vegna ástandsins í heiminum munu aðeins nánustu aðstandendur og vinir Gísla Rúnars Jónssonar geta komið saman í kirkjunni en útförinni verður sjónvarpað beint í Sjónvarpi Símans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu Gísla Rúnars.
„Okkar elskaði Gísli Rúnar Jónson, leikari, leikstjóri, rithöfundur, þýðandi og einstakur fjölskyldufaðir verður jarðsunginn fimmtudaginn 20. ágúst næstkomandi kl. 15:00.
Vegna ástandsins í heiminum munu aðeins hans nánustu aðstandendur og vinir geta komið saman í kirkjunni, en útförinni verður sjónvarpað beint í Sjónvarpi Símans og auk þess verður aðgengilegt streymi á netinu.
Aðstandendur þakka allan kærleika, hlýhug og fallegar kveðjur sem borist hafa á þessum erfiðu tímum.
Fjölskyldan hvetur alla þá sem elskuðu þennan mikla listamann til að eiga fallega stund, kveikja á kertum og vera með okkur í anda og fylgjast með jarðarförinni á netinu.“
Gísli Rúnar varð fyrst þjóðkunnur fyrir hlutverk sitt í Kaffibrúsakörlunum ásamt Júlíusi Brjánssyni. Þetta voru stutt gamanatriði í skemmtiþáttum í Sjónvarpinu haustið 1972. Næstu tvö árin skemmtu þeir félagar víðsvegar um landið og gáfu út plötu með efni þeirra 1973 við miklar vinsældir. Kaffibrúsakarlarnir voru fyrsta gamantvíeykið í íslensku sjónvarpi og skipa þannig sérstakan sess, en um svipað leyti komu bræðurnir Halli og Laddi einnig fram.
Nokkrum árum síðar gerðu Halli, Laddi og Gísli Rúnar grínplötuna Látum sem ekkert c (1976), sem óneitanlega hlýtur að teljast stór minnisvarði í íslensku gríni. Þar er meðal annars að finna lagið Tygg-Igg-Úmmí.
Sjálfur gerði hann plötuna Algjör Sveppur sama ár og 1977 var hann meðal fjölda listamanna sem kom að hljómplötunni Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka. 1980 kom út platan Úllen Dúllen Doff þar sem finna mátti úrval efnis úr samnefndum skemmtiþáttum Útvarpsins. Auk Gísla Rúnars komu þar fram Randver Þorláksson, Jónas Jónasson, Sigurður Sigurjónsson, Árni Tryggvason og Hanna María Karlsdóttir auk Eddu Björgvinsdóttur, en þau Gísli Rúnar kynntust í leiklistarskóla á áttunda áratuginum og giftu sig síðar. Þau eignuðust tvö börn, Björgvin Franz og Róbert Óliver. Þau skildu árið 2000.
Gísli Rúnar kom að fjölda Áramótaskaupa, ýmist sem leikari, handritshöfundur eða leikstjóri, allt frá 1981 til 1994. Þá skrifaði hann handrit og leikstýrði nokkrum gamanþáttaröðum. Fastir liðir eins og venjulega voru sýndir 1985 í Sjónvarpinu og ári síðar Heilsubælið í Gervahverfi sem var fyrsta gamanþáttaröð Stöðvar 2. Hann fór einnig með aðalhlutverk í þeim þáttum. Bæði verkin slógu hressilega í gegn. Áður hafði hann leikið aðalhlutverk í þáttunum Þættir úr Félagsheimili (1982, RÚV). Hann var einnig meðal handritshöfunda gamanþáttanna Búbbarnir, sem sýndir voru á Stöð 2, 2006.
Gísli Rúnar kom fram í mörgum kvikmyndum, má þar nefna Hvíta máva (1985), Stellu í orlofi (1986), Stuttan Frakka (1993), Blossa (1997), Magnús (1989) og Stellu í framboði (2002). Síðasta hlutverk hans á þeim vettvangi var í Ömmu Hófí sem frumsýnd var í júlí 2020.
Gísli Rúnar átti einnig langan feril í leikhúsi, sem leikari, leikstjóri, leikskáld og þýðandi. Þá skrifaði hann ævisögu Björgvins Halldórssonar, Bó & Co, sem kom út 2001 og nokkru síðar bókina Ég drepst þar sem mér sýnist þar sem hann tíndi til skrautlegar gamansögur frá löngum ferli sínum.
Við hjá leikhus.is vottum fjölskyldu og aðstandendum okkar dýpstu samúð um leið og við þökkum Gísla Rúnari fyrir allar þær gæðastundir sem hann hefur fært okkur í gegnum tíðina.
Í ljósi aðstæðna og tilmæla sóttvarnaryfirvalda hafa Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið frestað sýningum sem áttu að hefjast nú í byrjun ágúst.
Þjóðleikhúsið hefur ákveðið að fresta sýningum á Kardemommubænum til 12. september og Framúrskarandi vinkonu til 17. október.
Borgarleikhúsið hefur ekki gefið upp nýjar dagsetningar á sýnum sýningum en hvetur alla til að fylgjast með sínum miðlum ásamt því að haft verður samband við alla þá sem þegar hafa keypt miða á sýningar.
Leikararnir Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson hafa nú bæði gengið til liðs við Þjóðleikhúsið. Þau mun leika saman í verkinu Upphaf sem María Reyndal leikstýrir og verður frumsýnt 11. september.Verkið var frumsýnt í Breska þjóðleikhúsinu í London fyrir þremur árum og hlaut afar góðar viðtökur. Það gekk fyrir fullu húsi, var flutt yfir á West End og hefur síðan verið sviðsett víða um heim.
Leikararnir Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson hafa nú verið ráðin á fasta samninga hjá Þjóðleikhúsinu, bæði hafa þau verið í fremsta flokki íslenskra leikara, hlotið Grímuverðlaun og aðrar viðurkenningar fyrir lutverk sýn. og munu fara með hlutverk í verkinu Upphaf, eftir Davids Eldridge en verkið er einstaklega vel skrifað nýtt leikrit, fyndið og ljúfsárt, um hina sársaukafullu þrá eftir að verða náinn annarri manneskju og eignast fjölskyldu, og óttann við að tengjast öðrum of sterkum böndum. María Reyndal leikstýrir en verkið er frumsýnt í Kassanum 4. september næstkomandi.
Kristín Þóra og Hilmar bætast því í hóp þeirra fjölmörgu leikara og listrænu stjórnenda sem hafa gengið til liðs við Þjóðleikhúsið á undanförnum vikum og mánuðum, en nú þegar hafa leikararnir og leikstjórarnir Þorleifur Arnarsson, Ólafur Egill og Unnur Ösp bæst í hópinn, auk þess sem lýsingahönnuðurinn Björn Bergsteinn, leikmyndahöfundurinn Ilmur Stefánsdóttir og Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir dramaturg hafa gengið til liðs við Þjóðleikhúsið. Kristín Þóra Haraldsdóttir útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2007 og síðan þá hefur hún tekið þátt í tugum leiksýninga ýmist hjá Leikfélagi Akureyrar, Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Af nýlegum sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum má nefna þættina Fanga, Brot og Stellu Blomkvist og kvikmyndirnar Andið eðlilega og Lof mér að falla. Kristín Þóra hefur verið tilnefnd sex sinnum til Grímunnar og tvisvar sinnum til Eddunar. Kristín Þóra hlaut Stefaníustjakann frá minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur árið 2014 og Grímuverðlaunin 2016 sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt í auglýsingu ársins. Árið 2018 vann hún Edduna fyrir hlutverk sitt í Lof mér að falla. Auk þess hefur Kristín verið valin sem Shooting Star 2018 ásamt 10 öðrum efnilegum leikurum í Evrópu. Fyrir hlutverk sín í Andið Eðlilega og Lof mér að falla hefur hún fengið fjölda tilnefninga til Alþjóðlegra verðlauna.
Hilmar Guðjónsson útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010 og var þegar fastráðinn við Borgarleikhúsið. Eftir útskrift hafa hlutverkin verið ótalmörg. Hann hlaut grímuverðlaun fyrir hlutverk sitt í Rautt og nú í vor var hann tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir Helgi Þór rofnar. Meðal annarra verka sem hann hefur leikið í eru Fanný og Alexander, Ríkharður III, Mávurinn og Salka Valka. Þá hefur Hilmar farið með hlutverk í kvikmyndunum Bjarnfreðarson og Á annan veg og fékk hann tilnefningu til Edduverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í myndinni. Í sjónvarpi hefur Hilmar tekið að sér hlutverk í sjónvarpsmyndinni Fiskar á þurru landi og svo þáttaröðunum Fólkið í blokkinni, Drekasvæðinu, Stellu Blomkvist og Venjulegu fólki auk hlutverka í Áramótaskaupum, Jólastundinni okkar og Ævari Vísindamanni. Þá hefur Hilmar leikið í fjölda stuttmynda, nú síðast Ráðabruggi Regínu. Haustið 2011 var Hilmar valinn í hóp Shooting Stars, ungra og efnilegra kvikmyndaleikara í Evrópu.
Sjálfstæðir sviðslistahópar fengu 6 af þeim 18 verðlaunum sem voru í boði á Grímuni í ár og má því segja að framtíðinn sé björt í leikhúsflóru landsins. Úrslit Grímunnar voru eftirfarandi:
Tilnefningar til Grímunnar 2020 hafa verið tilkynntar. Atómstöðin, Engillinn og Eyður eru tilnefndar sem sýningar ársins og leikrit ársins en dansverkin Spill og Þel eru einnig tilnefndar sem sýningar ársins og Helgi Þór rofnar og Kartöflur sem leikrit ársins.
Þjóðleikhúsið er með 41 tilnefningu og Borgarleikhúsið með 14.
Finnur Arnar Arnarsson, Kristín Jóhannesdóttir, Marmarabörn, Una Þorleifsdóttir og Vignir Rafn Valþórsson eru tilnefnd sem leikstjórar ársins.
Björn Thors, Eggert Þorleifsson, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason og Sveinn Ólafur Gunnarsson eru tilnefndir sem leikarar ársins í aðalhlutverki.
Ebba Katrín Finnsdóttir, Katrín Gunnarsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Nína Dögg Filuppusdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir eru tilnefndar sem leikkonur ársins í aðalhlutverkum.
Tilnefningar sem söngvari ársins 2020 fengu Rúnar Kristinn Rúnarsson fyrir Vorið vaknar í sviðsetningu Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Valgerður Guðnadóttir fyrir Mamma Klikk í sviðsetningu Gaflaraleikhússins og þrjár söngkonur Brúðkaupi Fígarós í sviðsetningu Íslensku óperunnar í samstarfi við Þjóðleikhúsið; þær Eyrún Unnarsdóttir, Karin Thorbjörnsdóttir og Þóra Einarsdóttir.
Sigurbjartur Sturla Atlason, eða Sturla Atlas eins og hann er betur þekktur, mun fara með hlutverk Rómeó í uppsetningu Þorleifs Arnar á Rómeó og Júlíu á Stóra sviði Þjóðleikhússins á næsta leikári. Fjórtán leikurum var boðið í ítarlegar prufur fyrir hlutverkið en alls höfðu um 100 sótt um. Sturla Atlas var á endanum sá sem hreppti hnossið. Ebba Katrín Finnsdóttir mun fara með hlutverk Júlíu, eins og áður hefur komið fram.
Þjóðleikhúsið undirbýr nú viðamikla uppsetningu á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Það hefur legið ljóst fyrir um nokkurn tíma að Ebba Katrín Finnsdóttir muni fara með hlutverk Júlíu, en ákveðið var að halda prufur fyrir leikara á aldrinum 20-30 ára til að finna hinn eina rétta í hlutverk Rómeós. Fjórtán leikurum var boðið í ítarlegar prufur fyrir hlutverkið en alls höfðu um 100 sótt um. Sturla Atlas var á endanum sá sem hreppti hnossið.
Sigurbjartur Sturla Atlasason, eða Sturla Atlas eins og hann er eflaust betur þekktur, hefur verið áberandi á undanförnum árum sem leikari en ekki síður sem einn vinsælasti tónlistarmaður landsins meðal ungs fólks. Hann var útnefndur bjartasta vonin á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2016 og hefur nýverið sent frá sér plötuna Paranoia sem hefur fengið frábærar viðtökur. Eftirminnileg eru hlutverk hans í Ófærð 2 og kvikmyndinni Lof mér að falla svo fátt eitt sé nefnt. Æfingar á Rómeó og Júlíu hefjast snemma á næsta ári en verkið verður frumsýnt í mars 2021.
Þorleifur Örn Arnarsson hefur verið í hópi fremstu leikstjóra Íslendinga um árabil. Hann leikstýrði mörgum rómuðustu sýningum síðustu ára hér á landi, eins og Englum alheimsins og Njálu. Þá hefur hann notið mikillar velgengni í Evrópu og undanfarið verið einn stjórnenda hins virta leikhúss Volksbühne í Berlín. Nú í febrúar var tilkynnt um að Þorleifur gengi til liðs við Þjóðleikhúsið sem samningsbundinn leikstjóri og mun hann leikstýra einni sýningu árlega við húsið á næstu árum. Við hlið Þorleifs mun starfa einstaklega sterkur hópur listrænna stjórnenda. Ilmur Stefánsdóttir mun hanna leikmynd og Björn Bergsteinn Guðmundsson er ljósahönnuður. Þá hefur Kristján Ingimarsson verið ráðinn til sjá um kóreógrafíu í sýningunni en hann hefur vakið athygli hér á landi eiog víða um heim fyrir ævintýralegar sýningar og skemmst er að minnast BLAM sem sló í gegn hér fyrir nokkrum árum.
Ebba Katrín Finnsdóttir verður Júlía Ebba Katrín Finnsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli síðan hún útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands fyrir tveimur árum. Hún sýndi framúrskarandi leik í aðalhlutverki í sjónvarpsþáttaröðinni Mannasiðum á RÚV. Þá lék hún nokkur hlutverk á samningi í Borgarleikhúsinu í fyrra og á þessu leikári lék Ebba Katrín aðalhlutverkið, Uglu, í Atómstöðinni og burðarhlutverk í Þitt eigið leikrit II í Þjóðleikhúsinu.
Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur, en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Lotta hefur sérhæft sig í utandyra sýningum á sumrin og ferðast nú 14. sumarið í röð með glænýjan fjölskyldusöngleik.
Í sumar setur Leikhópurinn Lotta upp fjölskyldusöngleik byggðan á þjóðsögunum um Bakkabræður. Í meðförum Lottu má segja að Bakkabræður fái tækifæri til að segja okkur sögu sína á sínum forsendum og leiðrétta þær rangfærslur sem hafa ratað í þjóðsögurnar. Bakkabræður eru 13. frumsamdi söngleikurinn sem Leikhópurinn Lotta setur upp, að venju er fjörið í fyrirrúmi, mikið af gríni, glensi og skemmtilegum lögum þó undirtónninn sé alvarlegur og boðskapurinn fallegur.
Bakkabræður er sýning sem er hugsuð fyrir alla aldurshópa og eiga þar fullorðnir jafnt sem börn að geta skemmt sér saman. Þar sem sýningarnar eru utandyra er um að gera að klæða sig eftir veðri, pakka smá nesti og hella vatni í brúsa og halda svo á vit ævintýranna í Ævintýraskóginum. Að vanda sýnir Leikhópurinn Lotta um allt land í sumar og fylgir að sjálfsögðu fyrirmælum sóttvarnarlæknis. Vegna fjöldatakmarkana verður eingöngu hægt að tryggja sér miða fyrirfram tix.is eins og er.
Fyrstu sýningar sumarsins eru nú komnar í sölu! Við bætum reglulega við sýningum um allt land svo endilega fylgist með okkur á www.leikhopurinnlotta.is
Leikstjórn: Þórunn Lárusdóttir Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Huld Óskarsdóttir, Júlí Heiðar Halldórsson, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Viktoría Sigurðardóttir. Leikskáld: Anna Bergljót Thorarensen Höfundar tónlistar: Baldur Ragnarsson, Rósa Ásgeirsdóttir, Þórður Gunnar Þorvaldsson. Höfundar lagatexta: Anna Bergljót Thorarensen og Baldur Ragnarsson Hljóðhönnun og útsetningar: Þórður Gunnar Þorvaldsson Búningahönnun: Kristína R. Berman Danshöfundur: Viktoría Sigurðardóttir Leikmyndahönnun: Andrea Ösp Karlsdóttir og Sigsteinn Sigurbergsson Leikmunir: hópurinn
Listafólk gleðst yfir fréttum um að tveggja metra reglan verði ekki ófrávíkjanleg eftir tuttugasta og fimmta maí. Borgarleikhússtjóri sér fram á að geta haft leiksýningar í haust. Skipuleggjandi tónleika segir að ef reglan gilti áfram væri það dauðadómur yfir nánast öllum viðburðum.
Næstu tilslakanir á samkomubanni verða 25. maí. Eftir það verður hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman hækkaður í minnst hundrað manns og tveggja metra reglan verður ekki ófrávíkjanleg. Sóttvarnalæknir áréttaði þetta á fundi almannavarna í gær.
„Það er ljóst af umræðunni að okkur, og þá kannski mér, hefur mistekist að útskýra í hverju þessi regla felst og vil ég biðjast afsökunar á því,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í gær. „Almennt verður slakað á þessari reglu,“ segir Þórólfur. Aftur á móti sé mælst til þess að hver og einn viðhafi hana eftir fremsta megni sem hluta af einstaklingssmitvörnum.
Engu minna áfall fyrir menningargeirann en ferðaþjónustuna Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu, segir þetta skipta gríðarlega miklu máli. „Við vorum öll í panikki yfir því að tveggja metra reglan yrði hörð, ófrávíkjanlega regla út árið, sem er í raun og veru hálfgerður dauðadómur yfir öllu viðburðarhaldi,“ segir Ísleifur.
Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri tekur í sama streng. „Þetta var alveg blaut tuska framan í okkur þarna þegar það var sagt að tveggja metra reglan myndi gilda út árið hið minnsta, vegna þess að þetta er náttúrulega engu minna áfall fyrir menningargeirann en þetta er fyrir ferðaþjónustuna,“ segir Brynhildur.
Brynhildur fagnar því að reglan verði ekki ófrávíkjanleg. Hún sér þó ekki fram á að geta haft leiksýningar fyrr en í haust, þar sem reksturinn standi ekki undir sér ef áhorfendur eru innan við hundrað.
Ísleifur segir að Sena sé með fyrirhugaða viðburði í ágúst. „Það var búið að aflýsa öllu fram að því. Og svo verður nóg að gera út árið, við ætlum að gera Dívur, Iceland Airvaiwes, Jólagesti, og þetta náttúrulega bara bjargar jólavertíðinni.“
Óvíst hvernig fjölda- og fjarlægðartakmarkanir verða útfærðar á viðburðum Nákvæmlega hvernig þetta verður útfært liggur ekki fyrir. Brynhildur segir að stjórnendur menningarstofnana eigi fund með almannavörnum á morgun. „Þá bara vonum við að við fáum skýrari leiðbeiningar hvað varðar haustið, hvenær við komumst af stað með – vonandi – eðlilegum hætti.“
Ísleifur veltir fyrir sér hvort hægt væri að hafa afmarkaðan hluta í sal eða hluta af sætaframboði fyrir fólk sem kýs að halda tveggja metra fjarlægð. Hann hyggst bera þetta undir almannavarnir fyrir hönd tónleikahaldara. „Okkur langar bara að fá þetta á hreint. Við viljum hlýða Víði eins og aðrir,“ segir Ísleifur.
Undirbúningur undir stórsýninguna Rómeó og Júlíu í leikstjórn Þorleifs Arnar stendur yfir í Þjóðleikhúsinu
Ebba Katrín Finnsdóttir hefur verið ráðin í hlutverk Júlíu
Leit stendur nú yfir að þeim leikara sem mun hreppa hið eftirsótta hlutverk Rómeós
Leikarar á aldrinum 20-30 ára koma til greina
Prufur framundan, skráningarfrestur til og með 12. maí
Þjóðleikhúsið undirbýr nú viðamikla uppsetningu á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Sýningin verður frumsýnd í byrjun mars 2021. Nú er unnið að mönnun sýningarinnar en einvala hópur listrænna stjórnenda hefur verið ráðinn að verkefninu við hlið Þorleifs Arnar.
Þegar þessi vinsælasta og rómaðasta ástarsaga allra tíma fer á svið ríkir jafnan mest eftirvænting eftir því hverjir veljist í hin eftirsóttu hlutverk elskendanna, Rómeós og Júlíu. Nú liggur fyrir hvaða unga leikkona mun leika Júlíu. Það er Ebba Katrín Finnsdóttir sem mun fara með það ástsæla hlutverk. Hins vegar leitar leikhúsið, með Þorleif Örn leikstjóra í fararbroddi, nú að þeim eina rétta í hlutverk Rómeós. Nú er kallað eftir umsóknum frá leikurum á aldrinum 20-30 ára sem hafa áhuga á að komast í prufu fyrir hlutverkið. Nánari lýsingu á fyrirkomulagi prufanna er að finna hér að neðan.
Einvala hópur listrænna stjórnenda við hlið Þorleifs Þorleifur Örn Arnarsson hefur verið í hópi fremstu leikstjóra Íslendinga um árabil. Hann leikstýrði mörgum rómuðustu sýningum síðustu ára hér á landi, eins og Englum alheimsins og Njálu. Þá hefur hann notið mikillar velgengni í Evrópu og undanfarið verið einn stjórnenda hins virta leikhúss Volksbühne í Berlín. Nú í febrúar var tilkynnt um að Þorleifur gengi til liðs við Þjóðleikhúsið sem samningsbundinn leikstjóri og mun hann leikstýra einni sýningu árlega við húsið á næstu árum. Við hlið Þorleifs mun starfa einstaklega sterkur hópur listrænna stjórnenda. Ilmur Stefánsdóttir mun hanna leikmynd og Björn Bergsteinn Guðmundsson er ljósahönnuður. Þá hefur Kristján Ingimarsson verið ráðinn til sjá um kóreógrafíu í sýningunni en hann hefur vakið athygli hér á landi eins og víða um heim fyrir ævintýralegar sýningar og skemmst er að minnast BLAM sem sló í gegn hér fyrir nokkrum árum.
Ebba Katrín Finnsdóttir verður Júlía Ebba Katrín Finnsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli síðan hún útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands fyrir tveimur árum. Hún sýndi framúrskarandi leik í aðalhlutverki í sjónvarpsþáttaröðinni Mannasiðum á RÚV. Þá lék hún nokkur hlutverk á samningi í Borgarleikhúsinu í fyrra og á þessu leikári lék Ebba Katrín aðalhlutverkið, Uglu, í Atómstöðinni og burðarhlutverk í Þitt eigið leikrit II í Þjóðleikhúsinu.
Upplýsingar um prufur má finna á vefsíðu Þjóðleikhússins, leikhusid.is. Þær munu fara fram dagana 18. og 19. maí.
Leikprufur – leitin að Rómeó
Leikarar á aldrinum 20-30 ára sem hafa lokið námi í leiklist eða starfað við atvinnuleiklist koma til greina. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 7. maí.
Leikstjóri og listrænir stjórnendur velja ákveðinn hóp sem verður boðið að koma í prufur fyrir hlutverkið. Þar gefst þeim tækifæri til að leika tvær stuttar senur úr verkinu á móti Ebbu og öðrum leikurum undir leikstjórn Þorleifs á Stóra sviðinu. Prufurnar fara fram 18. maí
Framhaldsprufur verða boðaðar fyrir þrengri hóp í kjölfarið.
Þegar valið hefur farið fram verður einum leikara boðið hlutverk Rómeós. Ráðningarkjör eru venju samkvæmt í samræmi við gildandi kjarasamning FÍL við Þjóðleikhúsið.