Uncategorized | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Browsing "Uncategorized"

    Útlendingurinn snýr aftur

    maí 18, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leysir Friðgeir fimmtugt morðmál?

    Útlendingurinn – morðgáta fékk mikið lof leikhúsgesta og gagnrýnenda á síðasta leikári en hætta þurfti sýningum fyrr en áætlað var vegna samkomutakmarkana. Verkið snýr nú aftur en athugið að takmarkaður sýningarfjöldi er í boði svo tryggið ykkur miða fljótt.

    Árið 1970 fannst kvenmannslík í Ísdal rétt fyrir utan Bergen í Noregi. Konan var alls ekki búin til útivistar og í farangri hennar fundust meðal annars hárkollur og ýmis dulargervi. Við eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að hún hafði ferðast vítt og breytt um Evrópu á fölsuðum skilríkjum, en hvorki tókst að upplýsa hver hún var, hvaðan hún kom né hvað í ósköpunum hún var að gera í Bergen.

    Í gegnum tíðina hefur líkfundurinn vakið bæði forvitni og umtal í Noregi og um heim allan, en þrátt fyrir ótal kenningar hefur engum tekist að leiða til lykta hvað gerðist djúpt inni í Ísdal og hvað dró þessa útlensku konu til dauða. En það gæti breyst þegar annar útlendingur fer að grafast fyrir um málið.

    Þegar íslenskur sviðslistamaður, Friðgeir Einarsson, flytur til Bergen, lætur hann heillast af ráðgátunni og gerir sitt besta til að upplýsa hana. En kannski ekki á þann hátt sem búast hefði mátt við. Friðgeir er hvorki lögreglumaður, né með reynslu af rannsóknarstörfum, en telur sig hafa ákveðna innsýn inn í hugsunarhátt konunnar. Hann er jú aðkomumaður, rétt eins og hún var. Útlendingurinn er skandinavískt raunsæisglæpadrama þar sem mál „Ísdalskonunnar“ er nálgast á frumlegan hátt og nýjar kenningar dregnar fram í dagsljósið. Annað verkið frá sama listræna teymi og setti upp verðlaunasýninguna Club Romantica, en það var fyrsti hluti þessa ráðgátuþríleiks. Tónlist verksins er samin af Snorra Helgasyni og flutt á sviðinu af honum sjálfum.

    Tjarnarbíó býður fjölskyldum í leikhús

    maí 10, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Tjarnarbíó býður á sýninguna Áiii! Smá plástra-drama helgina 14.-15. maí

    Hvað gerum við þegar líkaminn meiðir sig? Hvernig lögum við hann? Heimurinn er stútfullur af hættum; tröppum, skærum, hákörlum og rafmagnsinnstungum og þá er mikilvægt að gæta að sér.

    Dans-leikverkið er 30 mínútur að lengd. Það inniber húmor, smá blóð og þónokkra plástra og er skapað fyrir 3-6 ára aldur. Verkið er heilandi ferðalag og kennir okkur hvernig við getum fengið plástra ef við lærum að segja frá sárunum okkar.

    Helgina 14. og 15. maí kemur sænski leikhópurinn Martin Mutter til okkar í heimsókn með sýninguna Áiii! Smá plástra-drama. Leikhópurinn nýtur mikilla vinsælda í heimalandi sínu og hefur ferðast vítt og breitt með fyndin og fræðandi barnaverk sín. Hópurinn lætur nú draum sinn rætast með ferðalagi til Íslands og af því tilefni vill Tjarnarbíó bjóða gestum frítt á þessa skemmtilegu barnasýningu. Sýningin er án orða og hentar því öllum óháð tungumáli. Í sýningunni nota leikararnir sviðshreyfingar, dans og trúðaleik til að kenna börnum að gæta sín á hættulegum hlutum en líka hvað líkaminn sé góður í að laga sig, sérstaklega þegar hann fær hjálp, eins og t.d. með plástrum.

    Gríptu tækifærið og komdu með börnin í leikhús, alveg ókeypis.

    ROOM 4.1 LIVE

    apr 29, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    ROOM 4.1 LIVE er ótrúleg leikhúsupplifun

    Vincent hefur fengið nóg af áreiti hversdagsins og lætur leggja sig inn á sjúkrahús í von um langþráðan frið. Friðurinn er þó víðs fjarri þar sem læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir sjúklingar, hver öðrum sérstakari, vaða inn og út úr sjúkrastofunni. Erillinn í lífi Vincents er meiri en nokkru sinni fyrr. Í sýningu Borgarleikhússins er áhorfendum boðið á tökustað þar sem verið er að taka upp þætti um Vincent og upptökunum er varpað á stóra skjái. Þar má sjá hvernig brögðum og brellum er beitt þegar sviðsmyndinni/ sjúkrastofunni, er snúið á alla kanta til að framkalla trylltar hugmyndir leikstjórans. Á sama tíma fara undarlegir hlutir að gerast á tökustað, hugmyndir fá vængi og fara á stjórnlaust flug.

    Áhorfendur dragast hægt og rólega inn í sjálfa atburðarásina. Við lofum ótrúlegri leikhúsupplifun — þetta hafið þið aldrei séð áður. ROOM 4.1 LIVE var tilnefnt til Reumert-verðlaunanna, sviðslistaverðlauna Danmerkur. Árið 2012 sýndi Borgarleikhúsið stjörnusýningu Kristjáns, BLAM!, við miklar vinsældir. BLAM! var heiðruð með Reumert-verðlaununum árið 2012 og Grímunni árið 2013.

    Ó María í Mosfellsbæ

    apr 29, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Kvöldskemmtun til heiðurs Maríu Guðmundsdóttur

    Ó María er kvöldskemmtun í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ til heiðurs Maríu Guðmundsdóttur þar sem lifandi tónlist, söngur, grín og gleði ráða för. Leiknir eru nokkrir af ógleymanlegu leikþáttum Maríu og skemmtileg kaffihúsastemming ríkir í salnum þar sem leikhúsgestir sitja til borðs á sviðinu. Þetta er frábær skemmtun í anda okkar yndislegu Maríu sem hentar öllum sem vilja hlæja, hlusta á ljúfa tóna og eiga góða kvöldstund.

    Frumsýning föstudaginn 29. apríl kl. 20 – UPPSELT
    2. sýning laugardaginn 30. apríl kl. 20
    3. sýning föstudaginn 6. maí kl. 20
    4. sýning laugardaginn 7. maí kl. 20
    5. sýning föstudaginn 13. maí kl. 20

    Miðaverð: 3500 krónur
    Miðasala í síma 566-7788

    Nei ráðherra á Sauðárkróki

    apr 21, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir Nei ráðherra 24. apríl

    Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir sunnudaginn 24. apríl klukkan 20:00 leikritið  Nei ráðherra eftir Ray Cooney í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikstjóri er Jóel Sæmundsson.  

    Alls koma 35 manns að sýningunni þar af eru 10 á sviði.  leikarahópurinn er blandaður af bæði reynsluboltum  og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á sviðinu.

    Nei ráðherra  er allt í senn sigildur, hraður, snúinn og fyndinn gamanleikur en samt fullur að misskilningi, framhjáhöldum, ást og hurðaskellum.

    Æfingatímabilið hefur gengið vel og það er ótrúlegt þakklæti að ekki séu ýmis boð og bönn í gildi eins og var þegar Covid var.

    Sýningar verðar 13 talsins og miðasala er hafin í  síma 8499434.

    Hvetjum alla til að byrja sumarið á því að mæta í leikhús og hlægja svolítið saman.

    Bót og betrun hjá Leikfélagi Hólmavíkur

    apr 14, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir Bót og betrun á páskadag

    Leikfélag Hólmavíkur setur upp farsann Bót og betrun eftir Michael Cooney, í leikstjórn Sigurðar Líndals. Frumsýnt verður á páskadag kl. 20:00 og eru allar sýningar í Sævangi.

    Verkið gerist í London og fjallar um Eric Swan, sem hefur verið duglegur að svíkja út bætur síðustu tvö árin. Hann ætlar sér þó að minnka svindlið, en þá vindur það upp á sig með sífellt skrautlegri afleiðingum. Inn í málið flækjast meðal annars leigjandinn hans, sambandsráðgjafi og útfararstjóri, ásamt ýmsum öðrum.

    Þeir tíu leikarar sem leika eru allt frá því að vera nýliðar á fjölunum, yfir í gamlar kempur innan leikfélagsins. Æfingar hófust í lok janúar og hafa gengið merkilega vel þrátt fyrir ótal plágur og flensur sem leggjast á landann þessi misserin!

    Eitt af helstu einkennum Leikfélags Hólmavíkur hafa verið leikferðir út um hvippinn og hvappinn. Því miður er ekki víst hvort hægt verði að komast í slíka í ár, og því við hvetjum alla til að mæta í Sævang og upplifa alvöru skemmtun á Ströndum!

    Hægt er að kaupa súpu á Sauðfjársetrinu fyrir sýningar
    Miða- og súpupantanir í síma: 693 3474 (Ester)
    ókeypis aðgangur fyrir þá sem ekki tala eða skilja mikla íslensku.

    Aðalfundur BÍL 2022

    apr 13, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Aðalfundar Bandalags íslenskra leikfélaga verður haldinn laugardaginn 30. apríl 2022

    Boðað er til aðalfundar Bandalags íslenskra leikfélaga laugardaginn 30. apríl 2022. Fundurinn verður haldinn á Park Inn hótelinu, Hafnargötu 57 í Reykjanesbæ. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Fundurinn hefst kl. 9.30.

    Félög sem hyggjast senda fulltrúa þurfa að fylla út kjörbréfsform á vefnum. Nauðsynlegt er að vera innskráð á aðgangi viðkomandi leikfélags.

    Þetta er fyrsti fundurinn síðan árið 2019 sem ekki verður markaður af samkomutakmörkunum. Það er sannarlega kominn tími til að treysta félagsböndin og stilla saman strengi nú þegar við virðumst loks komin úr kófgöngunum út í ljósið. Í tilefni þess hefst þingið á óformlegri málstofu föstudagskvöldið 29. apríl undir yfirskriftinni Áhugaleiklistin eftir Covid. Í ráði er að ræða almennt stöðu áhugaleiklistarinnar, almenn og sértæk vandamál sem að félögunum steðja og velt upp möguleikum og lausnum. Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar 14. maí og nú er tíminn til að ræða og ýta við fulltrúum í sveitarstjórnum vegna hagsmuna félaganna.

    Í boði eru eftirfarandi pakkar fyrir BÍL-þingið:

    Pakki 1: 39.750 kr.
    Gisting á Park Inn í 2 nætur (m.v. gistingu í 2ja manna herbergi) + morgunverður
    Fundarveitingar, kaffi og hádegisverður meðan á fundi stendur á laugardag
    Hátíðarkvöldverður laugardag

    Pakki 2: 28.500 kr.
    Gisting á Park Inn í 1 nótt (m.v. gistingu í 2ja manna herbergi) + morgunverður
    Fundarveitingar, kaffi og hádegisverður meðan á fundi stendur á laugardag
    Hátíðarkvöldverður laugardag

    Pakki 3: 14.000 kr.
    Fundarveitingar, kaffi og hádegisverður meðan á fundi stendur
    Hátíðarkvöldverður laugardag

    Pakki 4: 8.500 kr.
    Fundarveitingar, kaffi og hádegisverður meðan á fundi stendur

    Vonir standa til að hægt verði að bjóða fundargestum á Rokksafnið meðan á þinginu stendur.

    Sendið póst á info@leiklist.is til að bóka pakka fyrir hádegi 20. apríl.

    Fyrrverandi

    apr 8, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Fyrrverandi er frumsýnt 9. apríl í Borgarleikhúsinu

    „Þetta hjónaband stefndi bara í áttina að lestarslysi. Svo ég ákvað að stökkva út.“

    Vinir hittast til að kryfja málin í „symposium“; samræðum með víni, þar sem allt er undir; samböndin, samlífið, draumarnir, áföllin, sjálfshjálparnámskeiðin, samskiptin við tengdó og stjúpbörnin og síðast en ekki síst fyrrverandi! Hversu oft hugsarðu um fyrrverandi? Er eðlilegt að stjúpsystkini klóri augun úr hvoru öðru? Hvað eru eiginlega margir í þessu hjónabandi? Er hundurinn ekki óeðlilega ástleitinn? Hver var að tala um opið samband?

    Þúsundþjalasmiðurinn Valur Freyr Einarsson leikstýrir hér eigin verki með aðra meðlimi CommonNonsense sér við hlið en hópurinn, með Ilmi Stefánsdóttur myndlistarkonu og leikmyndahöfundi og tónlistarmanninum Davíð Þór Jónsson innanborðs, á að baki dásamlegar sýningar á borð við Söngleikinn Leg og Tengdó.

    Útkoman er myljandi fyndið og hjartnæmt verk sem speglar flókið fjölskyldulíf og sambönd nútímans þannig að við finnum samhljóm við okkar eigin grátbroslegu tilveru.

    Sjö ævintýri um skömm, frumsýnt á Stóra sviðinu

    mar 28, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Nýtt leikrit eftir Tyrfing Tyrfingsson,  Sjö ævintýri um skömm

    Kópavogsbúinn Tyrfingur Tyrfingsson hefur slegið í gegn hér heima og vakið mikla athygli erlendis fyrir leikrit sín. Þetta er fyrsta verkið sem Þjóðleikhúsið sýnir eftir Tyrfing og jafnframt hans fyrsta leikrit á stóru sviði. 

    Kanamellur, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, drykkfelldur geðlæknir og fleiri kostulegir karakterar koma við sögu í þessu ósvífna en farsakennda ævintýri, sem byggt er á sönnum atburðum.  

    Föstudaginn 1. apríl frumsýnir Þjóðleikhúsið á Stóra sviðinu Sjö ævintýri um skömm eftir Tyrfing Tyrfingsson. Þetta er fyrsta leikrit sem Tyrfingur skrifar fyrir Þjóðleikhúsið en hann hefur slegið í gegn hér heima og vakið mikla athygli erlendis. Þetta nýja leikrit Tyrfings er sjöunda verk hans sem  er sviðsett í íslensku leikhúsi. Frábær leikarahópur undir stjórn Stefáns Jónssonar leikstjóra segir söguna af makalausu ferðalagi skammarinnar á milli kynslóða þar sem kanamellur, lögreglan og hundurinn Lúkas koma meðal annars við sögu. 

    Agla ryðst inn á stofu geðlæknis og krefst þess að hann skrifi upp á lyf sem nái að svæfa hana í þrjá sólarhringa. Geðlæknirinn vill ekki verða við þessari ósk Öglu en  segir henni hinsvegar frá kenningu sinni um að sjö ævintýri um skömm liggi að baki allri geðveiki. Agla neyðist til að rekja sig í gegnum þessi ævintýri sem stjórna lífi hennar ef hún vill eiga einhvern möguleika á bata. 

    Sjö ævintýri um skömm eru farsakennd ævintýri, byggð á sönnum atburðum, þar sem við fylgjum eftir ferðalagi skammarinnar í íslenskri fjölskyldu frá kanamellum í Flórída að Lúkasarmálinu á Akureyri og skoðum allt þar á milli.  Kópavogsbúinn og ólíkindatólið Tyrfingur Tyrfingsson hefur slegið í gegn hér heima og vakið mikla athygli erlendis. Þetta nýja leikrit Tyrfings er sjöunda verk hans sem er sviðsett í íslensku leikhúsi, en hið fyrsta sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu. 

    „Það sem heillar mig einna mest við leikhúsið er líkamlegur háski. Leikritið lýtur nefnilega alveg sömu lögmálum og sirkus. Það þarf fílinn sem þrammar inn á hringsviðið – hið stórfenglega dýr sem búið er að temja. Svo þarf arabísku stóðhestana af því að þarna verður líka að vera fegurð, þokki. Síðan trúðinn til að halda uppi fjörinu. En loks þurfum við, og það er mikilvægast af öllu, sjálfan línudansarann. Það er í rauninni hægt að sleppa öllu hinu en það er aldrei hægt að sleppa línudansaranum. Það verður einhver að færa fórn. Án háska er leiksýningin dauðadæmd. Hrapar hann eða ekki? Það skapar þessa frumstæðu spennu – þess vegna kom gesturinn í leikhúsið.“ 

    Leikarahópurinn er glæsilegur:
    Ilmur Kristjánsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Eggert Þorleifsson, Kristbjörg Kjeld, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir og Vincent Kári van der Valk. Stefán Jónsson leikstýrir.

    Ást og upplýsingar

    mar 27, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikritið Ást og upplýsingar hefur þegar verið sett á svið í fjölda uppsetninga, í 22 löndum.

    Skemmtilegt og afhjúpandi samtímaverk sem varpar nýju ljósi á kunnuglegar aðstæður, samskipti fólks og fáránleika mannlegrar tilveru.

    Í fyrsta sinn setur Þjóðleikhúsið upp leikrit eftir Caryl Churchill, eitt virtasta leikskáld Bretlands. Churchill (f. 1938) er í hópi framsæknustu leikskálda samtímans, og er hún ekki síst þekkt fyrir afar áhugaverðar tilraunir með form og innihald. Churchill hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, sem gjarnan fjalla um áleitin viðfangsefni úr samtímanum, femínísk málefni, kynjapólitík, vald og misbeitingu þess. Verk hennar hafa verið sett upp í helstu leikhúsum Bretlands og víða um heim.

    Í verkinu Ást og upplýsingar, sem hlaut mikið lof þegar það var frumflutt í Royal Court leikhúsinu í London árið 2012, kryfur Caryl Churchill samtíma okkar af óvægni. Hún skoðar með skemmtilegum og frumlegum hætti hina djúpstæðu löngun okkar til að upplifa nánd og vera elskuð, í heimi sem oft og tíðum virðist einmitt koma í veg fyrir einingu. Brugðið er upp skörpum skyndimyndum af mannlífinu, í hjartnæmu, tragísku og fyndnu verki.

    Leikritið Ást og upplýsingar hefur þegar verið sett á svið í fjölda uppsetninga, í 22 löndum.

    Una Þorleifsdóttir hefur tvívegis hlotið Grímuverðlaunin sem leikstjóri ársins. Auður Ava Ólafsdóttir þýðir og hinn virti austurríski leikmyndahönnuður Daniel Angermayr vinnur í fyrsta sinn hérlendis.

    Síður:«1...18192021222324...95»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!