Jólaboðið hefur heillað áhorfendur Þjóðleikhússins á aðventunni á fyrri leikárum. Nú býðst okkur enn á ný að fylgjast með sögu íslenskrar fjölskyldu með því að gægjast inn í stofu á aðfangadagskvöld, reglulega, á einnar aldar tímabili.
Við fylgjumst með fjölskyldunni koma saman á jólunum, á ólíkum tímum, og upplifum með henni umrót heillar aldar; seinni heimsstyrjöldina, breytingar í sjávarútvegi, hippatímabilið, tæknivæðingu þjóðfélagsins og um leið vandræði fjölskyldunnar við að laga sig að breyttum háttum og innbyrðis venjum. Fjölskyldan reynir að halda í hefðirnar en hin óhjákvæmilega framrás tímans setur hlutina úr skorðum og vekur sífellt nýjar spurningar og ný átök.
Sprellfjörug og frumleg en um leið hjartnæm sýning þar sem leikararnir leika ólíkar persónur á ýmsum aldursskeiðum – og leikhópurinn breytist ár frá ári.
Sýningin Þetta er Laddi er ævisöguleikrit á borð við Elly og Níulíf og í sýningunni fáum við að sjá Ladda hitta á sviðinu persónur á borð við Eirík Fjalar, Elsu Lund, Dengsa og Skrám. Laddi og helstu gamanleikarar Borgarleikhússins leika í sýningunni auk þess sem hljómsveit undir stjórn Jóns Ólafssonar mun spila í sýningunni.
Hver er Laddi? Og hvaðan kemur húmorinn sem hefur verið samofinn húmor heillar þjóðar í bráðum hálfa öld? Í þessari sýningu verður skyggnst inn í kollinn á Ladda, uppruni gamalkunnra persóna kannaður, þróun íslensks gríns sett undir smásjá og lyklar að manninum sjálfum á bak við grínið dregnir fram – en fyrst og fremst verður hlegið – og þakkað fyrir alla gleðina. Óborganleg sýning um óborganlegan mann sem fyrir löngu er orðinn þjóðargersemi og almannaeign.
Leikstjórinn og handritshöfundurinn Ólafur Egill hefur löngum sótt í íslenskan veruleika og sett upp hverja verðlaunasýninguna á fætur annarri þar sem hann kryfur samtímann og segir sögur þjóðarinnar. Nægir þar að nefna Níu líf og Ástu sem hann skrifaði og leikstýrði, og Elly sem hann skrifaði ásamt Gísla Erni Garðarssyni. Hér fær hann leikkonuna og handritshöfundinn Völu Kristínu Eiríksdóttur til liðs við sig í handritsskrifin og býður svo Þórhall Sigurðsson, sjálfan Ladda, velkominn í sófann ásamt fremstu gamanleikurum Borgarleikhússins.
Leikfélag Vestmannaeyja sýnir nú hina sívinsælu og klassísku barna- og fjölskyldusýningu um dýrin í Hálsaskógi. Verkið fjallar um það einfalda hugtak að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir og að ekkert dýr má borða annað dýr. Ekki eru þó allir sammála þessari speki og þarf Lilli Klifurmús og önnur skógardýr að hafa sig öll við ef þeim á að nást að sannfæra Mikka ref um að taka þátt í þessu með þeim.
Margir muna eflaust eftir plötunni með þeim Árna Tryggvasyni og Bessa Bjarnasyni í aðalhlutverkum. en aftan á henni stendur:
Marteinn er minnsta dýrið í Hálsaskógi, en þó hann sé lítill þá er hann bæði hygginn og gætinn. Hann safnar hnetum og könglum og hugsar fyrir morgundeginum. En bezti vinur Marteins, Lilli klifurmús er allt öðruvísi. Hann lifir fyrir líðandi stund, semur lög og syngur og spilar á gítarinn sinn: „Er hnetum aðrir safna í holur sínar inn, — ég labba út um hagann og leik á gítarinn — dúddilían dæ“, syngur Lilli klifurmús um sjálfan sig. Í Hálsaskógi eiga Bangsapabbi og Bangsamamma líka heima og einnig Bangsi litli. Þar má einnig finna Hérastubb bakara og Bakaradrenginn. Og einnig Ömmu skógarmús, sem er amma Marteins, og þar á Patti broddgöltur líka heima og mörg fleiri dýr.
Leikfélag Keflavíkur frumsýndi á föstudaginn farsann Allir á svið, í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikstjóri sýningarinnar er Rúnar Guðbrandsson sem hefur áratuga reynslu í leiklist.
Farsinn Allir á svið er oft kallaður Drottning farsana enda er hér um að ræða sprenghlægilegt verk sem hefur slegið í gegn hvar sem það hefur verið sett upp. Sýningin fjallar um leikhóp sem er að setja upp leiksýningu sem heitir Nakin á svið. Fyrir hlé fá áhorfendur að fylgjast með generalprufu sýningarinnar, síðustu æfingu fyrir frumsýningu. Við fylgjum leikhópnum svo í sýningarferð um allt landið og fylgjumst með sýningum á Akureyri og Vík í Mýrdal. Áhorfendur fá annað sjónarhorn eftir hlé og fylgjast þá með því sem gerist baksviðs meðan á sýningunni stendur. Skemmtileg tilbreyting fyrir áhorfendur að fá smjörþefinn af því hvernig leikhúslífið virkar á bakvið tjöldin. Farsinn Allir á svið er bráðskemmtilegur farsi þar sem allt fer úrskeiðis, bæði á sviðinu og utan þess.
Leikarar sýningarinnar eru sumir að stíga sín fyrstu skref með Leikfélagi Keflavíkur en það eru einnig vanir leikarar á sviðinu og jafnvel einhverjir að koma til baka eftir margra ára fjarveru. Það sem er stórmerkilegt við þessa uppfærslu leikfélagsins er að í fyrsta skipti eru tveir leikarar að deila með sér einu hlutverki. Þetta er jafnframt ein stærsta og flottasta en jafnframt flóknasta leikmynd sem Leikfélag Keflavíkur hefur smíðað fyrir leiksýningu en þið þurfið bara að mæta ef þið viljið sjá hana.
Styðjum við menningu á Suðurnesjum og mætum í Frumleikhúsið.
Leikfélag Selfoss hefur nú heldur betur slegið í klárinn eftir að hafa látið lítið fyrir sér fara síðustu tvö ár vegna framkvæmda við leikhúsið. Haustsýning leikfélagsins er leikritið Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Jónheiðar Ísleifsdóttur. Æfingar hófust um miðjan september og hafa gengið vel, mikil gleði er í leikhópnum og stjórn leikfélagsins bíður spennt eftir að sýna afraksturinn en frumsýning er áætluð föstudaginn 25. október.
Verkið fjallar um vinina Dúu, Duddu og Didda og er þeim fylgt gegnum lífið nánast frá vöggu til grafar með öllu því sem líf þeirra hefur upp á að bjóða í blíðu og stríðu. Fimm leikarar eru í uppsetningunni og spanna breitt aldursbil, koma úr ýmsum áttum og eru sumir að stíga sín fyrstu skref meðan aðrir hafa mikla reynslu með leikfélaginu.
Leikfélag Selfoss mun með gleði bjóða áhorfendum aftur í Litla leikhúsið við Sigtún eftir nokkra bið í lok október að sjá þessa stórskemmtilegu sýningu. Nóg verður svo um að vera í vetur því framundan er önnur sýning eftir áramót auk ýmissa minni viðburða. Hægt er að fylgjast með æfingaferlinu og öðrum viðburðum leikfélagsins á facebooksíðu félagsins og á instagramsíðu félagsins.
Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur í dag, þriðjudag 15. okt. Höfundur tónlistar er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Leikstjóri er Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir. Æft hefur verið síðastliðnar sex vikur og hefur æfingatímabilið gengið mjög vel. 9 leikarar leika í sýningunni en um 40 manns eru í leikhópnum sem koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Sýnt er í Bifröst á Sauðárkróki sem hér segir: Frumsýning þriðjudag 15. október kl. 18:00 2. Sýning miðvikudag 16. október kl. 18:00 3. Sýning föstudaginn 18. Október kl. 18:00 4. Sýning laugardaginn 19 október kl. 14:00 5. Sýning sunnudaginn 20. Október kl. 14:00 6. Sýning þriðjudaginn 22. Október kl. 18:00 7. Sýning miðvikudaginn 23. Október kl.18:00
Um er að ræða afmælissýningu þar sem Leikfélag Sauðárkróks setti Ávaxtakörfuna upp í október 2004. Í uppfærslunni 2004 lék Silla leikstjóri eplið.
Sviðslistakórinn Viðlag býður þér í giftingu ársins! Þeir Bjartmar og Arnar ætla loksins að setja upp hringa og þér er boðið ásamt fjölskrúðugri fjölskyldu og litríkrum vinum. Við erum hér fjallar um ástina, gáskan og vandræðalegu augnablikin sem einkenna íslenskar giftingar þar sem fjölskylduböndin eru flókin, vinirnir eru með bein í nefinu og annar brúðguminn er Bridezilla.
,,Til hvers að gifta sig þegar það er enginn til að festa það á filmu?”
Viðlag hefur í gegnum árin getið sér gott orð sem glæsileg viðbót við kór- og sviðslistamenningu á Íslandi. Þau hafa sett á svið nýja söngleiki og kórtónleika og byggja á hinni amerísku Glee klúbba hefð; þar sem söngur, leikur og dans eru í fyrirrúmi til að segja fallegar og fjölbreyttar sögur.
Kórstjóri:Axel Ingi Árnason Leikstjóri:Agnes Wild Höfundar:Agnes Wild, Bjarni Snæbjörnsson, Inga Auðbjörg Straumland, Karl Pálsson og Steinunn Björg Ólafsdóttir.
Það er með mikilli gleði sem Tjarnarbíó kynnir til leiks okkar eina og sanna Lalla töframann með glænýja barnasýningu.
,,Nýjustu töfrar & vísindi” er stórskemmtileg og fræðandi sýning þar sem Lalli töframaður skoðar hvort það sé einhver raunverulegur munur á töfrum og vísindum.
Sýningar Lalla í Tjarnarbíói hafa heldur betur slegið í gegn síðustu ár hjá barnafjölskyldum og hlotið frábæra dóma gagnrýnenda en það má með sanni segja að núna sé Lalli að toppa sig með hreint framúrskarandi skemmtilegri sýningu fyrir börn og fullorðna!
Sýningin er full af skemmtilegum töfrum í bland við vísindatilraunir, grín, gleði og hamingju.
Í þessari einföldu en mögnuðu nýsirkussýningu er tekist á við hversdagslega hnúta í samskiptum og samböndum, ófyrirsjáanleika lífsins, ástina, sívaxandi þreytu og tímann sem flæðir hjá í endurtekinni glímu við þyngdaraflið.
Húmor, hreinskilni, sirkuslistir og sviti blandast hér í sýningu sem snertir á sammannlegri reynslu og upplifunum.
Sænska sirkuslistafólkið Henrik og Louise eru ekki aðeins partner-akróbatar, en eru auk þess lífsförunautar, með öllu sem því fylgir; hversdegi, börnum, áhyggjum, ánægju. Þau hafa skapað þessa sýningu sem talað getur til fólks á ýmsum skeiðum lífsins. Henrik er einn af stofnendum Cirkus Cirkör, og þau komu síðast fram á Íslandi í sýningu Cirkör, Wear it like a Crown, sem sýnd var á stóra sviði Borgarleikhússins á sirkushátíðinni Volcano 2013.
Nemorino trúir ekki því sem hann les í bókum. Hann trúir hinsvegar því sem honum er sagt að standi í bókum. Hann kann nefnilega ekki að lesa. Adina er vön að fá athygli frá karlmönnum. Hvað gerir hún þegar einhver hættir að sýna henni athygli? Belcore vantar konu. Belcore vantar alltaf konu. Það væri fullkomin fjöður í hattinn fyrir svona flottan offisér. Dulcamara er búinn að flytja sömu söluræðuna mörghundruð sinnum. Hann veit alveg að „töfralyfin“ hans virka ekki. En hvað ef þau gera það?
Sviðslistahópurinn Óður Sviðslistahópurinn Óður neitar að geyma óperur í glerkössum. Þau vilja miklu frekar taka þær upp, hrista af þeim rykið og leika sér að þeim, pota í óskrifaðar reglur og skemmta sér og öðrum. Þau trúa á nálægð við áhorfendur og einlæga túlkun á tungumáli sem áhorfendur skilja.