Allir deyja – þar á meðal Sæunn. Sæunn sem nennir ekki að prjóna. Sæunn sem sér eftir því að skapa ekki fleiri minningar. Sæunn sem rígheldur í þær minningar sem þó fékkst tími til að skapa. Sæunn sem veit ekki hver fær að eiga persneska teppið sem þau hjónin keyptu ’97. Sæunn sem spyr sig hvenær sonurinn kíkir við. Síðustu dagar Sæunnar er ljúfsárt leikrit um nánd og fjarlægð, dauðann, maukaðan mat og leitina að sátt.
Nýtt verk eftir Matthías Tryggva Haraldsson, annað af fráfarandi leikskáldum Borgarleikhússins.
,,Við kakkalakkar erum hinir raunverulegu guðir. Við munum erfa jörðina.“ (Úr kakkalakkar eftir Eygló Jónsdóttur)
Leikritið er skrifað undir áhrifum tilvistarstefnunar. Persónur eru staddar í distópískum veruleika þar sem stríð og eyðilegging á sér stað fyrir utan gluggann og sprengjan ógnar lífinu. Þær reyna að átta sig á því hverjar þær eru, hvert hlutverk þeirra er og hvernig þetta muni allt enda.
Leikarar eru Eyrún Ósk Jónsdóttir, Gunnar Jónsson og Óskar Harðarson.Klipping og tónlist var í höndum Óskars Harðarsonar. Þetta er fimmta leikritið í röð hlaðvarpsleikrita sem Listahópurinn Kvistur sendir frá sér, en hópurinn hóf að gera hlaðvarpsleikrit á sínum tíma í samkomubanni vegna heimsfaraldurs.
Verkið var styrkt af menningarnefnd Hafnarfjarðarbæjar.
Leikfélag Fjallabyggðar æfir nú nýtt leikrit eftir Guðmund Ólafsson, sem jafnframt er leikstjóri. Verkið heitir BIRGITTA KVEÐUR og er sagt vera ”sakamálaleikrit með gamansömu ívafi”. Æfingar hófust tólfta september og frumsýning verður 28. október. Leikritið gerist á einu föstudagssíðdegi og kvöldi í litlu innflutningsfyrirtæki, sem hefur sérhæft sig í innflutningi frá Kína. En þetta er ekki venjulegur dagur því um kvöldið á að kveðja elsta starfsmanninn, hana Birgittu, sem er að láta af störfum vegna aldurs. Er að því tilefni slegið upp kveðjuveislu. Er óhætt að segja að kvöldið verði viðburðarríkt og óvæntir atburðir gerist þannig að kalla þarf til lögreglu.
Þrettán
leikarar taka þátt í sýningunni auk baksviðsfólks af öllu tagi. Ljósameistari
er Anton Konráðsson.
Þetta er fimmta leikritið sem Guðmundur skrifar sérstaklega fyrir leikfélagið
og hefur hann jafnfram leikstýrt þeim öllum. Eitt þeirra, ”Stöngin inn!”, var
valin áhugaverðasta áhugaleiksýningin árið 2013 og sýnd í Þjóðleikhúsinu.
Frumsýning er sem áður segir
28. október í Menningarhúsi Fjallabyggðar, Tjarnarborg.
Leikfélag Keflavíkur sýnir ævintýrið um Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren.
Leikritið fjallar um Ronju ræningjadóttur og ævintýri hennar með vini sínum Birki Borkasyni. Ronja hittir ýmsar verur í Matthíasarskógi m.a. grádverga, huldufólk og að sjálfsögðu litla krúttlega rassálfa.
Lifandi tónlist, söngur og dans einkenna sýninguna og við hvetjum alla til að gera sér góðan dag með fjölskyldunni og mæta á Ronju ræningjadóttur í Frumleikhúsinu.
Leikstjóri: Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm Danshöfundur og aðstoðarleikstjóri: Guðríður Jóhannsdóttir Tónlistarstjóri: Sigurður Smári Hansson Leiksýningin er sýnd í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17
Gunni og Felix bjóða öllum börnum og fylgdarfólki á
dásamlega jólastund í Gaflaraleikhúsinu alla sunnudaga á aðventunni.
Gunni er ákveðinn í því að gefa Felix bestu jólagjöf í heimi
þar sem honum finnst gjafir Felix hafa verið betri í gegnum tíðina. Gjöfin góða
er á leiðinni og Felix, já og Gunni líka eru að farast úr spenningi.
Hinsvegar … er klukkan alveg að verða sex á aðfangadag og
þeir félagar enn í náttfötunum og það er alveg að fara með Felix.
Söngur, gleði,
kósíheit, jólasiðir, grín og spenna í anda Gunna og Felix.
Ps. Svo er fullkomið að heimsækja Jólaþorpið fyrir eða
eftir sýningu.
Merk
og afar fátíð tímamót þegar verk er sýnt í 100.sinn á Stóra sviðinu
Verk
sem hefur haft mótandi áhrif á samfélagsumræðu um Geðheilbrigðismál
Allur
ágóði af sölu vínilplötu með tónlist úr sýningunni verður afhentur Geðhjálp við
þetta tækifæri
Einungis
eitt eintak er eftir af plötunni og verður það selt á uppboði innan skamms
Vertu
úlfur sópaði til sín Grímuverðlaunum og var meðal annars valin sýning ársins
2021
Þeim merku tímamótum
verður náð í kvöld að sýningin Vertu úlfur verður sýnd í 100. sinn á Stóra
sviði Þjóðleikhússins. Við það tækifæri munu aðstandendur sýningarinnar afhenda
Geðhjálp allan ágóða af sölu vínylplötu sem var gefin út í tengslum við
sýninguna. Einungis voru framleidd 39 eintök af plötunni en hún var seld í
framhaldi vitundarvakningar Geðhjálpar og Píeta samtakanna sem bar heitið 39.
Átakið vísaði í meðaltalsfjölda þeirra karlmanna á Íslandi sem taka sitt eigið
líf árlega. Á plötunni eru tvö lög úr sýningunni: Titillag eftir Emilíönu
Torrini og Markétu Irglova og lagið Kötturinn vill inn, sem Svavar Pétur
Eysteinsson (Prins Póló) samdi við sama texta.
Sýningin Vertu úlfur
hefur hreyft rækilega við áhorfendum og nú verið sýnd fyrir fullu húsi tvö
leikár í röð. Afar fátítt er að sýningin sé sýnd yfir 100. sinnum á
Stóra sviðinu og aldrei hefur það gerst áður að sýning af því tagi sem Vertu
úlfur er, sé sýnd svo oft. Sýningin hlaut sjö Grímuverðlaun:
Sýning ársins, leikrit ársins, leikstjóri ársins, leikari ársins í
aðalhlutverki, leikmynd ársins, lýsing ársins og hljóðmynd ársins. Titillag
sýningarinnar hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin í opnum flokki. Fyrir
ári var haldið málþing um sýninguna og málaflokkinn, sýningin er nú lesin í
fjölda framhaldsskóla og í efstu bekkjum grunnskóla og óhætt er að segja að
sýningin hafi vakið rækilega athygli á þessum málaflokki.
Unnur Ösp
Stefánsdóttir skrifaði leikgerðina upp úr samnefndri bók Héðins Unnsteinssonar
og leikstýrir, en Björn Thors fer með eina hlutverk verksins.
Vertu úlfur hrífur
okkur með í brjálæðislegt ferðalag um hættulega staði hugans inn í veröld
stjórnleysis og örvæntingar og aftur til baka. Við fáum innsýn í baráttu manns
sem tekst að brjótast út úr vítahringnum og nær að snúa sinni skelfilegustu
reynslu upp í þann styrk sem þarf til að breyta öllu kerfinu.
Héðinn Unnsteinsson hefur
látið til sín taka á sviði geðheilbrigðismála í tvo áratugi, meðal annars sem
sérfræðingur á vegum stjórnvalda og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
Bók hans, Vertu úlfur, vakti verðskuldaða athygli og var tilnefnd til Íslensku
bókmenntaverðlaunanna.
Í lok september frumsýndi Kómedíuleihúsið nýtt íslenskt barna- og fjölskylduleikverk, Tindátarnir. Leikurinn er byggður á samnefndri ljóðabók eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr með myndum eftir Nínu Tryggvadóttur. Kómedíuleikhúsið hefur allt frá upphafi haft að leiðarljósi að vinna með eigin sagnaarf að vestan. Steinn Steinarr hefur þar verið vinsæll til leikja og er þetta fjórði leikurinn sem unnin er uppúr hans magnaða sagnaarfi.
Strax að lokinni frumsýningu lagði Kómedíuleikhúsið í leikferð og er stefnan tekin á að fara hringinn. Þegar hafa Tindátarnir verið sýndir á Þingeyri, Flateyri, Patreksfirði og Bolungarvík. Nú skal marsera í norður og í þessari viku verða sýningar m.a. á Hvammstanga og Skagaströnd. Þegar líða tekur á næstu viku verða Tindátarnir mættir austur og verður sýning á Egilsstöðum laugardaginn 22. október. Miðasla á þá sýningu er hafin á tix.is Áfram verður svo marserað um austurland og svo loks til borgarinnar.
Langflestar sýningar á Tindátunum verða í skólum og er það vel því þá hafa allir jafnan aðgang að leikhúsinu. Einnig verða sýningar fyrir íbúa á dvalarheimilum m.a. í Mosfellsbæ. Loks má geta þess að Tindátarnir verða á fjölunum í Gaflaraleikhúsinu laugardagana 12. og 19. nóvember. Miðasala fer fram á tix.is og í leikhúsinu sjálfu.
Tindátarnir er barna- og fjölskyldu leikverk með mikilvægt erindi. Umfjöllunarefnið er sannlega eldfimt, nefnilega stríð með öllum sínum hörmungum og leiðu afleiðingum. Að viðbættum beittum einræðistilburðum sem sérlega auðvelt er að missa tökin á einsog verður reyndar reyndin. Leikurinn er settur upp sem skuggabrúðuleikhús sem er um margt lítt notað leikhúsform hér á landi. Leikstjóri er Þór Túlinius, leikari er Elfar Logi Hannesson og brúðumeistari er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Eru þau einnig höfundar leiksins. Soffía Björg Óðinsdóttir semur tónlist og hljóðmynd, Þ. Sunnefa Elfarsdóttir annast búningahönnun, Kristján Gunnarsson leikmyndahönnun og ljósameistari er Sigurvald Ívar Helgason.
Fullkomið íslenskt sumarkvöld, fullkominn bústaður, fullkomið oumph á grillinu og öll nóttin er framundan…
Á dásamlegu sumarkvöldi uppi í bústað, yfir glóðheitu grillinu, kynnir Björk nýja kærastann fyrir Ragnhildi stóru systur og manninum hennar. Þær systurnar ólust upp á brotnu heimili en hafa farið ólíkar leiðir í lífinu. Ragnhildur stefnir óðfluga inn á þing og er gift fyrrverandi fótboltakappanum Magnúsi sem nú gerir það gott í fjárfestingum. Björk er alveg við það að meika það í músíkinni og er nýbúin að kynnast Óskari, sem er bara lowkey fínn gaur. Þetta verður örugglega alveg yndisleg og afslöppuð bústaðarferð.
Nýtt og beinskeytt verk eftir ungt leikskáld
Ungt íslenskt leikskáld sendir frá sér magnað verk, beint úr íslenskum raunveruleika. Grátbroslegt og spennandi leikrit um fagfjárfesta og fótboltamenn, stuðningsfulltrúa, stjórnmálakonur og fleira gott fólk sem við þekkjum öll – eða ekki.
Þetta glænýja, kraftmikla verk er í senn vægðarlaus samtímaspegill og bráðfyndin en ógnvekjandi svipmynd af þeim sem eiga og þeim sem vilja, þeim sem sýnast og þeim sem eru. Þetta erum við – og þau.
Adolf Smári Unnarsson hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem rithöfundur, leikskáld og leikstjóri, en hann hlaut meðal annars þrjár Grímutilnefningar árið 2021 fyrir Ekkert er sorglegra en manneskjan.
Ólafur Egill Egilsson er í fremstu röð íslenskra leikhúslistamanna og er nú fastráðinn leikstjóri við Þjóðleikhúsið. Meðal fjölda sýninga sem hann hefur komið að eru Ásta, Karitas, Ör, Níu líf og Ellý.
Leikfélag Sauðárkróks þurfti að bregða út af vananum þetta haustið og flytja uppsetningu haustsverkefnisins fram í Miðgarð þar sem Bifröst er ekki í standi til sýningarhalds. Framkvæmdir í húsinu hafa tafist en þar er verið að koma fyrir lyftu fyrir hreyfihamlaða.
Að þessu sinni setur félagið upp Skilaboðaskjóðuna sem er ævintýrasöngleikur byggður á samnefndri bók Þorvaldar Þorsteinssonar sem kom út árið 1986 og naut mikilla vinsælda. Söngleikurinn var frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhússins í nóvember árið 1993 í leikstjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur og sló í gegn. Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarstjóri Þjóðleikhússins, samdi tónlist fyrir verkið við texta Þorvaldar og vorið 1994 kom út geisladiskur með tónlistinni í flutningi leikara og hljómsveitar leikhússins. Leikritið var aftur sett á svið Þjóðleikhússins í nóvember 2007 í leikstjórn Gunnars Helgasonar.
Sagan snýst um Putta litla sem týnist í ævintýraskóginum og að sjálfsögðu þarf að bjarga honum frá nátttröllinu. Það er þetta típýska ævintýraþema að allir þurfa að standa saman, líka stjúpan og nornin, til þess að Putti finnist. Með hlutverk Putta fer hinn ellefu ára gamli Björgvin Skúli Hauksson. Þetta er sýning fyrir alla frá tveggja ára og upp úr, mjög skemmtileg sýning fyrir fullorðna, margir fullorðnisbrandarar.
Vert er að vekja athygli á því að þar sem Miðgarður er talsvert stærri en Bifröst verða mun færri sýningar en venjulega eða alls fjórar. Frumsýning verður miðvikudaginn 12. október klukkan 18, önnur sýning á sama tíma á föstudag og svo klukkan 14 laugar- og sunnudag.
Miðasala hófst 30.september – Miðapantanir í síma 849 9434 Frumsýning verður miðvikudaginn 12.okt kl.18:00 2.sýning föstudaginn 14. okt kl. 18:00 3. sýning laugardaginn 15. okt kl. 14:00 Lokasýning sunnudaginn 16. okt kl. 14:00 Aðeins fjórar sýningar.
Vart þarf að kynna Leikhópinn Lottu, sem hefur ferðast um landið í sextán ár með metnaðarfulla söngleiki fyrir börn á öllum aldri. Vegna Covid faraldursins þurfti hópurinn að draga seglin örlítið saman undanfarin tvö ár en sat þó ekki auðum höndum. Í sumar fóru þau um landið með þrjátíu mínútna sýningu unna upp úr sýningunni „Mjallhvít og dvergarnir sjö“ sem hópurinn setti upp fyrir ellefu árum við góðar viðtökur. Sagan hefur verið sett í glænýjan búning, henni breytt örlítið til að standast tímans tönn og bera út fallegan boðskap eins og Lottu er von og vísa.
Nú gefst tækifæri til að sjá þessa bráðskemmtilegu sýningu á fjölum Tjarnarbíós. Pínulitla Mjallhvít var einungis sýnd á einkaviðburðum í sumar og því eru eflaust margir sem fagna því að geta fengið sinn árlega Lottuskammt. Sýningarfjöldi verður mjög takmarkaður svo það er um að gera að tryggja sér miða strax!
Handrit og leikstjórn: Anna Bergljót Thorarensen Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Þórunn Lárusdóttir.