Þessi sýning Pussy Riot er sambland af tónleikum, gjörningalist og pólitískum viðburði. Hún hefur í sumar verið sýnd víðs vegar um Evrópu og hlotið mikla athygli og lof. Sýningin var að hluta til æfð og þróuð í Þjóðleikhúsinu nú á vordögum, rétt eftir að Masha Alyokhina forsprakki hópsins kom sér hingað undan klóm rússnesks óréttlætis. Sýningin er skipulögð í samhengi við fyrstu yfirlitssýningu Pussy Riot sem opnar í Kling & Bang í lok nóvember.
Gjörningar Pussy Roiot er án efa einhverjir mikilvæguastu pólitísku listaverk 21. aldarinnar. Ef einhverjir listamenn hafa gefið allt fyrir listina þá eru það þessir töffarar. Þungamiðjan í sýningunni er saga Möshu og lýsing hennar á helvtítinu sem Rússland Pútíns er. Glerhörð kvöldstund sem kýlir beint í magann og á sér í alvöru talað engan sinn líka
Kjartan Ragnarsson
Saga andófs og uppreisnar gegn kúgun og ritskoðun
Pussy Riot er upphaflega feminísk pönkhljómsveit sem einsetti sér að vekja athygli á réttindabaráttu minnihlutahópa og berjast gegn Pútín og stefnu hans. Pussy Riot vakti heimsathygli þegar fimm meðlimir fluttu gjörninginn „pönkbæn“ í dómkirkju í Moskvu og birtu síðar myndband af atburðinum á netinu. Í kjölfarið voru þrjár þeirra dæmdar til tveggja ára refsivistar í vinnubúðum. Rússnesk yfirvöld sættu mikilli gagnrýni af alþjóðasamfélaginu og þótti dómurinn aðför að málfrelsi. Konurnar voru þó ekki látnar lausar fyrr en 21. mánuði síðar eftir kröftug mótmæli mannréttindasamtaka víða um heim.
Jón Gnarr snýr aftur á svið Borgarleikhússins með Kvöldvökur sínar þar sem hann segir áhorfendum sannar en lygilegar sögur frá viðburðarríkum ferli sínum. Jón hefur komið víða við með Tvíhöfða, Fóstbræðrum, sem grínisti, rithöfundur og auðvitað sem borgarstjóri Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt og fá hafa aðrar eins sögur að segja og hann.
Á Kvöldvökunni mun sagnamaðurinn Jón, líkt og áður, segja sögur úr sínu lífi og má með sanni segja að sumt af því sem hann hefur upplifað er alveg hreint lygilegt.
Jón mun rifja upp gamlar sögur en líka nokkrar nýjar og óheyrðar. Hann mun deila með áhorfendum sögunni af því þegar honum var boðið til Kiev til að hitta Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu, en Jón og Besti flokkur hans voru Zelensky innblástur til að yfirgefa grín og glens en hella sér út í forsetakosningar. Jón mun líka trúa okkur fyrir sögum sem hann hefur þagað yfir hingað til um ýmislegt sem gekk á í Ráðhúsi Reykjavíkur á meðan hann var þar borgarstjóri.
Hver Kvöldvaka er einstök upplifun og algjörlega á valdi örlaganornanna. Ekki vinnst tími til að segja frá öllu og því eru sögurnar, sem sagðar eru, dregnar blindandi uppúr pípuhatti töframannsins og hvert kvöld verður einstök upplifun þar sem sagnahefðin og frásagnargleðin mun ráða ríkjum.
Leikfélagið Borg í Grímsnesi frumsýnir nýja leikgerð á sögunni um Aladdín og töfralampann lau. 12 nóvember. Leikritið er skrifað af Sindra Mjölni og leikstýrt af Hafþóri Agnari Unnarssyni. Sagan um Aladdín er ein sú þekktasta úr hinum heimsfræga sagnabálki sem flestir þekkja sem Þúsund og ein nótt og Antoine Galland þýddi úr arabísku og gaf út snemma 18. öld. Þúsund og ein nótt. Í þessu sérsaumaða leikriti um Aladdín og töfralampann, þurfa vinirnir Aladdín og Badrúlbadúr að bjarga ríkinu og bestu vinkonu prinsessunnar frá illum galdramanni. Þau fá óvænta hjálp frá andanum í töfralampanum, apa, kexrugluðum soldáni og fleiri óvæntum karakterum. Sýnt er í leikhúsinu á Borg í Grímsnesi og Grafningshreppi en það gengur jafnan undir nafninu Borgarleikhús hjá heimamönnum af augljósum ástæðum,. Að sögn leikfélaga er óhætt að lofa skemmtilegu ævintýri, góðri kvöldstund og jafnvel einni eða fleiri andateppum.
Júlía Hannam er höfundur sex stuttverka sem munu gleðja áhorfendur og aðdáendur Leikfélagsins Hugleiks nú í nóvemberbyrjun. Júlía lærði leiklist í The Stage Group Theatre í San Francisco stuttu eftir menntaskóla. Eftir að heim kom stofnaði hún fjölskyldu og dreif sig síðan í nám í viðskiptafræði og vann við það í mörg ár. Leiklistaráhuginn var þó alltaf fyrir hendi og um miðjan tíunda áratuginn kynntist hún leikfélaginu Leyndum draumum þar sem hún síðan varð félagi og fljótlega formaður. Nokkrum árum síðar lá leiðin í Hugleik en þar var hún félagi í hálfan annan áratug og lék, skrifaði og leikstýrði ásamt því að vera stjórnarmaður til margra ára. Fyrir manneskju með leiklistarbakteríuna í blóðinu var þetta hið fullkomna tómstundagaman með hinu daglega harki.
Í dag er Júlía ein þeirra mætu leikkvenna sem starfa undir hattinum Leikhúslistakonur 50+ og þar er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi. Hún mun einnig leika í Borgarleikhúsinu í janúar næstkomandi, í verkinu Marat Sade sem Lab Loki setur á svið í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar.
„Ástæðan fyrir því að stuttverkin sex eru sett á svið, segir Júlía, er sú að mig langaði til að styðja Hugleik, mitt gamla leikfélag. Hugmyndina fékk ég frá góðri vinkonu sem gerði slíkt hið sama nú síðastliðið vor, þá í tilefni stórafmælis hennar. Mér fannst þetta svo sniðugt – og átti nóg til í sarpinum sem hafði komið áður á fjalirnar og þótti skemmtilegt. Þannig að ég valdi nokkra einþáttunga með aðstoð góðra kvenna og þykir gaman að því að þeir fái að lifna aftur við á sviðinu jafnframt því að styrkja gott málefni.
Umfjöllunarefni Júlíu er gjarnan hversdagsleikinn og hverfulleiki lífsins, draumar okkar og þrár.
Þættirnir eru samdir yfir um 10 ára tímabil og geta þeir sem hafa áður fengið að njóta þeirra á sviðinu hlakkað til að sjá verkin nú í nýjum búningi.
Sýningar verða þann 4. og 5. nóvember klukkan átta í Funalind 2, húsnæði Leikfélags Kópavogs. Miða má finna og panta á heimasíðu Hugleiks og miðinn kostar 2000 kr. Það verður posi á staðnum og einnig er hægt að greiða með peningum. Hugleikur er eitt þeirra áhugaleikfélaga sem naut ekki góðs af styrk frá sínu bæjarfélagi nú í ár og því um að gera að taka frá kvöldstund, styrkja listina og njóta góðrar sýningar.
Þrjú systkini koma saman við dánarbeð föður síns. Um leið og þau neyðast til að takast á við hina nýju stöðu reyna þau að gera upp gömul mál og berja í brestina sem komnir eru í fjölskyldutengslin. En það er hægara sagt en gert. Yngri bróðirinn Hrafn er heyrnarlaus, heyrandi tvíburasystir hans Ugla talar reiprennandi táknmál en það gera hvorki faðirinn né eldri bróðirinn Valdimar. Samband systkinanna við föður sinn er því gjörólíkt og viðbrögð þeirra nú þegar þau standa á þessum krossgötum ófyrirsjáanleg eftir því. Og það er þá sem þau komast að dálitlu sem snýr lífi þeirra alveg á hvolf.
Áhrifamikið verk um tengsl og tengslaleysi, sorgarferli, samskipti og
löngunina eftir því að öðlast hlutverk í lífi sinna nánustu.
O.N. sviðslistahópur, sem samanstendur af heyrnarlausu og heyrandi listafólki, setur upp tvítyngdar sýningar, jafn aðgengilegar fyrir þá sem hafa íslenska tungu og íslenskt táknmál að móðurmáli. Eyja er fyrsta leiksýning sinnar tegundar sem sýnd er í Þjóðleikhúsinu og brýtur þannig blað í sögu leikhússins.
Framleiðandi: MurMur Prodcutions – Kara Hergils Sviðslistahópurinn O.N. í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Verkefnið er styrkt af Menningarráðuneytinu úr Sviðslistasjóði, Launasjóði sviðslistafólks og Styrktarsjóði Bjargar Símonardóttur.
Uppistandseinleikur Elvu Daggar Hafberg Gunnarsdóttur MADAME TOURETTE verður frumsýndur í Tjarnarbíó 30. október. þar fjallar hún á óvæginn og meinfyndinn hátt um fötlun sína og kjör öryrkja á Íslandi.
Elva Dögg hefur starfað sem uppistandari í rúman áratug og jafnan vakið athygli fyrir einstakan húmor sinn og dirfsku við að opinbera þau áhrif sem alvarleg Tourette röskun hefur á líf hennar, jafnt einkalíf, félagslíf, kynlíf og afkomu. Hún veitir áhorfendum sínum innsýn í heim sem margir vilja síður vita af, en af hispursleysi og glettni sýnir hún okkur á eftirminnilegan hátt hvernig kímni hennar og einstök sýn á heiminn hefur bjargað lífi hennar.
Kvöld með Elvu Dögg er öllum ógleymanlegt, bæði upplýsandi og um leið óborganlega skemmtilegt.
HÖFUNDUR OG FLYTJANDI: Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir
LEIKSTJÓRI: Ágústa Skúladóttir
LEIKMYND OG BÚNINGAR: Þórunn María Jónsdóttir
LJÓSAHÖNNUN: Ólafur Ágúst Stefánsson
Leikfélag Kópavogs frumsýnir Þjófa og lík, tvo einþáttunga eftir Dario Fo, sunnudaginn 30. október. Leikþættirnir eru Lík til sölu í leikstjórn Arnar Alexanderssonar og Betri er þjófur í húsi en snurða á þræði í leikstjórn Sigrúnar Tryggvadóttur.
Nóbelsskáldið Dario Fo þarf vart að kynna enda hafa leikverk hans notið mikillar hylli hérlendis í gegnum tíðina. Spilling valdsins er rauður þráður í mörgum verka Dario Fo. Þau einkennast af bítandi húmor í garð valdhafa, hvort sem það er lögreglan, kaþólska kirkjan eða stjórnmálamenn. Þau eru einnig innblásin af ítaslksri leikhúshefð ekki síst Commedia dell’arte. Alls taka 13 leikarar þátt í sýningunum sem verða á sviðinu í Leikhúsinu að Funalind 2 í Kópavogi frameftir nóvember. Leikmynd og búningar eru í höndum Maríu Bjartar Ármannsdóttur, Hjördís Zebitz sér um lýsingu og Hörður Sigurðarson um hljóð. Sýningarstjórar eru Petra Ísold og Anna Margrét Pálsdóttir
Þriðjudaginn 1. nóvember kl.13 verður opinn samlestur á Mátulegum, sviðsútgáfu kvikmyndarinnar DRUK eftir Thomas Vinterberg. Lesið verður í forsal Borgarleikhússins en frumsýning er 30. desember. Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri leikstýrir og leikarar eru þeir Hilmir Snær Guðnason, Þorsteinn Bachmann, Halldór Gylfason og Jörundur Ragnarsson.
Í Mátulegum ákveða fjórir menntaskólakennarar á miðjum aldri að gera tilraun til að sannreyna kenninguna um að manneskjan sé fædd með of lítið áfengismagn í blóðinu – þeir eru lífsleiðir, staðnaðir í starfi og á góðri leið með að sigla einkalífinu í strand.
Kaffi verður í boði og hægt er að panta veitingar frá Jómfrúnni hér eða í síma 568-8000.
Leikfélag Vestmannaeyja mun frumsýna leikverkið Ávaxtakarfan þann 28. október.
„Í verkinu er tekist á við fordóma, einelti og mismunun á einlægum nótum þar sem börn og foreldrar fá að fylgjast með lífinu í ávaxtakörfunni með leik, söng, sirkus og dansi. Sagan segir frá samskiptum íbúa Ávaxtakörfunnar þar sem gengur á ýmsu til að ná sátt og samlyndum því sumir eru jú ber og aðrir eru grænmeti,“
Frumsýning verður þann 28. október kl 20:00.
Opnað verður fyrir miðapantanir mánudaginn 24.okt kl 10:00 og verður opið fyrir miðapantar alla daga frá kl 10:00 – kl 20:00. Miðasalan sjálf opnar svo eins og ávalt 1 ½ klst fyrir sýningar.
Nú er um að gera og skella sér til Eyja og upplifa frábæra skemmtun.
Kómedíuleikhúsið hefur verið ótrúlega afkastamikið og þau hjónin Elvar Logi Hannesson og Marsibil Kristjánsdóttir makalaus uppspretta hugmynda og framkvæmda. Um jólin ætlar Elvar Logi að bregða sér í hlutverk Gísla á Uppsölum – á sjónvarpsstöðinni n4.
Gísli á Uppsölum er einstakt leikverk um einstakan mann í uppfærslu Kómedíuleikhússins. Einn stærsti viðburður íslenskrar sjónvarpssögu er Stiklu þáttur Ómars Ragnarssonar um einbúann Gísla Oktavíus Gíslason. Enn er Gísli landanum kær og hugleikinn. Hér er á ferðinni áhrifamikil sýning sem hefur hrifið áhorfendur líkt og saga söguhetjunnar.
Verkið verður sýnt á jóladag og hér að neðan má sjá viðtal við Elvar á n4.