Uncategorized | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Browsing "Uncategorized"

    Á svið

    apr 27, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikhópurinn sem tekur þátt í sýningunni

    Leikfélag Sauðárkróks æfir þessa dagana leikritið Á svið eftir Rick Abbot. Þýðandi er Guðjón Ólafsson og leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir.
    Sýnt er í Bifröst á Sauðárkróki.
    Á svið  er leikrit um leikhóp sem er að setja upp leikrit, fyrsti og annar þáttur er æfing á verkinu og þar er ýmislegt sem kemur upp á. Í þriðja þætti er svo komið að frumsýningu og þá ætti nú allt að vera löngu tilbúið en eins og við vitum getur allt gerst á frumsýningum t.d. gæti höfundunum dottið í hug að gera eitthvað.
    Frumsýnt verður í byrjum sæluviku Skagfirðinga og eru áætlaðar 10 sýningar. 

    Frumsýning sunnudaginn 30. apríl kl; 20:00
    2. sýning þriðjudaginn 2. maí kl; 20:00
    3. sýning miðvikudaginn 3. maí kl; 20:00
    4. sýning föstudaginn 5. maí kl; 20:00
    5. sýning laugardaginn 6. maí kl; 16:00
    6. sýning sunnudaginn 7. maí kl; 17:00
    7. sýning þriðjudaginn 9. maí kl; 20:00
    8. sýning miðvikudaginn 10. maí kl; 20:00
    9.sýning föstudaginn 12. maí kl; 20:00
    Lokasýning sunnudaginn 14. maí kl;20:00

    Miðapantanir eru í síma: 849 9434

    Skógarbrúðkaup á Sólheimum

    apr 25, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikhópurinn á Sólheimum.

    Leikfélag Sólheima frumsýndi að venju á Sumardaginn fyrsta. Í ævintýraskóginum hittum áhorfendur hinar ýmsu ævintýrapersónur eins og Mikka ref, Öskubusku, Rauðhettu, Karíus, Baktus og Kaktus og fleiri. Margvíslegar breytingar hafa átt sér stað í lífi þeirra og umhverfi sem þau reyna að takast á við. Þegar konungurinn býður öllum í brúðkaupsveislu Prinsins, með ákveðnum skilyrðum, er þeim vandi á höndum!
    Það er mikill heiður fyrir leikfélagið að endurnýja kynnin við leikstjórann og höfundinn, Magnús J. Magnússon en hann starfaði á Sólheimum öll sumur frá 1980–1988 og stjórnaði þar slátturhóp. Á þessum árum setti hann upp þrjár sýningar með Leikfélagi Sólheima. 1983 setti hann upp Hópinn og 1984 leikverkið Lífmyndir. Farið var með þá sýningu í 6 vikna leikferð um Ísland og og víða um Norðurlönd.
    Tónlist er í umsjón Hallbjörns V. Rúnarssonar (Halla Valla). Leikmynd var unnin og sett upp af smíðastofu og búningar voru í umsjón vefstofu. Yfir fjörutíu einstaklingar koma að sýningunni, þar af 32 leikarar. Það má því með sanni segja að þetta sé stór og kraftmikil sýning þar sem allir fá hlutverk við hæfi.
    Sýningar fara vel af stað og var uppselt á frumsýningu á fimmtudaginn 20. Apríl. Þá var þétt setið á sýningum um helgina og eru næstu sýningar laugardag 29. apríl, sunnudag 30. apríl og 1. maí, alltaf kl. 14:00. Miðasala er  í síma 847-5323. 

    Leikhópurinn vonast til að sjá sem flesta um helgina og minnir á að það er alltaf sól á Sólheimum. 

    Svartþröstur

    apr 21, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Átakanlegt og áleitið verk sem sýnt er í Borgarleikhúsinu.

    Skrifstofumaður á miðjum aldri fær heimsókn frá ungri konu, sem leitar eftir uppgjöri vegna sambands þeirra mörgum árum áður. Hann á að baki fangelsisdóm, hefur hafið nýtt líf undir nýju nafni og tilviljun ein gerir það að verkum að konan hefur uppi á honum. Bæði eru þau þjökuð af fortíðinni sem hefur markað djúp spor í lífi þeirra. Hún hefur setið föst í sömu sporum í fimmtán ár á meðan hann hefur reynt að byrja upp á nýtt, en þegar hún birtist er ljóst að hið liðna verður ekki flúið.

    Átakanlegt og áleitið verk eftir eitt fremsta leikskáld Skota síðustu áratuga.

    Til hamingju með að vera mannleg

    apr 20, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Til hamingju með að vera mannleg var frumsýnt 19. apríl í Þjóðleikhúsinu.

    Til hamingju með að vera mannleg er nýtt íslenskt verk byggt á ljóðabók Siggu Soffíu sem hún skrifaði þegar hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri. Verkið fjallar um þrautseigju, um andlegan styrk og um samfélag kvenna sem standa hver með annarri. Einnig um mikilvægi þess að treysta á aðra til að lifa af, um andlegt og líkamlegt þol og klisjurnar sem sanna sig aftur og aftur, eins og: „Það sem drepur þig ekki styrkir“. Og ekki síst um hvernig hægt er að sjá það fallega í erfiðustu aðstæðum.

    Ég bjó í 5fm rými í huga mínum,
    með hverri hugleiðslu stækkaði rýmið,
    með hverri stund í lyfjamóki flúði ég inn í
    mjúkan hugann og byggði þar hús og hallir.
    Síðar gat ég brotið heiminn niður og
    endurraðað púslunum.
    Hugur minn er ekki lengur skilgreint rými,
    hann er ósnortin náttúra, engi,
    syngjandi hrossagaukur,
    dramatísk fjöll og fljót,
    brimandi sjór og lygnar lindir.

    Hvað ef sósan klikkar?

    apr 17, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Gunnella Hólmarsdóttir sýnir leikverkið Hvað ef sósan klikkar? 
    í Tjarnarbíó í apríl og maí.

    Kæri áhorfandi, fáðu þér sæti á fremsta bekk og vertu vitni að hinum stórkostlega matreiðsluþætti, Hvað ef sósan klikkar? þar sem hin stórglæsilega Gunnella Hólmarsdóttir ætlar að matreiða fyrir okkur í beinni útsendingu og allt getur gerst! 

    En hvernig er þessi matreiðsluþáttur frábrugðin öðrum? Í þessum þætti þarf Gunnella að stýra upptöku, skemmta áhorfendum, sjá um auglýsingar og elda allan matinn frá grunni og það með klukkuna tifandi yfir sér. Nær hún að höndla hitann? Eða þarf hún að fara úr eldhúsinu?

    Jiii ég hefði nú bakað ef ég hefði vitað að þið væruð að koma!
    Matreiðslubækur eru áhugaverðar heimildir um líf fólks. Yfirleitt hafa slíkar bækur verið nýttar í matarfræðilegar rannsóknir, en nú eru þær í vaxandi mæli notaðar til að rannsaka hlutverk húsmæðra og hvernig það hefur breyst í tíma og rúmi. Þess vegna er spennandi að skoða hvað þessar bækur sögðu lesendahópi sínum um hvernig hin „rétta“ húsmóðir átti að fara að og skoða hvaða áhrif bækurnar hafa haft á konur tuttugustu aldar.

    Afsakið útgangin á mér!
    Er pressan um að vera hin góða húsmóðir búin að lúta lægra haldi fyrir framakonunni eða þarf hin nútíma kona mögulega að vera bæði framakona, góð húsmóðir, falleg og í góðu líkamlegu formi? Þarf hún mögulega að fylgjast enn betur með „tísku“ eldamennskunnar en áður þurfti? Þarf hún að kunna að elda Ketó – LKL – Vegan – glútenfrítt og sykurlaust? Hugsa um börnin og súrinn? Sinna hundinum, makanum, vinkonunum, tengdó og mæta í Kokteilaklúbbinn? Hafa tíma fyrir ræktina, þvottinn, veikindadaga barnanna og allt það sem Þriðja vaktin inniber! Passa svo að deila rétta efninu á samfélagsmiðlunum svo hún nái að skemmta „fylgjendum“ sínum þar. 

    Mikið ertu dugleg!
    Hvað er það sem hafði þessi áhrif á Gunnellu og fjölda annara kvenna? Eru þær með gallað DNA eða er eitthvað úr þeirra umhverfi sem hefur haft áhrif á taugaáföll kvenna yfir höfuð? 
    Eru matreiðslubækur hluti af þeim áhrifum?

    Árni Tryggvason látinn 99 ára að aldri

    apr 14, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Árni Tryggvason lést þann 13. apríl sl.

    Árni Tryggvason, einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, lést í gær 99 ára að aldri. Örn Árnason sonur hans greindi frá andláti föður síns á Facebook.

    Árni fæddist 19. janúar 1924 að Víkurbakka á Árskógsströnd. Hann er líklega þekktastur fyrir túlkun sína á Lilla Klifurmús í rómaðri uppsetningu Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi 1977 sem væntanlega hefur verið mikið spiluð á hverju heimili síðan. Þar lék hann á móti Bessa Bjarnasyni sem var Mikki refur en Bessi og Árni mynduðu á löngu tímabili einskonar tvíeyki og birtust í auglýsingum sem vöktu mikla athygli. Árni var að upplagi revíuleikari og vissi sannarlega hvernig átti að snerta strengi í þjóðarsálinni.

    Örn Árnason leikari, sonur Árna, greindi frá fráfalli föður síns í orðsendingu þeirra systkina til vina og ættingja:

    „Kæru ættingjar og vinir.
    Þá er tjaldið fallið í síðasta sinn hjá pabba okkar Árna Tryggvasyni leikara. Hann kvaddi þennan heim í hádeginu þann 13.apríl uppi á Eir, sem var hans dvalarstaður og foreldra okkar hin síðustu ár. Pabbi fæddist 19 janúar 1924 og náði því að verða 99 ára gamall. 
    Mamma lést í júli á síðasta ári, 94 ára og nú dansa þau loksins valsinn sinn saman. Kærar þakkir til Eirar fyrir umönnun foreldra okkar hin síðustu ár. Pabbi var alla tíð mikil aðdáandi Samuels Becketts leikritaskálds og lék tvisvar í leikriti hans „Beðið eftir Godot“ sem hann hafði miklar mætur á. Beckett fæddist 13.apríl og pabbi okkar dó 13.apríl. Godot kallar menn til sín þegar tíminn er kominn. Hann var 13.apríl fyrir pabba.“

    Undir rita Jóna Magga, Svanlaug og Örn.

    Við hjá Leikhús.is vottum ættingjum og vinum okkar dýpstu samúð um leið og við þökkum Árna Tryggvasyni fyrir þær ómetanlegu stundir sem hann færði okkur með list sinni.

    Disneysöngleikurinn Frost (Frozen) í Þjóðleikhúsinu

    apr 13, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Söngleikurinn Frost mun rata á fjalir Þjóðleikhússins á næsta leikári.

    Gísli Örn Garðarsson leikstjóri (Vesturport) mun sviðsetja nýja uppfærslu af Disneysöngleiknum Frost (Frozen) á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Sýningin er samstarfsverkefni Vesturports og Det Norske Teatret í Osló, Þjóðleikhússins á Íslandi, Borgarleikhússins í Stokkhólmi og Borgarleikhússins í Helsinki. Tilkynnt verður um danskt leikhús innan tíðar. 

    Leikhúsin munu í sameiningu sviðsetja nýja uppfærslu á söngleiknum, sem upphaflega var framleiddur af Disney Theatrical Productions. Líkt og á Broadway mun sýningin á Frosti (Frozen) vera byggð á tónlist og söngtextum eftir Óskarsverðlaunalagahöfundana Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez, og handriti eftir Óskarsverðlaunahöfundinn Jennifer Lee. Gísli Örn Garðarsson mun leikstýra þessari nýju uppfærslu og leiða listrænt teymi hönnuða, sem í eru meðal annars leikmyndahöfundurinn Börkur Jónsson og búningahöfundurinn Christina Lovery, sem munu sækja innblástur í litróf okkar eigin menningararfs. Bragi Valdimar Skúlason mun þýða söngleikinn á íslensku og þýða alla söngtexta upp á nýtt.  

    Söngleikurinn Frost (Frozen) er byggður á samnefndri teiknimynd Disney og ævintýri danska rithöfundarins Hans Christian Andersen, Snædrottningunni, frá 1844. Í sögumiðju eru tvær systur, Elsa sem býr yfir dularfullu leyndarmáli og er einangruð frá umheiminum og Anna sem leggur af stað í ferðalag til að bjarga henni. 

    Gísli Örn Garðarsson leikstjóri (Vesturport) mun sviðsetja nýja uppfærslu af Disneysöngleiknum Frost (Frozen) á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku.

    Ævintýrið sækir innblástur í norrænan menningararf, náttúru og goðsagnir og við erum afar stolt af því að fá tækifæri til að færa áhorfendum á Norðurlöndunum nýja uppfærslu á þessum söngleikja-stórviðburði. Í sýningunni eru lagasmellir á borð við „Let it Go„, „Do You Want to Build a Snowman“ og fleiri vinsæl lög úr kvikmyndinni, en auk þess hafa Óskarsverðlaunahafarnir sem sömdu hina upprunalegu tónlist, unnið nýjan hljóðheim fyrir söngleikinn og þar er m.a. að finna tólf ný lög, sem voru sérstaklega samin fyrir söngleikinn. 

    Sýningin verður frumsýnd í Osló 14. október 2023 og síðan frumsýnd í Reykjavík í febrúar 2024. Sýningar í Stokkhólmi, Helsinki og Kaupmannahöfn verða kynntar síðar.   

    Öll norrænu leikhúsin eru full tilhlökkunar að sýna söngleikinn og taka þátt í þessu spennandi samstarfi: 

    Gísli Örn Garðarsson leikstjóri:
    “Ég er fullur eftirvæntingar yfir því að fá að gæða norrænu útgáfuna af þessum geysivinsæla söngleik lífi ásamt frábærum hópi listamanna. Þvílík veisla, segi ég bara.” 

    Leikhússtjóri Þjóðleikhússins, Magnús Geir Þórðarson:
    “Við hlökkum mikið til að sýna splunkunýja sýningu á þessu ástsæla verki, sem byggt er á norrænum sagnaarfi, í nýrri uppfærslu Gísla Arnar, eins af okkar fremstu leikstjórum, en hann er þekktur fyrir hugmyndaríkar og magnaðar sýningar bæði hérlendis og erlendis.” 

     Bragi Valdimar Skúlason, þýðandi íslensku gerðarinnar:
    „Eftir að hafa horft með athygli á þetta meistaraverk músasmiðjunnar á annað hundrað sinnum og sungið með fullum hálsi gegnum grátstafina og gleðitárin — treysti ég mér fullkomlega til að leggja Önnu, Elsu og öllum hinum samnorrænu vinum mínum íslensk orð í bæði munn og belg, svo fullur sómi sé að.“ 

    Listrænn stjórnandi Det Norske Teatret, Erik Ulfsby:
    „Leikhúsið okkar er afar spennt að takast á við verkefnið, sem felst í því að skapa þá ævintýralegu töfra sem leynast í sagnaheimi söngleiksins Frost.  Við erum hæstánægð með samstarfið sem er að fara í gang.“ 

    Listrænn stjórnandi Borgarleikhússins í Stokkhólmi, Maria Sid:
    „Það er okkur sönn ánægja að taka þátt í þessu samstarfi og þróa norræna útgáfu af hinni sígildu sögu eftir H.C. Andersen. Að fá, ásamt vinum okkar á Íslandi, í Noregi, Finnlandi og Danmörku, að færa þennan söngleik í norrænt samhengi.“  

    Listrænn stjórnandi Borgarleikhússins í Helsinki, Kari Arffman:
    „Í gegnum árin hefur leikhúsið okkar sett upp nokkra Disney-söngleiki, en þetta er í fyrsta sinn sem við munum framleiða einn slíkan í norrænu samstarfi. Það að framleiða Frost er því tvöfalt gleðiefni fyrir okkur!“ 

    Svæðisstjóri og SVP hjá The Walt Disney Company Nordic & Baltic, Hans van Rijn, hefur þessu við að bæta:
    Áhorfendur á Norðurlöndum hafa tekið ástfóstri við sögurnar og persónurnar úr Frosti allt frá því að fyrsta myndin var frumsýnd fyrir áratug síðan. Ég get ekki séð fyrir mér betri leið til að gleðja hina fjölmörgu aðdáendur verksins, en með frumuppfærslu á Norðurlöndunum á söngleiknum okkar, sem fylgir handriti og tónlist eins og hún var upphaflega þróuð hjá Disney fyrir Broadway uppsetninguna, en nú í endurgerð hins skapandi norræna teymis. Við hlökkum mikið til að vinna með Gísla Erni Garðarssyni og leikhúsunum að því að blása nýju lífi í þetta ástæla verk fyrir svið“.  

    Um Frost og upprunalegu Broadwayframleiðsluna á Frozen: 

    Söngleikurinn Frost (Frozen) var upphaflega framleiddur af Disney Theatrical Productions. Hann var frumsýndur í St. James leikhúsinu á Broadway í mars 2018. Sýningin var söluhæst allra sýninga frá upphafi í forsölu á Broadway. Frozen var einnig tekjuhæsti nýi söngleikurinn á Broadway á fyrsta ári sínu á Broadway. Söngleikurinn hefur náð alþjóðlegum vinsældum og verið sýndur á leikför um Ástralíu og Norður-Ameríku, og á West End í London, í Japan og Hamborg í Þýskalandi í upprunalegu Broadway útfærslunni. 

    Teiknimyndin Frozen var gefin út af Disney 19. nóvember 2013 og sló í gegn bæði meðal gagnrýnenda og áhorfenda. Hún hlaut yfir 1,28 milljarða Bandaríkjadala í miðasölutekjur á heimsvísu og varð tekjuhæsta teiknimyndin á þeim tíma, sem og tekjuhæsta tónlistarmyndin, þar til endurgerð á The Lion King fór fram úr henni árið 2019. Frozen II hlaut mestu aðsókn allra teiknimynda á heimsvísu á fyrstu sýningum og hlaut yfir 1,45 milljarða Bandaríkjadala í miðasölutekjur.   

    Fyrsta myndin vann til tveggja Óskarsverðlauna, fyrir Best Animated Feature og Best Original Song („Let It Go“) og tveggja Grammy-verðlauna fyrir Best Compilation Soundtrack for Visual Media og Best Song Written for Visual Media („Let It Go“).

    Húsfélagið

    apr 13, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Leikfélagið Hugleikur setur upp leikritið Húsfélagið sem kemur úr höfundasmiðju félagsins. Áratugum saman hafa húsfélög stigaganga A og B í Fögruhlíð 84 unnið hlið við hlið í sátt og samlyndi en aðskilin þó. Nú er kominn tími til að sameina þau í eitt og þá er friðurinn úti. Erjur, forboðnar ástir, gönguhópar, silfurskottur, brask, slúður og, já, Brennu-Njálssaga, ásamt öllum þeim vandamálum sem við mætum í samneyti við nágranna fléttast hér saman í sprenghlægilega satíru sem þú vilt ekki missa af. Gunnar Björn Guðmundsson leikstýrir verkinu en hann á farsælan feril að baki og hefur meðal annars leikstýrt Ástrópíu, Ömmu Hófí og Áramótaskaupinu. Hátt í 30 manns taka þátt í leiksýningunni, þar af 11 leikarar.

    Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson

    Höfundar: Ásta Gísladóttir
    Elín Jónína Bergljótardóttir
    Elísabet Katrín Friðriksdóttir
    Eyjólfur Kristjánsson
    Loftur S. Loftsson
    Sigríður Bára Steinþórsdóttir
    Þórarinn Stefánsson

    Tónlist: Loftur S. Loftsson
    Söngtextar: Loftur S. Loftsson
    Sævar Sigurgeirsson
    Elísabet Katrín Friðriksdóttir

    Leikritið er sett upp í Leikhúsi Leikfélags Kópavogs í Funalind 2, 201 Kópavogi.

    Don Pasquale

    apr 13, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Ljúffengar laglínur og leiftrandi fjör

    Don Pasquale, gamall forríkur piparsveinn á biðilsbuxunum. Ernesto, ungur og myndarlegur frændi hans og einkaerfingi. Hin glæsilega Norina, ung og efnalítil ekkja. Læknirinn og bragðarefurinn Malatesta setur af stað óborganlega atburðarás í þessari ærslafullu gamanóperu sem er full af ljúffengum laglínum og leiftrandi fjöri.

    Nánd við áhorfendur og potað í óskrifaðar reglur

    Sviðslistahópurinn Óður neitar að geyma óperur í glerkössum. Þau vilja miklu frekar taka þær upp, hrista af þeim rykið og leika sér að þeim, pota í óskrifaðar reglur og skemmta sér og öðrum. Þau trúa á nálægð við áhorfendur og einlæga túlkun á tungumáli sem áhorfendur skilja. Fyrsta sýning þeirra, Ástardrykkurinn, sló rækilega í gegn á síðasta leikári.

    Úr gagnrýni um Ástardrykkinn:

    “Þetta er vægast sagt frábærlega heppnað hjá Óði. Það má ekki á milli sjá hvert þeirra nýtur sín best. […] Það er afslöppuð en orkurík leikgleði í öllum framgangi flytjendanna.” ÞT – MBL

    “Þetta unga fólk syngur svo vel að ekki þarf að kvíða óperuflutningi á Íslandi í framtíðinni. […] [Ö]ll fjögur eru fínir leikarar sem tjá allar þessar ruglingslegu tilfinningar eins og þau skilji þær djúpum skilningi.” SA – TMM

    “Fjörug og full af lífi, og góð skemmtun líka fyrir fólk sem ekki þekkir vel til óperumenningar.”
    SB – RÚV

    Don Pasquale er samstarfsverkefni Óðs og Þjóðleikhússins, og er styrkt af Sviðslistasjóði og Launasjóði sviðslistafólks.

    Hassið hennar mömmu

    apr 2, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Hassið hennar mömmu eftir Dario Fo verður sýnt á Flateyri um páskana.

    Leikfélag Flateyrar setur á svið gamanleikinn Hassið hennar mömmu, eitt allra vinsælasta leikrit ítalska leikskáldsins Dario Fo. Hér er á ferðinni skopleikur af bestu gerð sem bætir hressir og kætir, tilvalinn til að kitla hláturtaugarnar yfir páskana. Sýningin er fyrsta uppfærsla Leikfélags Flateyrar síðan 2013 og er leikhópurinn er skipaður ungum og efnilegum íbúum á Flateyri. Leikstjóri er Elfar Logi Hannesson.

    Fo á Vestfjörðum

    Það var Leikfélag Reykjavíkur sem varð fyrst til að kynna meistara Dario Fo fyrir Íslendingum. Það var árið 1965 þegar félagið sýndi Þjófar, lík og falar konur. Svo mikil var kátínan með stykkið að það var sýnt í þrjú leikár. Sama leikfélag kynnti okkur einnig fyrir leiknum Hassið hennar mömmu. Sem var frumsýnt 4. apríl 1982 og sýnt við fádæma vinsældir í Austurbæjarbíói. 

    Dario Fo hefur einnig notið mikilla vinsælda leikfélaga á Vestfjörðum. Líklega var Leikfélagið Baldur á Bíldudal fyrst til setja verk eftir skopleikjaskáldið ítalska á senu hér vestra. Það var einmitt áður nefndur leikur Þjófar, lík og falar konur sem félagið sýndi 1969. Sama félag sýndi einnig annan Fo leik Við borgum ekki! Við borgum ekki! 1991 og Litli leikklúbburinn Ísafirði sýndi sama leik 2009. Áður hafði Litli sýnt Fo leikinn Sá sem stelur fæti, verður heppinn í ástum árið 1978. Nágranni þeirra Leikfélag Bolungarvíkur sýndi sama leik 1993 og árið 2013 sýndu þau hinn bráðfjöruga Fo leik Félegt fés. Aðrir nágrannar vestfirskir sýndu Fo stykkið Markolfa með stuttu millibili Leikfélag Patreksfjarðar árið 1994 og Leiklistardeild UMFT á Tálknafirði tveimur árum síðar. Enn fjórum árum síðar var sami leikur settur á senu hjá Leikfélagi Hólmavíkur. Samkvæmt lauslegum heimildum ritara þá hafa tveir aðrir Fo leikir verið sýndir hjá vestfirskum leikfélögum. Fyrst skal nefna Betri er þjófur í húsi en snurðra á þræði sem Leikfélagið Hallvarður Súgandi sýndi árið 2001. Að lokum er það Hassið hennar mömmu, sem Leikklúbbur Menntaskólans á Ísafirði setti á svið 1987 í leikstjórn Odds Björnssonar. Sýndu Menntskælingar meira að segja í leikhúsinu á Flateyri og því má segja að Hassið sé aftur komið heim.

    Elfar Logi Hannesson

    Síður:«1...9101112131415...95»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!