Uncategorized | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Browsing "Uncategorized"

    YERMA

    des 12, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    YERMA er Kraftmikið nútímaverk sem slegið hefur í gegn.


    Hún er kona í blóma lífsins, sjálfsörugg og opinská, eldklár, ákveðin og óhefluð. Henni gengur vel í starfi sínu og er að flytja inn í nýtt hús með manninum sem hún elskar. Það er bara eitt sem vantar – barn. Kærastinn er til í það, og það er ekki eftir neinu að bíða! En það sem virðist svo eðlilegur hluti af lífinu reynist ekki sjálfsagt. Eftir því sem biðin lengist virðist einhver ofursterkur kraftur ná sífellt öflugri tökum á henni. Löngun verður að þrá, þráin að þráhyggju og smám saman missir hún tökin. Hvernig bregst kona við ef lífið verður ekki við hennar heitustu bón?

    Hversu langt er manneskjan reiðubúin að ganga til að fá óskir sínar uppfylltar?

    Yerma er í seinn leiftrandi, áleitið og átakanlegt nútímaverk sem hefur slegið rækilega í gegn. Leikritið er byggt á samnefndu meistaraverki Federico García Lorca frá árinu 1934 sem gerist í spænsku sveitasamfélagi. Höfundur leikritsins, hinn heimsþekkti leikhúsmaður Simon Stone, flytur atburðarásina inn í borgarsamfélag samtímans og frumkraftarnir í verkinu birtast okkur í nýju ljósi.

    Gísli Örn Garðarsson leiðir hér saman einstaklega sterkan hóp leikara í fádæma kraftmiklu verki. Það er óhætt að lofa magnaðri kvöldstund.

    Borg­ar­leik­hús­ið trygg­ir sér sýn­ing­ar­rétt á Moulin Rouge! söng­leikn­um

    des 12, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Borgarleikhúsið hefur tryggt sér sýningarétt á söngleiknum Moulin Rouge!

    Borgarleikhúsið hefur tryggt sér sýningarrétt á nýrri útfærslu Nordiska Production á Moulin Rouge! söngleiknum sem frumsýndur verður á Stóra sviðinu í september 2025.

    Moulin Rouge! söngleikurinn byggir á Óskarsverðlaunamynd Baz Luhrmann frá árinu 2001 sem skartaði þeim Nicole Kidman og Ewan MacGregor í aðalhlutverkum. Árið 2018 leit söngleikurinn dagsins ljós í Boston og ári síðar var hann frumsýndur á Broadway þar sem hann gengur enn fyrir fullu húsi. Sýningin hlaut tíu Tony® verðlaun, meðal annars sem besti söngleikurinn, fyrir leikstjórn, kóreógrafíu og tónlistarútsetningu.

    Líkt og í kvikmynd Baz Luhrmann er tónlistin í söngleiknum listilega fléttuð saman úr lögum og tónverkum úr ýmsum áttum, þar á meðal mörgum af þekktustu slögurum tónlistarsögunnar allt frá Bizet til Bowie og Beyonce.

    Íslandsfrumsýning í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur

    Söngleikurinn Moulin Rouge! gerist í París þar sem söngvaskáldið Christian kemur til borgarinnar í leit að innblæstri. Honum er tekið opnum örmum af bóhemum Montmartre sem vinna að söngleik sem þá dreymir um að verði settur upp í Rauðu Myllunni. Skáldið unga slæst í lið með þeim en verður ástfanginn af stjörnu Myllunnar – hinni óviðjafnanlegu Satine.

    Leikstjóri íslensku uppfærslunnar verður Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins. Tónlistarstjóri er Jón Ólafsson og þýðing er í höndum Braga Valdimars Skúlasonar. Uppsetning Borgarleikhússins á Moulin Rouge! söngleiknum verður stórbrotin upplifun fyrir augu, eyru og hjarta. Öllu verður til tjaldað hvað varðar leik- og hljóðmynd og besta sviðslistafólk landsins fengið til að flytja okkur inn í grípandi heim Rauðu Myllunnar í París 1899!

    „Það er stórkostleg tilfinning að geta loksins greint frá því að söngleikurinn Moulin Rouge! sé á leið í Borgarleikhúsið.“ Segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri. „Við erum búin að vinna lengi að því að tryggja okkur titilinn og nú hefst undirbúningurinn fyrir alvöru. Það fer óneitanlega fiðringur um leikstjórann að vera að stíga inn í heim Rauðu myllunnar sem Baz Luhrmann gerði ódauðlega í rómaðri kvikmynd sinni. Eldheit ástarsaga, stórkostleg tónlist og gildi bóhemanna ofar öllu: frelsi, fegurð, sannleikur, ást. Það gerist ekki heitara – verið velkominn í Rauðu mylluna!“

    Sigurför söngleiksins Moulin Rouge! víða um heim

    Söngleikurinn Moulin Rouge! hefur verið sýndur víða um heim. Borgarleikhúsið tryggði sér réttinn til að sýna verkið í gegnum réttindaskrifstofu Nordiska sem fer með sýningarrétt nýrrar útfærslu (e. non replica) söngleiksins á Norðurlöndum. Þar með fylgir Reykjavík í fótspor Osló, Stokkhólms, Helsinki og Kaupmannahafnar þar sem söngleikurinn hefur verið settur upp frá haustinu 2023 við gríðarlegar vinsældir og einróma lof gagnrýnenda.

    Um Moulin Rouge í París

    Moulin Rouge í París, undir forystu Jean-Jacques Clerico, forstjóra, er stórbrotinn, glæsilegur heimur og tákn fyrir Parísarskemmtanir allt frá árinu 1889. Upphaflega opnaði staðurinn sem vinsæll kabarett- og dansstaður en öðlaðist sess sem goðsagnakenndur vettvangur fyrir tónleikasýningar á þriðja áratug 20. aldarinnar, og síðar sem leikhús þar sem margir frægir franskir og alþjóðlegir listamenn tróðu upp. Í dag býður Moulin Rouge upp á revíusýninguna Féerie, þar sem 60 flytjendur taka þátt í tveggja tíma flutningi þar sem skipt er á milli dansatriða, og óvæntra uppákoma – þar á meðal hins fræga franska Can-can dans!

    Frá upphafi hefur Moulin Rouge boðið gestum sínum að upplifa gleði og tilfinningar í gegnum einstakar og íburðamiklar skrautsýningar.

    Um Moulin Rouge! söngleikinn

    Moulin Rouge! söngleikurinn var heimsfrumsýndur í Boston 2018 og náði fljótt alþjóðlegri velgengni. Ári síðar var söngleikurinn frumsýndur á Broadway þar sem hann fékk mikið lof áhorfenda jafnt sem gagnrýnenda og vann til tíu Tony verðlauna. Velgengni söngleiksins hefur haldið áfram og er söngleikurinn enn sýndur fyrir fullu húsi á Broadway auk þess hann er sýndur í London, Köln, Utrecht og á leikferð í Norður Ameríku. Sýningarferð um heiminn hefst í Edinburgh í apríl 2025. Fyrri sviðssetningar hafa meðal annars verið í Tokyo og Osaka (2023 og 2024), Seoul (2023) og sem hluti af ástralskri leikferð árin 2021-2024.

    Framleiðandur Moulin Rouge! söngleiksins eru Carmen Pavlovic og Gerry Ryan hjá Global Creatures ásamt Bill Damaschke.

    Moulin Rouge ® er skrásett vörumerki Moulin Rouge

    Tilkynnt verður síðar hvenær miðasala hefst.

    Lápur, Skrápur og jólaskapið á Ísafirði

    des 9, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Lápur, Skrápur og jólaskapið er sannkölluð fjölskyldusýning.

    Litli leikklúbburinn frumsýndi jólaleikritið Lápur, Skrápur og jólaskapið eftir Snæbjörn Ragnarsson, í leikstjórn Tinnu Ólafsdóttur um liðna helgi en þetta er fyrsta verkið sem Tinna leikstýrir. Uppselt var á báðar sýningarnar um helgina og fóru leikhúsgestir uppfullir af jólaskapi af sýningunni. Miðasala er í fullum gangi á sýningarnar á næstu helgi.

    Lápur, Skrápur og jólaskapið er sannkölluð fjölskyldusýning, þar sem börn á öllum aldri tengd aðstandendum sýningarinnar sátu æfingar og syngja nú lögin úr sýningunni heima hjá sér (að minnsta kosti er það raunin á heimili formannsins).  Lápur, Skrápur og jólaskapið er annað verkið sem Litli leikklúbburinn sýnir á árinu. Félagið fer ört stækkandi og sumir meðlimir eru að stíga sín fyrstu skref á sviði í sýningunni.

    Skúli Þórðarson og Þórður Jóhann Guðbrandsson eiga stórleik sem tröllastrákarnir Lápur og Skrápur sem reknir eru úr Grýluhelli til að finna jólaskapið, þar sem þeir eru ekki hellum hæfir svona stutt í jól, hrekkjóttir og óþekkir. Bræðurnir hitta mannabarnið Sunnu sem vill allt geta til að aðstoða þá við að finna jólaskapið. Anna Ásgerður Hálfdánardóttir og Salka Gallo skipta með sér hlutverki Sunnu og hefur það verið aðdáunarvert að sjá svo ungar stelpur leggja þessa miklu vinnu á sig og skína á sviðinu, hvor á sinn hátt. Grýlu, Leiðindaskjóðu og Gáttaþef bregður einnig fyrir í leikritinu en með hlutverkin fara Hjördís Þráinsdóttir, Sædís Ólöf Þórsdóttir og Sveinberg Þór Birgisson.

    Lápur, Skrápur og jólaskapið er frábær 50 mínútna jólasýning fyrir alla fjölskylduna sem kemur öllum í jólaskap og við hlökkum til að finna jólaskapið með góðum gestum að minnsta kosti tvisvar í viðbót um næstu helgi.

    Kött­ur á heitu blikk­þaki

    nóv 28, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Köttur á heitu blikkþaki Tímalaus klassík Tennessee Williams í leikstjórn Þorleifs Arnar.

    Í þessu meistaraverki Tennessee Williams kemur fjölskylda saman til að fagna stórafmæli föðurins, en þegar líða tekur á kvöldið er fögnuðurinn fljótur að snúast upp í andhverfu sína. Erfðadeilur, sálarflækjur og kynferðisleg spenna leiða persónur verksins á tilfinningaleg jarðsprengjusvæði, þar sem baráttan fyrir tilverunni, frelsinu og sannleikanum tekur yfir. Hvað erum við tilbúin að gera til að horfast ekki í augu við raunveruleikann?

    Þorleifur Örn er þekktur fyrir umfangsmiklar sýningar og listræn stórvirki, en í þetta sinn tekst hann á við sígilt verk með innilegri nálgun og mögnuðum leikhópi. Þetta magnaða verðlaunaverk hefur aðeins einu sinni áður verið sett á svið í atvinnuleikhúsi á Íslandi en um fádæma vinsældir þess þarf ekki að fjölyrða.

    Sýningarréttur: Nordiska ApS, skv. sérstöku samkomulagi við The University of the South, Sewanee, Tennessee.

    Ylur

    nóv 15, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Séríslenskur jólasöngleikur í bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ

    Sangríuþyrstir ferðalangar freista þess að sleikja sólina á sólarströnd yfir jólin en bregður í brún þegar amstur jólanna eltir þau alla leið til Spànar og ógnar jólafriðinum.

    Ylur er nýr sprenghlægilegur íslenskur jólasöngleikur með þekktum jólalögum í nýjum búningi eftir Aron Martin Ásgerðarson og Ástrósu Hind Rúnarsdóttur.

    Leikstjóri er Aron Martin Ásgerðarson og tónlistarstjóri Þorsteinn Jónsson.

    Sextíu kíló

    nóv 15, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Heimur bókanna opnast með Hallgrími Helgasyni í Borgarleikhúsinu.

    Hallgrímur Helgason er margverðlaunaður metsöluhöfundur sem fangað hefur hug og hjörtu þjóðarinnar með verkum sínum um fólkið í sjávarþorpinu Segulfirði í bókum sínum Sextíu kíló af sólskini, Sextíu kíló af kjaftshöggum og þriðju bókinni, Sextíu kíló af sunnudögum sem kom út nú í haust.

    Hallgrímur er kunnur sögumaður og hefur haldið gríðarlega vinsæl námskeið þar sem hann opnar bækurnar upp á gátt fyrir lesendum sínum og nú gerir hann gott betur og býður gestum til sætis á Litla sviði Borgarleikhússins. Á sviðinu rekur hann frásögnina í gegnum skáldsögurnar af alkunnri list, les upp úr bókunum. lyftir hulunni af vinnuferlinu, baksögunum og innblæstrinum og gæðir persónur sínar lífi sem aldrei fyrr.

    Svarta kómedían

    nóv 13, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir


    Leikfélagið Borg sýnir hinn sprenghlægilega farsa Svörtu kómedíuna í Félagsheimilinu Borg. Svarta kómedían er sprenghlægilegur farsi um ungan mann sem þarf að kljást við þrjá elskhuga sína, tannhvassan verðandi tengdaföður, og heyrnalausan miljónamæring – og það allt í algjöru rafmagnsleysi á regnvotu sunnudagskvöldi í London ca. 1965.  Ungur listamaður og mikill elskandi að nafni Brindsley býr í hrörlegri íbúð í London sem hann er búinn að laga aðeins til fyrir kvöldið. Hann er kominn með nýja unnustu og á von á stórfenglegu kvöldi með afar mikilvægum gestum. Á ögurstundu fer rafmagnið af húsinu og í einni hendingu er kvöldið komið af sporunum … og lengi getur vont versnað.

    Leikfélag Hafnarfjarðar hefur verið lagt niður

    nóv 11, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélag Hafnarfjarðar hefur lokið störfum í bili eftir 88 ár.

    Starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar hefur verið lögð niður, skv. ákvörðun aðalfundar þann 29. október 2024. Leikfélagið þakkar öllum félögum sínum og áhorfendum í gegnum tíðina fyrir samstarfið, leikinn, vináttuna, stuðninginn og gleðina, og fyrir að gera LH að þeim einstaka gullmola sem það hefur verið. 

    Þessi ákvörðun átti sér afar langan aðdraganda og var tekin einróma af fundarmönnum, en fundinn sátu félagar sem flestir hafa starfað áratugum saman hjá leikfélaginu. Þó ákvörðunin hafi reynst félagsmönnum afar þungbær, er þakklæti þó efst í huga fyrir þann fjársjóð sem félagið skilur eftir sig. 

    Úr skýrslu formanns á aðalfundi:

    „Hafnarfjarðarbær eða íbúar í bænum geta hvenær sem er kosið að endurvekja starfsemi félagsins. Það er ósk okkar að svo verði, að stjórnendur bæjarins sjái mikilvægi þess að styðja við áhugaleikhúsið sem valkost í flóru lífsgæðaeflandi félagsstarfs fyrir íbúa bæjarins. Við höfum ítrekað lagt áherslu á að áhugaleikfélagið sé heilsueflandi og að það sé lýðheilsumál að fólk hafi kost á því að skapa og læra og þroskast og dafna og tjá sig í því hlýja og uppbyggjandi umhverfi sem áhugaleikfélagið er. Leikfélag Hafnarfjarðar hefur verið athvarf og andlegt heimili fyrir mörg og reynst jafnvel lífsbjörg fyrir sum. Í leikfélaginu er pláss fyrir alla en því miður er ekki alltaf pláss fyrir leikfélagið. Þannig er bara lífið. Þess vegna erum við á þessum tímamótum í dag og tilbúin til þess að leita á önnur mið þar sem okkur er tekið opnum örmum. Við erum tilbúin til þess að kveðja félagið okkar, sátt og þakklát, því við sem vorum félagið getum haldið áfram starfinu annars staðar og verðum áfram félagar í listinni um ókomna tíð.

    Leikfélag Hafnarfjarðar mun lifa í frásögnum og heimildum og ekki síst í minningum okkar allra sem höfum iðkað leiklistina undir merkjum félagsins. Leikfélag Hafnarfjarðar deyr aldrei, það bara leggur sig um stund og safnar kröftum og fer svo fíleflt aftur í gang þegar aðstæður innan bæjarins eru því hagstæðari.

    Megi það hvíla í friði þangað til.“

    Blái Hnötturinn á Flateyri

    nóv 6, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélag Flateyrar sýnir Bláa hnöttinn.

    Leikfélag Flateyrar setur upp sígilda ævintýrið um Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ Magnason.

    Villibörnin sem búa á hnettinum verða logandi hrædd þegar geimskip brotlendir. En ógurlega geimveran reynist vera hinn galsafulli Gleði-Glaumur. Hann lofar þeim endalausu fjöri og enn meira stuði í skiptum fyrir dass af æsku þeirra. En hvers virði er æskan? Og er hægt að fá hana til baka? Komið með í langhættulegasta ævintýri sem gerst hefur á Bláa hnettinum fyrr eða síðar.

    Sýningartími: 90 mínútur.
    Stórskemmtileg sýning sem hentar allri fjölskyldunni.

    Miðaverð:
    Forsöluverð: kr. 3.500. Miðaverð eftir 12 nóv. kr. 3.900.
    Nemendaverð kr. 3.000. (Leik-,grunn-,framhalds-, og -lýðskóla)
    Miðaverð við hurð kr. 4.500.

    Blundar í þér leikskáld?

    nóv 5, 2024   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Ef þú gengur um með hugmynd að leikriti að þá gæti þetta verið fyrir þig.

    Halaleikhópurinn skipuleggur leiklestra af ýmsu tagi í vetur. Í tilefni að því sendir hópurinn eftirfarandi skilaboð til allra sem áhuga kunna að hafa:

    Ertu blundandi skúffuskáld?
    Áttu handrit að leikverki sem þig langar að hlusta á leiklesið ?
    Handritin þurfa ekki að vera fullbúin og þau mega vera drög eða hlutar – stutt eða löng – létt eða þung.Við erum ekki að leita eftir verkum eftir snillinga, það er öllu líklegra að þú verðir snillingur meðendurtekinni reynslu við að skapa eitthvað. Því ekki að gefa þér tækifæri á að fá verkið sem blundar í þér leiklesið af leikurum á öllum aldri eftir stutt æfingaferli, leikstýrt af atvinnuleikstjórum og/eða öðrum og sýnt fyrir áhorfendur. Þar færðu tækifæri til að heyra og sjá hvernig verkið virkar á þig sem og aðra.

    Ertu í stuði?
    Hefurðu áhuga á að taka þátt í verkefni eins og þessu? Verkefni sem skuldbindur þig ekki í langan tíma, við stífar æfingar líkt og á fullbúnu leikriti heldur mun skemmri tíma sem þú getur gefið þér í að prófa að lesa leikrit fyrir framan áhorfendur, eftir stutt æfingaferli. Þú þarft samt að gefa þér tíma í nokkur kvöld og mögulega nokkrar helgar, en það fer eftir umfangi verksins. Það verður allt gert í samráði við þig og aðra þátttakendur 🙂 

    Er þetta fyrir þig?
    Svo ef þú liggur á handriti eða í þér blundar þörf til að takast á við leiklestur settu þig í samband við okkur hjá Halaleikhópnum – Leiklist fyrir alla með skilaboðum í síma.897 5007. Kíktu í kaffi til okkar á laugardagsmorgnum milli kl. 11 og 13 í Hátún 12 – inngangur nr. 3 að neðanverðu.

    Sýning Halaleikhópsins á Gaukshreiðrinu í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar var valin Athyglisverðasta Áhugaleiksýning ársins árið 2008 og flutt í Þjóðleikhúsinu það ár.
    Halaleikhópurinn er einnig handhafi Kærleikskúlunnar árið 2008.
    Stjórn er svo með ýmislegt fleira í bígerð sem kemur í ljós seinna.

    Kveðja frá stjórn Halaleikhópsins

    Síður:1234567...95»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!