Carroll: Berserkur
Hver er þín staða og hlutverk á taflborðinu? Stjórnar þú þínu eigin lífi, eða er einhver annar sem leikstýrir því?
Ferðist með litríkum persónum úr undralandi Lísu í gegnum draumkennda heima sem leitast við að svara þessum spurningum.
Leikhópurinn Spindrift kynnir gagnvirkt þáttökuleikhús um hinar ólíku hliðar mannsins í gegnum kynjaverur Undralands.
Atburðirnir eru spunnir út frá spurningum hópsins um samfélagsleg gildi og rannsakar hvað megi sýna og hvað þurfi að fela í daglegu lífi.
Galsafull og ryþmísk skrif rithöfundsins Lewis Carroll eru nýtt fyrir áþreifanlegan og tilraunakenndan stíl leikhópsins. Sýningin sameinar raunveruleika okkar og skáldskap Lísu í Undralandi í gegnum gagnvirt þáttökuleikhúss sem ferðast um ólík rými Tjarnarbíós. Áhorfandinn gengur inn í draumaheim þar sem töfrar leikhússins skapa ævintýralega veröld með óvanalegum uppákomum.
Lísa gengur í gegnum sjálfsþekkingarleit þar sem hún stækkar og minnkar eftir því sem hún mætir ólíkum hliðum manneskjunnar í hinum ófyrirsjáanlegu verum Undralands.
Leikhópurinn
Spindrift Theatre er norrænn leikhópur sem hefur verið starfandi síðan árið 2013. Hópinn skipa fjórar ungar konur, Bergdís Júlía Jóhannsdóttir (Íslandi), Sólveig Eva Magnúsdóttir (Íslandi), Henriette Kristensen (Noregi) og Anna Korolainen (Finnlandi). Meðlimir hópsins lærðu og útskrifuðust úr breska leikhússkólanum Rose Bruford College árið 2013. Spindrift Theatre er tilraunagjarn og framsækinn leikhópur sem leggur áherslu á að skapa út frá forvitni leikarans á eðli mannsins og lífinu sjálfu.
Spindrift sýndi fyrst á Íslandi árið 2013 sýninguna Þríleikur í Gaflaraleikhúsinu og Frystiklefanum í Rifi. Hópurinn sýndi fyrstu þróun að Carroll: Berserk í Drayton Arms Theatre í London á síðasta ári.
Takmörkuð fatageymsla verður í boði og ekki verður hægt að taka bakpoka og töskur með í salinn.
Áhorfendur munu gangi í gegnum Tjarnarbíó í 90 mínútur.
Sýningin fer fram á íslensku og er ekki við hæfi barna.