Býr Íslendingur hér
Leikfélag Akureyrar, Menningarfélagið Hof og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sameinuðust undir merkjum MAk, Menningarfélags Akureyrar, um síðustu áramót. Leikritið Býr Íslendingur hér sem frumsýnt verður í september i Samkomuhúsinu á Akureyri verður ein af þeim leiksýningum sem hið nýja félag mun framleiða næsta vetur. Fjölbreytt dagskrá MAk verður kynnt 20. ágúst en ný heimasíða – www.mak.is mun opna um miðjan júní.
Leikgerð Þórarins Eyfjörð á bók Garðars Sverrissonar Býr Íslendingur hér verður fyrsta verkefnið sem leiklistarsvið MAk frumsýnir næsta vetur. Bók Garðars greinir frá lífsbaráttu Leifs Muller í fangabúðum nasista. Nú eru liðin 70 ár frá því að útrýmingarbúðir nasista voru frelsaðar af bandamönnum í lok seinni heimstyrjaldarinnar árið 1945.
Leifur ólst upp í Reykjavík en fór sem ungur maður til Noregs í nám. Hann er síðan staddur í Noregi þegar nasistar hernema landið. Hann gerir áætlun um að komast heim til Íslands en er svikinn í hendur Gestapó af öðrum Íslendingi, færður í einangrun og þaðan sendur til Grini fangabúðanna í nágrenni Oslóar . Þaðan flytja Þjóðverjar hann til Sachsenhausen sem eru alræmdar vinnu- og útrýmingarbúðir Nasista. Frásögn Leifs er einstök í bókinni, hugrökk og hispurslaus og vakti mikla athygli þegar hún kom út á sínum tíma.
Frásögnin í Býr Íslendingur hér brýnir fyrir okkur ábyrgðina sem fylgir því að vera manneskja og segir okkur sögu sem aldrei má falla í þagnargildi.
Hinn þjóðkunni leikari Arnar Jónsson sem stjé sín fyrstu sviðsspor í Samkomuhúsinu á Akureyri mun leika í sviðssetningunni ásamt Benedikt Karli Gröndal. Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson og tónlist er í höndum Davíðs Þórs Jónssonar. Um leikmynd og búninga sér Íris Eggertsdóttir.
Sýningin verður frumsýnd í Samkomuhúsinu þann 18. september.