Borgarleikhúsið leitar að dansandi og syngjandi börnum
Borgarleikhúsið leitar nú að 22 börnum til að fara með hlutverk í Sögunni af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Verkið verður fyrsta uppfærsla næsta leikárs og leikstýrt af Bergi Þór Ingólfssyni sem jafnframt semur leikgerð en tónlistin verður í höndum Kristjönu Stefánsdóttur. Æfingar hefjast í maí en áætluð frumsýning er 17.september.
Leitað er að börnum sem geta sungið, dansað og leikið, að því er fram kemur í tilkynningu frá leikhúsinu. Öllum krökkum á aldrinum átta til fjórtán ára er boðið að taka þátt í prufunum sem fara fram dagana 7. Til 15. apríl. Skráning fer fram í Borgarleikhúsinu miðvikudaginn 6. apríl klukkan 16.
Sagan af Bláa hnettinum eftir Andra Snæ hefur komið út á 12 tungumálum og hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1999, Janusz Korczak honorary award 2000 og Vestnorrænu Barnabókaverðlaunin 2001. Hún segir frá bláum hnetti lengst úti í geimnum þar sem búa hálfgerð villibörn sem fullorðnast ekki.
Eitt kvöldið þegar Brimir og Hulda eru stödd í Svörtufjöru birtist stjarna á himni sem stefnir beint á þau. Stjarnan lendir í fjörunni með mikilli sprengingu en í reyknum mótar fyrir skuggalegri veru sem starir út í myrkrið. Þá hefst hættulegt ævintýri sem leiðir börnin um myrka skóga, djúpa dali og loftin blá. Reynir þá sem aldrei fyrr á vináttu og ráðsnilld barnanna á bláa hnettinum.”