Bakaraofninn í Gaflaraleikhúsinu
Bakaraofninn eftir þá Gunnar Helgason og Felix Bergsson snýr aftur í Gaflaraleikhúsið.
Í leikritinu opna Gunni og Felix veitingastaðinn “Bakaraofninn” en lenda fljótlega í miklum vandræðum með iðnaðarmann sem reynist ekki allur þar sem hann er séður. Að auki eiga þeir von á grimmum matargagnrýnanda sem er þekktur fyrir “að drepa veitingastaði!” Aðrir leikarar eru stórleikararnir Elva Ósk Ólafsdóttir og Ævar Þór Benediktsson eða Ævar vísindamaður. Tónlist er í verkinu eftir Mána Svavarsson og leikstjóri er Björk Jakobsdóttir. Björk sló í gegn í verkum sínum “Sellófon” og “Blakkát” og leikstjórnarverk hennar “Unglingurinn” og “Konubörn” hafa undanfarið fengið frábærar viðtökur.
Það þarf varla að kynna þá Gunna og Felix. Þeir vöktu fyrst athygli sem umsjónarmenn Stundarinnar okkar og hafa fylgt íslenskum fjölskyldum í tvo áratugi. Gunni er einnig metsöluhöfundur barnabóka og Felix tónlistarmaður og þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi.
Bakaraofninn var sýndur við miklar vinsældir í vor, fékk frábæra dóma hjá gagnrýendum og var tilnefnd sem Barnasýning ársins hjá Grímunni.