Englabörn og Ímyndaðar afstæðiskenningar
SUNNUDAGUR 1. MARS KL. 13:00
ENGLABÖRN
Höfundur & leikstjóri: Hávar Sigurjónsson
Tónlist: Jóhann Jóhannsson
Tónlistarflutningur: Eþos kvartettinn og Jóhann Jóhannsson
Hljóðvinnsla: Björn Eysteinsson
Leikritið fjallar á óvæginn hátt um óhugnað og ofbeldi sem getur og hefur átt sér stað innan veggja heimilisins.
Englabörn er saga fjölskyldu þar sem sifjaspell og ofbeldi hafa mótað einstaklinga þriggja kynslóða. Leikritið gerist á þeim tímapunkti þegar einungis tveir yngstu meðlimir fjölskyldunnar eru á lífi, Jói og Karen.
Uppsetning Útvarpsleikhússins á Englabörnum, í leikstjórn Hávars Sigurjónssonar, hlaut Grímuna árið 2005 sem útvarpsverk ársins.
ATH: Leikritið Englabörn er nærgöngult verk um viðkvæmt efni.
Atriði í leiknum gætu reynst viðkvæmum hlustendum erfið.
Leikendur:
Ólafur Egill Egilsson, Álfrún Örnólfsdóttir, Kristján Franklín Magnús, Margrét Ólafsdóttir og Hjálmar Hjálmarsson
Hafnarfjarðarleikhúsið frumflutti Englabörn árið 2001 í leikstjórn Hilmars Jónssonar. Jóhann Jóhannsson frumsamdi tónlist fyrir sýninguna og var það fyrsta tónlistin sem hann samdi fyrir dramatískt verk. Tónlist Jóhanns er einnig í útvarpsleikgerðinni frá árinu 2005.
Verkið er nú endurflutt m.a. til að heiðra tónskáldið sem hefur verið tilnefnt í ár til þrennra verðlauna fyrir tónsmíðar sínar í kvikmynd: Golden Globe (sem hann vann), síðan BAFTA verðlaunanna og loks Óskarsverðlaunanna.
frá 2005
SUNNUDAGUR 8. MARS KL. 13:00
ÍMYNDAÐAR AFSTÆÐISKENNINGAR
eftir Ævar Þór Benediktsson
Leikstjóri: Árni Kristjánsson
Hljóðvinnsla: Einar Sigurðsson
„Albert var sextán ára þegar hann komst að því að hann væri ímyndun besta vinar síns.”
Á þessum orðum hefst útvarpsleikritið Ímyndaðar afstæðiskenningar. Eðlisfræðikennarinn Theodór liggur á líknardeild Landsspítalans og tíminn er senn á þrotum. Sá eini sem vakir yfir honum er ímyndaði vinur hans, Albert, sem hefur fylgt honum í meira en fimmtíu ár. En Theodór má ekki kveðja – ekki strax. Því þeir Albert eiga óuppgerð mál, bæði ímynduð sem og raunveruleg.
Leikendur:
Víðir Guðmundsson, Pétur Einarsson, Sigurður Skúlason, Þorsteinn Bachmann, Atli Þór Albertsson, Davíð Freyr Þórunnarson, Ævar Þór Benediktsson og Harpa Arnardóttir.
frá 2012