Kuggur og leikhúsvélin í Þjóðleikhúsinu
„Jólastjarnan“ Gunnar Hrafn Kristjánsson leikur Kugg
Þjóðleikhúsið frumsýnir í Kúlunni í febrúar nýtt leikrit eftir Sigrúnu Eldjárn um gleðigjafann Kugg og félaga hans. Áður hefur Sigrún skrifað fjölmargar vinsælar bækur um Kugg, Mosa, Málfríði og mömmu hennar, en þetta er í fyrsta sinn sem þau stíga á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu.
Leikstjóri sýningarinnar er Þórhallur Sigurðsson en hann hefur leikstýrt um fjörutíu leiksýningum við Þjóðleikhúsið, þar af mörgum vinsælum barnasýningum, auk þess sem hann hefur sett upp fjölda sýninga í brúðuleikhúsi. Hann leikstýrði meðal annars Leitinni að jólunum og Góðu kvöldi, sem hlutu hvor um sig Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins.
Kuggur er klár strákur sem á frekar óvenjulega vini. Þeir eru Mosi sem er lítill og grænn og svo mæðgurnar Málfríður og mamma hennar. Málfríður er gömul kerling en mamma hennar er ennþá eldri! Þessar mæðgur eru svo sannarlega skemmtilegar og uppátækjasamar. Það er líf í tuskunum þegar þær fara í Þjóðleikhúsið!
Hinn ellefu ára gamli Gunnar Hrafn Kristjánsson leikur Kugg en Gunnar Hrafn hefur áður leikið í tveimur leikritum á Stóra sviði Þjóðleikhússins, í sjónvarpsþáttum og nú í desember sigraði hann söngkeppnina Jólastjörnuna á Stöð2.
Leikkonurnar Edda Arnljótsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir leika Málfríði og mömmu hennar.