Uppsprettan – skyndileikhús
Næst sýning Uppsprettunnar – skyndileikhúss, verður mánudaginn 9. Febrúar. Uppsprettan, sem hefur verið að hasla sér völl í íslensku leihúslífi, hefur það að markmiði að kynna nýja íslenska höfunda og gefa leikurum og leikstjórum tækifæri á að sýna sig og hæfileika sína. Undanfarið höfum við haldið utan um æfða leiklestra á verkum í fullri lengd sem fluttir hafa verið á kaffhúsi Tjarnarbíós, en nú er komið að skyndileikhúsinu okkar.
Höfundar hafa sent inn handrit og vinnur nú sérskipuð dómnefnd að því að velja þau þrjú bestu. Sólarhring fyrir sýningu fá svo leikhóparnir þrír verkin í hendur en mega ekki byrja að æfa fyrr en kl. 18:00 á sýningardegi. Sýningin byrjar kl. 21:00 en öllum er frjálst að mæta og kíkja á æfingarnar. Einnig verður hægt að lesa verkin á hinu notalega kaffihúsi Tjarnarbíós og kynna sér þau áður en skoðað er hvernig leikhóparnir eru að vinna með þau.
Þetta er í fjórða sinn sem Uppsprettan er haldin, en sú fyrsta var keyrð á Menningarnótt 2013. Síðan þá hefur Uppsprettan átt heima í Tjarnarbíói og hefur smám saman verið að vaxa ásmegin. Fjöldi höfunda hefur tekið þátt, þar á meðal Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þór Tulinius, Árni Kristjánsson, Bjargey Ólafsdóttir og Oddný Sv. Björgvinsdóttir.