Nýr dramatúrg við Þjóðleikhúsið
Símon Birgisson hefur verið ráðinn sem sýningar- og handritsdramatúrg við Þjóðleikhúsið. Símon mun hefja störf í febrúar og bætast í hóp þess einvalaliðs sem undirbýr nú næsta leikár í Þjóðleikhúsinu – það fyrsta undir stjórn nýs þjóðleikhússtjóra, Ara Matthíassonar. Markmiðið með ráðningunni er að efla dramatúrgíska vinnu við Þjóðleikhúsið og munu nú verða tveir dramatúrgar starfandi við húsið.
Símon mun jöfnum höndum vinna að handritsvinnu og sem sýningardramatúrg. Hann hefur á þessu leikári komið að skrifum þriggja leikgerða sem nú eru á fjölunum í Þjóðleikhúsinu, Konunni við 1000°, Karítas og Sjálfstæðu fólki. Hann fékk Grímuverðlaunin fyrir leikgerð sína upp úr Englum alheimsins og hefur starfað sem dramatúrg við fjölda sýninga í hinum þýskumælandi leikhúsheimi.
,,Ég er mjög spenntur fyrir að hefja störf í Þjóðleikhúsinu. Þjóðleikhúsið hefur verið leiðandi í frumsköpun og uppsetningu á íslenskum verkum og það verður markmiðið að halda því starfi áfram,” segir Símon.
Símon Birgisson útskrifaðist með BA próf úr fræði og framkvæmd (sviðshöfundabraut) við Listaháskóla Íslands árið 2009. Hann hefur leikstýrt verkum, skrifað eigin leikrit auk þess að vinna að meira en tug uppsetninga í Þýskalandi og Sviss með leikstjóranum Þorleifi Erni Arnarsyni. Símon er einnig þekktur fyrir störf sín á vettvangi fjölmiðla. Hann hefur unnið sem fréttamaður á Stöð 2, DV og Fréttablaðinu. Hann var gagnrýnandi hjá Djöflaeyjunni á Rúv um þriggja ára skeið og menningarritstjóri DV árið 2013.