Hundur í óskilum eru mættir suður með Öldina okkar
- 21. öldin á hundavaði í tali og tónum
- Grímuverðlaunahafarnir fara á kostum sem aldrei fyrr
- 20 ára afmæli Hunds í óskilum
Föstudaginn 9 janúar stíga félagarnir í Hund í óskilum á Nýja svið Borgarleikhússins og sýna nýjasta verk sitt Öldina okkar. Leikritið var frumsýnt á Akureyri 30. okt. sl. og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda. Félagarnir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í hljómsveitinni Hundur í óskilum setja upp, í tilefni af 20 ára afmæli sveitarinnar, glænýtt leik- og tónverki sem kallast Öldin okkar. Hundinum er náttúrlega ekkert íslenskt óviðkomandi; hann gefur sig í tali og tónum að mannlífinu til sjávar og sveita, ræður í gjörðir stjórnmálamanna og spyr allra spurninganna sem brenna í brjóstum leikhúsgesta.
Öldin okkar er á ákveðinn hátt framhald á Sögu þjóðar sem sýnt var 80 sinnum fyrir fullu húsi á Akureyri og íBorgarleikhúsinu 2012-2013, hlaut þrjár Grímutilnefningar og hlaut eina Grímu. Saga þjóðar var sýnd á Rúv nú á nýársdag. Þar fóru þeir félagar Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson á hundavaði í gegnum Íslandssöguna en skildu þó eftir smábút frá aldamótum 2000 fram á okkar dag. Í Öldinni okkar ljúka þeir loks verkinu með því að spóla sig í tali og tónum í gegnum samtímasöguna, ris og fall fjármálakerfisins og ýmsa gjörninga sem sett hafa svip á hina viðburðaríku 21. öld á Íslandi. Frábær skemmtun með helstu tvenndarleikurum landsins!
„Ég hló næstum því allan tímann. Ég hætti ekki að hlæja vegna þess að þetta var ekki fyndið lengur. Ég gat bara ekki meira var gjörsamlega búinn“. Jón Óðinn Waage – akureyri.net „Mikil brýning um blindu okkar“ Þórgnýr Dýrfjörð – Listaukinn.
Nokkrar skemmtilegar staðreyndir um Hund í óskilum:
– Fyrst íslenskra sveita til að troða upp í Royal Albert Hall ( þegar hún hitaði upp fyrir Stuðmenn).
Stuðmenn, Raggi Bjarna og Bjöllukór Hörgárprestakalls hafa öll hitað upp á tónleikum sveitarinnar.
– Fengu Grímuverðlaun fyrir tónlistina íÍslandsklukkunni 2010 og Sögu þjóðar 2012.
– Voru með útvarpsþáttinn „Hundur í útvarpssal“ árið 2006-7 og spáðu þar fyrir um hrunið.
– Hafa aldrei verið með í Frostrósum.
Aðstandendur Höfundur: Hundur í óskilum | leikstjóri: Ágústa Skúladóttir |Tónlist: Hundur í óskilum | Leikmynd og búningar: Axel Hallkell Jóhannesson | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson | Leikarar: Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur G.Stephensen.