Orð gegn orði fer á Stóra sviðið
Sýningin Orð gegn orði hefur heldur betur hrifið leikhúsgesti. Í ljósi mikillar eftirspurnar var ákveðið að færa sýninguna á Stóra sviðið og á morgun, föstudaginn 5. apríl er komið að fyrstu sýningunni þar. Orð gegn orði er í leikstjórn Þóru Karítasar Árnadóttur og óhætt er að segja að sýningin hafi heillað leikhúsgesti. Leikur Ebbu Katrínar Finnsdóttur hefur fengið mikið lof frá gagnrýnendum og vakið sterk viðbrögð áhorfenda sem hafa ekki sparað stóru orðin.
- Þegar er orðið uppselt út apríl en sýningar í maí eru komnar í sölu
- Sýningin hefur vakið einstaklega sterk viðbrögð leikhúsgesta
Veitingasala verður opin að sýningu lokinni
Einleikurinn hefur hreyft rækilega við áhorfendum og fjöldi óska hefur borist um umræður í kjölfar sýninga. Starfsfólk leikhússins hefur orðið þess áskynja að gestir hafi mikla þörf til þess að ræða upplifun sína. Til þess að mæta því verður gestarými opið eftir sýningar og leikhúsgestum gefst kostur á að njóta veitinga og spjalla.
Orð gegn orði (Prima Facie) er margverðlaunað, nýtt verk sem sló í gegn á West End og Broadway, eftir að hafa unnið til leikritunarverðlauna ástralska rithöfundasambandsins. Verkið hlaut Olivier-verðlaunin árið 2023, auk þess sem sýningin hlaut fjölda tilnefninga til Olivier-verðlaunanna og Tony-verðlaunanna.
Eitthvað verður að breytast!
Tessa er ungur og metnaðarfullur lögmaður, hámenntuð og eitursnjöll, sem hefur tekist að klífa hratt upp metorðastigann. Hún vinnur hvert málið á fætur öðru, með framúrskarandi þekkingu sinni á lagabókstafnum, ver sakborninga af fimi og prófar vitni með úthugsuðum spurningum. Skyndilega verður ófyrirsjáanlegur atburður í einkalífi hennar til þess að allt sem virtist svo borðleggjandi sýnist ekki eins einfalt og skýrt og áður, og hún neyðist til að taka hugmyndir sínar og viðhorf til gagngerrar endurskoðunar.
Í verkinu er tekist á við ágengar spurningar um feðraveldið, réttarkerfið, kynferðisbrotamál, siðgæði, sekt og sönnunarbyrði. Hvaða vægi hafa tilfinningar og réttlætiskennd í flóknum málum, og hvenær er sekt nægilega sönnuð? Ebba Katrín Finnsdóttir leikur þennan magnaða verðlaunaeinleik.