Pabbinn finnur afann
Leikararnir Sigurður Sigurjónsson og Bjarni Haukur Þórsson leiða nú saman hesta sína að nýju. Samstarf þeirra ættu flestir Íslendingar að þekkja því þúsundir hafa í gegnum tíðina séð uppsetningar þeirra og kvikmynd. Nú hins vegar standa þeir saman á sviði í fyrsta skiptið.
PABBINN FINNUR AFANN er að nokkru leiti vísun í leikverkin PABBINN, sem frumsýnt var í Iðnó 2007 og sýnt rúmlega hundrað sinnum um land allt, og AFINN sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu 2011 og einnig sýnt rúmlega hundrað sinnum um landið þvert og endilangt. Í báðum sýningunum sem voru einleikir, ásamt HELLISBÚINN, HOW TO BECOME ICELANDIC og MAÐUR SEM HEITIR OVE sem og kvikmyndinni AFINN skiptu þeir félagar ávallt með sér verkum; á meðan annar lék, leikstýrði hinn. Nú í fyrsta skiptið standa þeir á saman á sviði. Sér til halds og trausts hafa þeir fengið góðvin sinn og vítamínsprautuna Guðjón Davíð Karlsson í leikstjórastólinn. Fyrir utan miklar vinsældir á Íslandi hafa sýningarnar PABBINN og AFINN verið sýndar í yfir tuttugu löndum á undanförnum árum og notið mikilla vinsælda.
PABBINN FINNUR AFANN er glænýtt íslenskt verk sem er í senn mjög fyndið og hjartnæmt. Verkið segir frá tveimur mönnum (pabba og afa) á leið í golf til Tenerife, en vegna seinkunar þurfa þeir að hanga í marga klukkutíma á Keflavíkurflugvelli. Gríðarleg flughræðsla afans og erfiðleikar í hjónabandi pabbans, ásamt áskorunum í barnauppeldi, endalausum tækninýjungum og óumflýjanlegum eftirlaunaaldri eru aðeins nokkur af þeim krefjandi málum sem þeir félagar þurfa að kljást við á vellinum. Eins og við er að búast munu þeir félagar spretta úr spori (ekki síst í hlutverkum töframannanna Siegfried & Roy) og líklegt að áhorfendur munu tárast, af bæði hlátri og gráti.
Höfundur: Bjarni Haukur Þórsson
Leikarar: Sigurður Sigurjónsson og Bjarni Haukur Þórsson
Leikstjóri: Guðjón Davíð Karlsson
Tónlist og leikhljóð: Frank Hall
Ljósahönnun: Kjartan Darri Kristjánssson
Hreyfimyndahönnun: Steinar Júlíusson
Aðstoð við myndskreytingu: Natalia Bucior og Júlía Ósk Steinarsdóttir
Leikmunir: Eva Björg Harðardóttir
Tæknistjórn: Óðinn Eldon
Framleiðsla: Íslenska leikhúsgrúppan ehf.
Sérstakar þakkir: RÚV, Þjóðleikhúsið og Jón Þorgeir Kristjánsson
Sigurður Sigurjónsson og Guðjón Davíð Karlsson taka þátt í uppfærslunni með góðfúslegu leyfi Þjóðleikhússins