Í fréttum er þetta helst
Fréttaútsendingar eiga minni í þjóðarsál Íslendinga. Leikmyndirnar og stefin endurspegla tíðaranda hvers tíma, og ógjörningur að finna sannari spegil á samtímann en nýjasta fréttatímann. Fréttir eru sannleikur, og flutningur á þeim sannasti performansinn, enda ekki um neinn leik né lygi að ræða heldur hlutlausa miðlun upplýsinga. Eða hvað? Hvað leynist handan myndavélarinnar? Af hverju talar fréttaþulurinn svona skringilega? Eru þessar fréttir allar eins skrifaðar? Eru þessar endalausu sjónvarpsútsendingar kannski að renna sitt skeið? Erum við orðin dofin?
Sviðslistahópurinn BEIN ÚTSENDING ætlar að gera þessum óljósu mörkum sannleikans og sviðssetningarinnar skil með því að rannsaka hina performatívu eiginleika fréttaflutnings; fagurfræði, form, aðferðir og umgjörð. Niðurstöður hópsins verða kynntar fyrir áhorfendum á sviði, í beinni útsendingu, þar sem allt er undir og ekkert má klikka.
Í fréttum er þetta helst – er partur af Umbúðalausu verkefni Borgarleikhússins þar sem markmiðið er að styrkja grasrótarstarf í íslensku sviðslistalífi og efla tengsl nýrra sviðshöfunda við áhorfendur.
Kæru landsmenn, í fréttum er þetta helst.