Elfar Logi Hannesson
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Sitt af hvoru kómískt. Aðalverkið er uppsetning á nýrri kómedíu, Tindátarnir, sem er byggt á samnefndri ljóðabók eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Hér erum við að feta nýjar slóðir í okkar kómedíu því þetta er skuggabrúðuleiksýning, það höfum við ekki fengist við áður. Leikstjóri er Þór Tuliníus og frumsýnt
verður 30. september í Kómedíuleikhúsinu Haukadal.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Vatnsberi einsog Alice Cooper erum meira að segja fæddir sama dag þó ekki
ár þar skeikar nokkrum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Kúreki enda er ég alinn upp í vestrinu eina. Þegar ég var sex vetra lék ég eitt af Grýlubörnunum á Þrettándagleði Leikfélagsins Baldurs á Bíldudal þá lagði ég kaboj vestið á hilluna og hef síðan bara leikið mér.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Vá örugglega heill hellingur. Ég er alinn þannig upp að betra sé að segja já en nei við vanda hverjum. Held það geti verið meiri kostur en galli enda er ekki vandamál heldur bara lausnir að huxa með opinn haus finnst mér gaman. Einsog flestir Arnfirðingar þá er ég þrjóskur það getur verið galli á stundum. En stærsti gallinn er líklega að ég framkvæmi oft áður en ég huxa.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Sushi sérlega hið vestfirska frá Jötunn átvagni.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Síðast sá ég slatta af sýningum á þremur dögum það var á Act alone
leiklistarhátíðinni á Suðureyri. Allar voru þær einstakar og erfitt að gera uppá milli. Stutta svarið er að þær fengu mann allar til að huxa hver á sinn hátt, stundum leiklega séð, stundum tæknilega séð og þetta var bara hin frábæra endurmenntun.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Er svo einfaldur að það er bara vinnan, leikhúsið. Að viðbættum listum og þá sérlega myndlist. Í dag sæki ég mikið í myndlistarsýningar sem kveikja ávallt hressilega uppí sköpunarkollinum. Síðast en ekki síst er það lestur fer aldrei að sofa nema lesa fyrst og allra best finnst mér að lesa nokkrar bækur í einu.
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Nokk fjölbreytt þegar þetta er párað er ég að hlusta á Hörð Torfa á vinyl. Á vinnustofunni er ég nánast alltaf með einhverja músík á. Svo er bara spurning hvað er undir nálinni eða á Spottifæinu eftir því hvað maður er að gera. Ef ég er að skrifa t.d. þá er ekki séns að ég geti hlustað á Tom Waits, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Nei, þá verð ég bara að hlusta á eitthvað eitís helst hina norsku A-ha. Þegar ég er að lesa þá finnst mér best að hlusta á klassíska músík og þá helst Mahler.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Tuð og neikvæðni. Þegar þannig stemmari er einhversstaðar þá fer ég bara í göngutúr.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Haukadalur í Dýrafirði. Þar er engin klukka og einstök kyrrð.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Freðriksberg í Danmörku. Við hjónin bjuggum þar þegar ég var að mennta
mig til leikara. Ætlum að vera með annan fótinn þar í einhverri framtíð.
Flytja til London eða New York?
London.
Eiga hund eða kött?
Kött.
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
Finnst þér betra að vinna á morgnanna eða kvöldin?
Morgnana.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Vín.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Fallegaljótur.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Lífið er bjútífúl einsog ítalski snillingurinn Roberto Benigni sagði svo sannlega.