Leiklistarskóli Bandalagsins 2022
Opnað hefur verið fyrir skráningu í hinn árlega Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga (BÍL). Skólinn hefur verið haldinn á hverju ári síðan 1997 en skólinn er að þessu sinni að Reykjaskóla í Hrútafirði.
KVEÐJA FRÁ SKÓLANEFND
Kæru leiklistarvinir!
Við hlökkum mikið til þess að bjóða ykkur velkomin í Reykjaskóla í sumar þar sem leiklistarskólinn okkar verður settur í tuttugasta og fimmta sinn! Fjórfalt húrra fyrir þessum áfanga! Skólinn blómstar sem aldrei fyrr og við sjáum fram á mikla sköpun, metnað og gleði í sumar.
Að þessu sinni verða þrjú fjölbreytt námskeið í boði. Við bjóðum velkominn aftur Ólaf Ásgeirsson sem kennir Leiklist I að þessu sinni. Einnig bjóðum við velkomna í fyrsta sinn í kennarahópinn, Jennýju Láru Arnþórsdóttur. Hún mun kenna Leikstjórn II sem er framhald af námskeiði Völu Fannell frá 2021. Þess má geta að Jenný Lára og Vala hafa sömu menntun og mun Vala styðja við undirbúning námskeiðsins til að tryggja samfellu. Sérnámskeið fyrir reynda leikara verður svo í höndum hins þrautreynda kennara Ágústu Skúladóttur. Að þessu sinni verður það námskeiðið Hvernig segjum við sögu sem Ágústa hefur boðið upp á áður við góðar undirtektir. Þá bjóðum við höfundum í heimsókn til að skerpa stílvopnið!
Við vonum að sem flestir eigi þess kost að koma, nema og njóta.
Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju,
Hrefna, Dýrleif, Herdís, Hrund og Gisli Björn