Framúrskarandi vinkona
Geysivinsælar Napólí-sögur Elenu Ferrante nú loks á íslensku leiksviði
Napólí-sögur Elenu Ferrante hafa farið sigurför um heiminn og sjónvarpsþættir byggðir á þeim hafa slegið í gegn. Lesendur og áhorfendur víða um heim hafa hlegið og grátið til skiptis yfir vegferð hinna skarpgreindu vinkvenna Lilu og Elenu sem alast upp í fátækrahverfi í Napólí á sjötta áratugnum. Þær þurfa að beita öllum brögðum til að komast af, brjótast til mennta og berjast fyrir betra lífi í harkalegu umhverfi þar sem ofbeldi stjórnar tilverunni og réttur kvenna er lítils virtur.
Hin suður-afríska Yaël Farber leikstýrir þessari stórsýningu en uppsetningar hennar hafa hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga víða um heim. Gestir Þjóðleikhússins mega eiga von á ítalskri leikhúsveislu þar sem öllu verður tjaldað til við sviðsetningu þessarar mögnuðu sögu um flókna vináttu, heitar ástir, afbrýðisemi, sárar fórnir, æðruleysi og örvæntingu.
Hér er á ferð sannkölluð stórsýning með mörgum af okkar fremstu leikurum.