Tjaldið í Borgarleikhúsinu
Leikhópurinn Miðnætti er barnafjölskyldum að góðu kunnur enda hefur hann á síðustu árum sett upp fjölmargar metnaðarfullar og stórskemmtilegar sýningar fyrir börn á öllum aldri. Hér má t.d. nefna Geim-mér-ei, Á eigin fótum og sýningar og sjónvarpsþætti um álfana dásamlegu Þorra og Þuru. Nú er Miðnætti mætt í Borgarleikhúsið með undurfallega sýningu fyrir allra yngstu leikhúsgestina.
Tjaldið er upplifunarleikhús fyrir börn frá þriggja mánaða til þriggja ára – sem og foreldra þeirra og forráðamenn. Hér verður boðið upp á litla veislu fyrir skynfærin þar sem börnin fá að skyggnast undir leikhústjaldið og upplifa tóna, liti og snertingu sem bæði örvar, þroskar og gleður andann. Athugið að ekki er stuðst við móðurmál í sýningunni svo hún er ætluð öllum börnum óháð tungumáli. Eftir sýningu verður í boði að setjast fram í forsal leikhússins og njóta veitinga og notalegrar stundar með börnunum.
Í samstarfi við leikhópinn Miðnætti. Verkefnið er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneyti — Sviðslistaráði.