Bakkabræður í Gaflaraleikhúsinu
Hinn bráðfjörugi brúðuleikur Kómedíuleikhússins um Bakkabræður er sló í gegn fyrir vestan í sumar heldur nú suður á svið. Bakkabræður hafa komið sér vel fyrir i Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði og er fyrsta sýning laugardaginn 19. september kl.13.00. Önnur sýning verður daginn eftir kosningar, sunnudaginn 26. september kl.13.00. Miðasla fer fram á tix.is og í Gaflaraleikhúsinu.
Bakkabræður er bráðfjörugt brúðuleikrit um hina einu sönnu bræður frá Bakka þá Gísla, Eirík og Helga. Kómedíuleikhúsið hefur fangað fjörið sem fylgir þessum þekktustu klaufabárðum Íslandssögunnar og setur upp sýningu þar sem ævintýri Bakkabræðra eru færð yfir í töfrandi búning brúðuleikhússins.
Lögin í sýningunni eru sungin af Diddú við tónlist sem Björn Thoroddsen, gítarleikari, semur og flytur. Marsibil G. Kristjánsdóttir hannar ævintýraheim leiksýningarinnar og gerir brúðurnar sömuleiðis. Leikari og þjónn brúðanna er Elfar Logi Hannesson, sem einnig er höfundur verksins ásamt Sigurþóri A. Heimissyni sem jafnframt leikstýrir.