Góðan daginn faggi
Sjálfsævisögulegi heimildasöngleikurinn Góðan daginn faggi verður frumsýndur í nýuppgerðum Þjóðleikhúskjallara föstudaginn 13. ágúst kl. 21.00. Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og leikhópsins Stertabendu og eru höfundar og aðstandendur verksins Bjarni Snæbjörnsson leikari, Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri og Axel Ingi Árnason tónskáld.
Góðan daginn faggi er einleikur þar sem fertugur söngleikjahommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Eftir vandasaman leiðangur um innra líf sitt, fortíð og samtíma rekst hann á rætinn hommahatara á óvæntum stað.
Sýningin er berskjaldandi leiðangur um skömm og mennsku og einlægt samtal við drauminn um að tilheyra. Sýningin er unnin upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar sem hann hefur haldið frá æsku til dagsins í dag. Sýningin skartar glænýrri íslenskri söngleikjatónlist eftir Axel Inga Árnason og verður titillag sýningarinnar gefið út á næstu dögum.