Prinsinn eftir Kára Viðarsson og Maríu Reyndal
18 ára menntaskólastrákur er staddur á Laugaveginum í leit að töffaralegum fötum. Síminn hringir, þetta er sæta stelpan sem var að vinna á Prinsinum í sumar. „Ég er ólétt. Þú ert að verða pabbi.“ Andstæðar tilfinningar sækja að honum næstu mánuði. Ótti, afneitun, sjálfsvorkunn, kvíði, vonleysi, þunglyndi. Og svo byrjar hann að verða spenntur. Sátt, friður, bjartsýni, ábyrgðarkennd og tilhlökkun taka við. Ungi maðurinn ákveður með sjálfum sér að verða heimsins besti pabbi. En þá kemur skyndilega í ljós að hann er ekki sá eini sem kemur til greina sem faðir barnsins.
Tuttugu árum síðar, þegar ungi maðurinn er orðinn leikari og rekur lítið leikhús á landsbyggðinni, sest hann niður með leikstjóra og þau skoða þetta mál saman. Þau taka viðtöl við fólkið sem kemur við sögu. Ýmislegt óvænt kemur í ljós. Er maður áreiðanlegt vitni í sinni eigin sögu? Er hægt að muna hlutina rétt?
Sýningin verður frumsýnd í Frystiklefanum á Rifi og víðar um landið og að endingu í Þjóðleikhússinu. Leikferðin er liður í auknu samstarfi Þjóðleikhússins við leikhús á landsbyggðinni. Prinsinn verður áleitið og skemmtilegt verk um föðurhlutverkið – og móðurhlutverkið!
Verkefnið er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu – Leiklistarráði