Sólveig Arnarsdóttir semur við Borgarleikhúsið
Leikkonan Sólveig Arnarsdóttir, sem fer á kostum þessa dagana í Netflix seríunni Kötlu, er flutt heim til Íslands og er búin að gera samning við Borgarleikhúsið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Borgarleikhúsinu.
„Sólveig útskrifaðist fyrir rúmum tuttugu árum frá leiklistarskólanum Ernst Busch í Berlín og hefur starfað jöfnum höndum á Íslandi og í Þýskalandi, nú síðast sem fastráðin leikkona við hið virta leikhús Volksbühne í Berlín. Hún hefur ekki leikið í Borgarleikhúsinu síðan 1993 þegar hún var ógleymanleg í aðalhlutverkinu í Evu Lunu. Sólveig hefur sópað að sér tilnefningum og verðlaunum fyrir leik sinn í kvikmyndum og á sviði.“
Sólveig mun hefja störf í lok sumars og leika hlutverk nornadrottningarinnar Hekötu í Macbeth og í Orlandó eftir Virginiu Woolf.
„Ég er full eftirvæntingar og gleði að taka þátt í spennandi uppbyggingu í Borgarleikhúsinu nú þegar ég er komin heim eftir margra ára starf í þýsku leikhúsi,“ segir Sólveig um þessi tímamót.