Vínylplata með tónlist úr sýningunni Vertu úlfur seld til styrktar Geðhjálp
- Tónlist eftir Emilíönu Torrini, Markéta Irglová, Valgeir Sigurðsson og Prins Póló.
- Platan verður aðeins framleidd í 39 eintökum og hvert eintak selt á 39.000 krónur, með vísan í átakið 39.is
- Verður einstakur safngripur og merkileg heimild um sýningu sem á fáa sína líka
Sýningin Vertu úlfur sem frumsýnd var fyrir skemmstu í Þjóðleikhúsinu hefur fengið frábærar viðtökur. Í tengslum við hana var gefin út vínylplata í takmörkuðu upplagi með tónlist úr sýningunni. Platan er til sölu í Þjóðleikhúsinu og ágóðinn mun renna óskiptur til Geðhjálpar.
Þjóðleikhúsið hóf sýningar á Stóra sviðinu að nýju eftir nær fjögurra mánaða samfellt hlé vegna samkomubanns með frumsýningu á einleiknum Vertu úlfur. Verkið er eftir Unni Ösp Stefánsdóttur sem einnig leikstýrir, og er byggt á bók Héðins Unnsteinssonar sem vakti verðskuldaða athygli og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Fjallað er hispurslaust um baráttuna við geðsjúkdóma út frá sjónarhóli manns sem í senn glímir við geðraskanir og starfar innan stjórnsýslunnar á sviði geðheilbrigðismála.
Í tengslum við sýninguna er nú hægt að kaupa plötu með tónlist Valgeirs Sigurðssonar úr sýningunni, og titillögum eftir annars vegar Emilíönu Torrini og Markétu Irglová, og hins vegar Prins Póló. Einnig les Héðinn Unnsteinsson Lífsorðin 14 inn á plötuna. Platan er einungis framleidd í 39 eintökum og er seld á 39 þúsund krónur, með vísan í átakið 39.is.
Segja má að titillög sýningarinnar endurspegli ólíkar hliðar geðhvarfa. Lag Emilíönu og Markétu fangar hinar dekkri og viðkvæmari hliðar á meðan lag Prinsins endurspeglar oflætið. Þetta er í fyrsta sinn sem Emilíana Torrini semur lag á íslensku og texti hennar er einnig notaður í lagi Prins Póló.