Kardemommubærinn loksins kominn á svið
Kardemommubærinn hefur loksins verið frumsýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins
Meira en ár er frá því að undirbúningur hófst en tvisvar var frumsýningu frestað vegna covid faraldursins. Kardemommubærinn er ástsælasta barnaleikrit Íslandssögunnar. Ágústa Skúladóttir er leikstjóri verksins en fjórum sinnum hafa sýningar undir hennar stjórn hlotið Grímuverðlaun sem barnasýningar ársins.
Kardemommubær er yndislegur bær, fullur af skemmtilegum dýrum og litríkum íbúum. Þrennt ógnar þó friðsældinni í bænum, þrír kostulegir ræningjar, ógurlega ljónið þeirra sem elskar mjólkursúkkulaði og hin ráðríka og skapstygga Soffía frænka! Þegar ræningjarnir fá þá hugdettu að ræna sjálfri Soffíu frænku til að sjá um húsverkin fyrir sig færist heldur betur fjör í leikinn.
Fjöldi leikara, barna og tónlistarmanna tekur þátt í þessari bráðskemmtilegu og kraftmiklu sýningu á ástsælasta barnaleikriti íslenskrar leikhússögu, þar sem yndislegu sönglögin hans Egners gleðja jafnt unga sem aldna!
Kardemommubærinn var fyrst sýndur í Þjóðleikhúsinu árið 1960 og er nú settur á svið í sjötta sinn. Hver kynslóð verður að fá að kynnast töfraheimi Thorbjörns Egner!
Þjóðleikhúsið og Thorbjörn Egner tengjast sérstökum böndum. Verk hans hafa verið samofin starfi Þjóðleikhússins í um sex áratugi, eða allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur hér árið 1960. Egner gerði leikmynd og búninga þegar Kardemommubærinn , Dýrin í Hálsaskógi og Síglaðir söngvarar voru fyrst sýnd hér í Þjóðleikhúsinu. Egner kom einnig til landsins árið 1965 þegar frumuppfærslan var tekin til sýninga að nýju. Egner var mjög ánægður með sýninguna og svo vænt þótti honum um viðtökur verka sinna á Íslandi að hann gaf Þjóðleikhúsinu höfundarréttartekjur af þeim í hundrað ár. Þær tekjur hafa verið nýttar til að efla leikhúsmenningu fyrir börn á Íslandi.