Loksins er komið að frumsýningu á Kópavogskróniku
- Verkið sem átti frumsýna 14. mars slegið af vegna samkomubanns
- Silja Hauksdóttir kvikmyndaleikstjóri þreytir frumraun sína í leikhúsi
- Ilmur Kristjánsdóttir hreifst af bókinni og varð að láta verkið lifna við
- Tónlistarmaðurinn Auður semur tónlistina í sýningunni
Daginn sem leikritið Kópavogskrónika var fullæft og leikarar, tæknifólk og listrænir stjórnendur voru að gera sig klár fyrir lokaæfingu var sett á samkombann á Íslandi. Nú, ríflega hálfu ári síðar, er loksins komið að frumsýningu. Kópavogskrónika byggir á samnefndri bók Kamillu Einarsdóttur sem sló í gegn árið 2018. Ilmur Kristjánsdóttir leikur aðalhlutverk og leikstjóri er Silja Hauksdóttir en Kópavogskrónika er fyrsta leikstjóraverkefni hennar á sviði. Silja hlaut mikið lof fyrir kvikmynd sína Agnes Joy sem frumsýnd var á síðasta ári. Hinn vinsæli tónlistarmaður Auður semur tónlistina í sýningunni.
Kópavogskrónika fjallar um unga, einstæða móður sem í kjölfar ástarsorgar dvelst langdvölum í Kópavogi, – bæ sem sagt er að sé slys og hefði aldrei átt að verða til! Ilmur Kristjánsdóttir og Silja Hauksdóttir skapa ögrandi og skemmtilega leiksýningu upp úr skáldsögu Kamillu Einarsdóttur, sem vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2018.
Kópavogskrónika er hispurslaus ástarsaga úr samtímanum en jafnframt opinskátt verk um samband móður og dóttur. Móðir talar til dóttur sinnar, gerir upp fortíðina og dregur ekkert undan í lýsingum á hömluleysi í drykkju, neyslu og samskiptum við karlmenn. Frásögnin er í senn kjaftfor, hjartaskerandi, kaldhæðin, fyndin og frelsandi.
“Fæst börn eru sérstaklega stolt yfir ríðiafrekum mæðra sinna. Ég get alveg skilið það. En elsku stelpa, þú verður nú að viðurkenna að listinn yfir bólfélaga mína er frekar tilkomumikill.” Skáldsagan hlaut Rauðu hrafnsfjöðrina, verðlaun sem lestrarfélagið Krummi veitir fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins í íslenskum bókmenntum.
“Það eru alveg atriði sem passa en þetta er skáldskapur, ekki ævisaga. En ég á börn og hætti í menntaskóla til að vinna á strípibúllu, svona smáatriði sem passa. En þetta er ekki ég, og ekki mínar uppáferðir og fyllirí í þessari bók.“ Kamilla Einarsdóttir
„Óþægilega þægileg, sorglega fyndin, átakanlega ljúf og lygilega heiðarleg – svolítið vont-gott.“ Ilmur Kristjánsdóttir
Listafólk
Leikverk eftir Ilmi Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur
Byggt á skáldsögu eftir Kamillu Einarsdóttur
Leikstjórn Silja Hauksdóttir
Leikmynd og búningar Sigríður Sunna Reynisdóttir
Tónlist Auður
Leikarar:
Ilmur Kristjánsdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Þórey Birgisdóttir.