Samkomubann
Eins og allir hafa tekið eftir hefur samkomubann verið sett á frá og með miðnætti aðfaranótt mánudags. Þetta mun eðlilega hafa mikil áhrif á leikhúslíf landsins og fjölmargar sýningar falla niður af þeim sökum.
Við hjá leikhus.is hvetjum ykkur til að fylgjast með upplýsingum frá leikhúsunum til að fá nánari upplýsingar um þær sýningar sem falla niður en þetta nær til allra samkoma sem telja 100 manns eða fleiri og á viðburðum þar sem færri koma saman er gert ráð fyrir því að tveir metrar séu á milli fólks.
Þjóðleikhúsið hefur ákveðið að fresta strax öllum sýningum og hafa sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:
Þar sem samkomubann hefur verið sett á í landinu þarf Þjóðleikhúsið, eins og aðrar sviðslistastofnanir, að fresta sýningum um óákveðinn tíma. Helstu sviðslistastofnanir þjóðarinnar, þar á meðal Þjóðleikhúsið, eru í samstarfi um viðbrögð vegna Covid-19 veirunnar. Þó samkomubannið bresti ekki á með formlegum hætti fyrr en á sunnudag, þá hefur leikhúsið ákveðið að fella niður sýningar helgarinnar þegar í stað í varúðarskyni.Um leið og nýjar dagsetningar verða ákveðnar verður send út tilkynning. Sú regla gildir um miðakaup, að ef dagsetningu viðburðar er breytt, þá færast miðarnir sjálfkrafa á nýja dagsetningu. Ef ný dagsetning hentar ekki hafa stofnanirnar ákveðið að veita kaupanda rétt á endurgreiðslu, að því tilskildu að ósk um endurgreiðslu berist stofnuninni innan 7 daga frá tilkynningu um nýja dagsetningu.
Starfsfólk Þjóðleikhússins mun halda áfram að undirbúa næstu sýningar og næsta leikár. Við leggjum allt kapp á að viðhalda sköpunargleðinni í leikhúsinu, og hlökkum til að taka á móti ykkur í Þjóðleikhúsinu um leið og aðstæður leyfa.