Níu líf
Við erum öll, við erum öll, við erum öll; Bubbi.
Bubbi Morthens er samofinn þjóðarsálinni í öllum sínum birtingarmyndum: Stjarnan sem rís úr slorinu; fyrst sem málsvari verkalýðsins, svo alþýðusöngvari þjóðarinnar, þá atómpönkari og gúanórokkari sem breytist í ballöðu-poppara sem syngur með stórsveitum. Skoðanaglaði gasprarinn, skrifblinda ljóðskáldið, fíkilinn sem reis upp, kvennamaðurinn og sá sem elskar aðeins eina konu, Kúbverjinn og Hollywood-víkingurinn, veiðimaðurinn, friðarsinninn og boxarinn. Sögur Bubba Mortens eru sögur okkar allra; sögur Íslands. En hver er hann í raun og veru? Og hver erum við?
Í þessari stórsýningu munu leikarar, dansarar, tónlistarmenn og fleiri góðir gestir, leggja allt í sölurnar við leitina að Bubbanum í okkur öllum og fylla sviðið með sögum, lögum, ljóðum og litum þessa elskaða og umdeilda listamanns.