Brúðumeistarinn í Þjóðleikhúsinu
Átakamikil og nýstárleg sýning um uppgjör brúðumeistara við fortíðina
Bernd Ogrodnik er heimskunnur brúðumeistari sem hefur gert Ísland að heimalandi sínu, og er þekktur fyrir einstakt næmi og listfengi. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir brúðusýningar sínar fyrir börn og fullorðna. Hér fetar hann ótroðnar slóðir og stefnir saman leikhúsforminu og brúðulistinni í nýrri sýningu fyrir fullorðna, þar sem hann leikur sjálfur brúðumeistara sem tekst á við líf sitt og fortíð.
Leikverkið fjallar um þýska brúðumeistarann Günther sem hefur leitað skjóls frá umheiminum í bráðabirgðahúsnæði í Reykjavík, þar sem hann vinnur að nýrri brúðusýningu. En um leið og hann tekst á við flóknar áskoranir í brúðugerðarlistinni leita á hann knýjandi spurningar um fortíðina og sögu heimalands hans, og harmræna atburði sem hafa mótað foreldra hans og hann sjálfan.
Er mögulegt að flýja fortíðina eða leitar hún okkur alltaf uppi á endanum og krefur okkur svara?
Sýningin er í samstarfi við Brúðuheima.