Ferðamaður deyr – Samlestur
Um næstu helgi verður áhugasömum boðið að koma á samlestur á leikritinu Ferðamaður deyr hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar.
Leikritið er nýr farsi eftir höfundasmiðju leikfélagsins og fjallar um ófyrirséðar afleiðingar af fjölgun ferðamanna og hið íslenska hugvit sem á sér engin takmörk. Verkið er í raun óður til íslenskrar ferðaþjónustu.
Leikstjóri verksins verður Ólafur Þórðarson. Hann hefur sótt fjölda námskeiða í leikritun og leikstjórn og verið virkur höfundur og leikstjóri hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar frá árinu 2014.
Ólafur leikstýrði verkinu Ekkert að Óttast sem einnig var skrifað af höfundasmiðju LH og var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2015-2016. Stefnt er að frumsýningu í lok mars.
Allir þeir sem áhuga hafa á að heyra verkið og/eða taka þátt í uppsetningu þess á einhvern hátt eru boðnir velkomnir á samlestur á því laugardaginn 15. febrúar kl. 13.00 í Kapellunni, Suðurgötu 41 í Hafnarfirði.