Meistarinn og Margaríta
Skáldsagan Meistarinn og Margaríta er af mörgum talin eitt magnaðasta skáldverk 20. aldarinnar. Þessi hnyttna og beitta háðsádeila um eilífa baráttu góðs og ills er vinsælt verkefni leikhúsa víða um heim, og birtist hér í nýrri leikgerð sem var frumflutt á Dramaten í Svíþjóð árið 2014.
Satan sjálfur heimsækir Moskvu í líki galdramannsins Wolands og ásamt skrautlegu fylgdarliði sínu tekur hann til við að afhjúpa spillingu og græðgi, og fletta ofan af svikahröppum, loddurum, aurasálum og hrokagikkjum. Jafnframt því að fylgjast með bellibrögðum Wolands kynnast áhorfendur Meistaranum, rithöfundi sem hefur verið lokaður inni á geðspítala af yfirvöldum, og ástkonu hans Margarítu, og inn í fjölskrúðugan sagnaheim verksins blandast óvænt frásögn af Pontíusi Pílatusi og síðustu stundum Jesú frá Nasaret.
Þetta sígilda skáldverk talar til okkar með nýjum og ferskum hætti í heillandi sýningu, þar sem allt getur gerst og undramáttur ímyndunaraflsins ræður ríkjum.
Boðið verður upp á 20 mín. umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu á verkinu.