Sýningum á Matthildi að ljúka í Borgarleikhúsinu
Nú fer hver að verða síðastur að sjá þennan margverðlaunaða söngleik því síðustu sýningar eru nú í desember.
Þessi magnaði söngleikur byggir á sögu Roalds Dahl og fjallar um Matthildi, óvenjulega gáfaða og bókelska stúlku með afar ríkt ímyndunarafl. Foreldrar hennar eru hins vegar fáfróð og óhefluð og skólastjórinn hreinasta martröð. Matthildur lumar á ýmsum ráðum gegn ranglæti og heimskupörum og tekst að vinna sér sess í veröldinni með samviskuna og hugrekkið að leiðarljósi.
Söngleikurinn Matthildur hefur hlotið hátt í hundrað verðlaun af ýmsu tagi og þar af sextán verðlaun sem besti söngleikur. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson sem á að baki stóra söngleikjasigra á borð við uppfærslurnar á Billy Elliot og Bláa hnettinum.