Sýningar á Matthildi halda áfram
Matthildur sló rækilega í gegn í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári og heldur nú sigurgöngunni áfram á Stóra sviðinu með sínum kraftmikla barna- og leikarahópi. Þessi magnaði söngleikur byggir á sögu Roalds Dahl og fjallar um Matthildi, óvenjulega gáfaða og bókelska stúlku með afar ríkt ímyndunarafl. Foreldrar hennar eru hins vegar fáfróð og óhefluð og skólastjórinn hreinasta martröð. Matthildur lumar á ýmsum ráðum gegn ranglæti og heimskupörum og tekst að vinna sér sess í veröldinni með samviskuna og hugrekkið að leiðarljósi.
Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson sem á að baki stóra söngleikjasigra á borð við uppfærslurnar á Billy Elliot og Bláa hnettinum.
Sýningin var kosin sýning ársins í Sögum – menningarverðlaunum barna en um þau verðlaun er kosið eingöngu af börnum. Söngleikurinn fékk einnig tvenn Grímuverðlaun á Íslensku sviðslistaverðlaununum árið 2019; Vala Kristín Eiríksdóttir var leikkona ársins í aukahlutverki og Lee Proud fékk verðlaun fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins.