Gallsteinar afa Gissa
Yfirnáttúrulegur og gáskafullur barna- og fjölskyldusöngleikur með fáránlegri atburðarás sem gæti gerst í öðru hverju húsi á Akureyri.
Torfi og Gríma búa við fyrstu sýn á ósköp venjulegu heimili, en ekki er allt sem sýnist. Mamma þeirra er stjórnsamur skipanaforingi. Pabbinn er viðutan vinnusjúklingur. Bróðirinn er ótemjandi unglingaskrímsli. Systkinin, Torfa og Grímu, dreymir um afslappað heimilislíf, gæludýr og gotterí. Þau hafa fengið nóg af hollustufæði, hreingerningum og skipunum. Þau langar að flytja til afa Gissa, sem er síkátur sjóari á farskipum. Þar væru þau hamingjusöm. En skyndilega fær afi Gissi gallsteinakast sem hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir Torfa og Grímu og fjölskylduna að Sólblómavöllum sautján.
Geta óskir verið hættulegar? Geta gallsteinar látið fólk hverfa sporlaust? Eru kókosbollur mikilvægur morgunverður? Er gott að allar óskir rætist?
Nýr fjölskyldusöngleikur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Þorvald Bjarna Þorvaldsson og Karl Ágúst Úlfsson í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.
Höfundar: Kristín Helga Gunnarsdóttir, Karl Ágúst Úlfsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.
Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir
Tónlist: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Söngtextar: Karl Ágúst Úlfsson
Danshreyfingar og aðstoðarleikstjóri: Katrín Mist Haraldsdóttir
Lýsing: Lárus Heiðar Sveinsson
Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson
Leikarar: Benedikt Karl Gröndal, Birna Pétursdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson, Karl Ágúst Úlfsson, María Pálsdóttir, Margrét Sverrisdóttir.
Með hlutverk barnanna fara Þórgunnur Una Jónsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Örn Heiðar Lárusson og Daníel Freyr Stefánsson.