Risaeðlurnar enn í gangi
Sýningin Risaeðlurnar eftir Ragnar Bragason gengur ennþá fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu en sýningum fer fækkandi.
Listakona og sambýlismaður hennar þiggja hádegisverðarboð íslensku sendiherrahjónanna í Washington. Útverðir lands og þjóðar bjóða upp á þríréttað úr íslensku hráefni, borið fram af ungri, kínverskri húshjálp. Smám saman kemur í ljós að undir glæsilegu yfirborðinu leynast óþægileg leyndarmál. Í gestahúsi við sendiráðsbústaðinn er sonur hjónanna falinn eins og fjölskylduskömm. Þegar hann gerir sig heimakominn í boðinu fara beinagrindurnar að hrynja úr skápnum ein af annarri.
Risaeðlurnar, lokahluti leikhúsþríleiks Ragnars Bragasonar um afkima íslensks samfélags, er nístandi gamanleikur þar sem fortíð, nútíð og framtíð þjóðar mætast.
Fyrri leiksýningar höfundar, Gullregn og Óskasteinar, slógu í gegn á sínum tíma og hlutu báðar fjölda tilnefninga til Grímunnar og Grímuverðlaun.