Don Carlo
Ein af umfangsmestu óperum Verdis, Don Carlo, verður frumsýnd hjá Íslensku óperunni þann 18. október, en óperan hefur aldrei verið sviðssett á Íslandi áður. Eingöngu íslenskir söngvarar taka þátt í sýningunni og ber þar fyrstan að nefna þekktasta óperulistamann Íslands um þessar mundir, bassasöngvarann Kristinn Sigmundsson, sem tekur þátt í óperuuppfærslu hjá Íslensku óperunni í fyrsta sinn í 12 ár og fer hér með eitt voldugasta bassahlutverk tónbókmenntanna, Filippus konung og föður Don Carlo.
Af öðrum söngvurum í sýningunni má nefna Jóhann Friðgeir Valdimarsson í titilhlutverkinu Don Carlo, Helgu Rós Indriðadóttur í hlutverki Elísabetar drottningar og hinn unga og upprennandi baritónsöngvara Odd Arnþór Jónsson, sem nýverið lauk söngnámi frá Mozarteum í Salzburg og sópar að sér spennandi verkefnum um þessar mundir, en hann verður í hlutverki Rodrigo. Auk þess syngja Hanna Dóra Sturludóttir, sem sló í gegn sem Carmen síðastliðið haust, hlutverk Eboli, Guðjón Óskarsson hlutverk Grand Inquisitor, en hefur aðallega sungið við erlend óperuhús á liðnum árum og söng m.a. í Arenunni í Verona á síðastliðnu ári og Viðar Gunnarsson, sem er íslenskum óperugestum að góðu kunnur í fjöldamörgum hlutverkum síðastliðin ár, syngur hlutverk Munksins. Þá verða Erla Björg Káradóttir og Hallveig Rúnarsdóttir í minni hlutverkum.
Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir sýningunni og er Páll Ragnarsson ljósahönnuður og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir búninga- og leikmyndahöfundur. Guðmundur Óli Gunnarsson er hljómsveitarstjóri. Flutt verður fjögurra þátta útgáfan af þessu mikla verki Verdi, og verður hún sungin á ítölsku með íslenskum skjátexta.
Frumsýning verður í Eldborg í Hörpu 18. október og eru þrjár aðrar sýningar ráðgerðar, í október og nóvember.
Sýningin er um þrjár klukkustundir og fimmtán mínútur að lengd með hléi.